Ánægjuleg heimsókn frá Belgíu


Reykur úr miklu, strýtulöguðu tjaldi sunnan við Stóra-Bola fyrr í kvöld
vakti áhuga fréttamanns, enda slíkt ekki beint algeng sjón, og honum lék forvitni á að vita hverju þetta sætti. Í
ljós kom að þar inni var fimm manna fjölskylda – hjón með þrjú börn sín – frá Brussel sem
var að elda sér íslenskan fisk á lítilli kamínu og ylja sér í leiðinni.

Fólkið kvaðst afar hrifið af norðurslóðum og hefur margoft verið í Noregi og þar um kring, og á Írlandi og Skotlandi og víðar, en hafði aldrei komið til Íslands og lét því verða af því núna. Það kom með Norrænu til Seyðisfjarðar í byrjun ágústmánaðar og hyggst aka í kringum landið; er búið að vera í Siglufirði í nokkra daga og lætur vel af dvöl sinni hér.

Aðspurð um þetta merkilega tjald sögðust hjónin hafa keypt það á Englandi í gegnum Internetið og væri það úr bómullarefni; þau höfðu átt annað áður, en það hafði verið úr næloni og látið illa ef eitthvað blés að ráði. Þau eru mikið fyrir útilegur, en konunni verður oft kalt þegar dimma fer, og það var eiginlega útgangspunkturinn. Sænski herinn notar víst þessa gerð mikið. Afar þægilegt er að setja tjaldið upp og þau voru alsæl með kaupin.

Þau eru miklir náttúruunnendur, hún aðallega í fuglaskoðun en hann er meira í fjallgöngum. Hún hafði á orði, að það hefði verið einstök upplifun að sjá allar andategundirnar á Mývatni, og að það hlyti að vera afar sérstakt, ef ekki einsdæmi í veröldinni, að geta skoðað þær og aðra fugla á jafn litlum bletti og í svona ríkum mæli og þar. Einnig hrifust þau af fugla- og hvalaskoðunarferðinni á Skjálfandaflóa.

Konan fékk auðvitað að heyra af svörtu kríunni, þó það nú væri, og fannst henni mikið til koma. Og ekki varð gleðin minni þegar henni var bent á staðinn handan fjarðarins þar sem hún hafði sést.

Þetta ætlaði hún að láta bróður sinn vita; hann er nefnilega enn meiri fuglaáhugamaður en hún, fer landa á milli til þess eins að berja þá augum.

Hver veit nema hann birtist að ári.

Svona var aðkoman.

Belgíska fjölskyldan.

Tjaldið er sænskt, níu manna, en einungis um 12 kg að þyngd.


Og kamína fylgir. Sú er ekki nema 15-16 kg.


Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is