Árgangur 1948


Siglfirðingar fæddir 1948 hittast nú um helgina á Siglufirði til að minnast þess að sjö áratugir hafa liðið. Árgangurinn var afar stór, enda íbúar bæjarins aldrei fleiri en þetta ár, rúmlega 3100. Alls fæddust um 120 börn en tíminn leið, einhverjir féllu frá og aðrir fluttu burt og fermingarárgangurinn var 74 börn, fermt 13. og 20. maí. Ragnar Fjalar Lárusson var prestur, Guðbrandur Magnússon meðhjálpari, Vignir hringjari og Páll Erlendsson organisti og kórstjóri.

Árgangsmótið hófst á föstudagskvöld á samfundi í Bláa húsinu. Í morgun var komið saman og gengið um skógræktina í Skarðsdal. Eftir hádegi hittist hópurinn í kirkjunni þar sem Kjartan Örn Sigurbjörnsson minntist látinna úr fermingarhópnum. Þá var farið að Síldarminjasafninu og sýnt skilti sem hópurinn gefur safninu og verður við gangstíginn gegnt Bátahúsinu. Þar er uppdráttur af öllum síldarplönum í bænum og ljósmyndir af 6 plönum sem voru á þessum slóðum. Framhald mun verða og fleiri árgangar feta í þessi spor. Skiltið er gert í samvinnu við Örlyg Kristfinnsson.

Að þessu loknu var Síldarminjasafnið skoðað, farið á Ljóðasetrið, litið inn í kaffihúsi Fríðu og á ljósmyndasafninu við Vetrarbraut svo og í Segul 67 brugghús. Um kvöld er hátíðarsamkoma í Bláa húsinu með fjölbreyttri dagskrá.

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Sverrir Páll Erlendsson.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is