Alþýðuhúsið um næstu helgi

Helgina 6.-7. júlí verður mikið um að vera í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Laugardaginn 6. júlí kl. 14.00 opnar Unndór Egill Jónsson sýningu í Kompunni sem ber yfirskriftina Fleygur, og stendur sú sýning til 28. júlí. Sunnudaginn 7. júlí kl. 14.30 er boðið upp á Sunnudagskaffi með skapandi fólki þar sem Línus Orri Gunnarsson sér um þjóðlagasamspil. Samspilið fer þannig fram að fólk sest í hring með hljóðfærin sín og spilar það sem það kann úr alþýðuarfi. Allir eru velkomnir til þess að taka þátt eða hlusta.

 

Fleygur

Undanfarin ár hefur Unndór Egill verið heillaður að viðarasamsetningum og þeirri virkni sem þær gegna í strúktúrum. Á þessari sýningu hefur Unndór unnið fjögur þrykk þar sem sérstakri athygli er beint að því mótsagnakennda hlutverki sem fleygur gegnir í þeim samsetningum.

Tré, sem er grunnefniviður sýningarinnar, mótast af þeim umhverfisþáttum sem eru á vaxtarstað þess. Sólin togar greinarnar í átt til sín. Snjóþyngslin þrýsta því niður. Vatnið flytur að næringu og vindurinn fettir það og brettir. Þegar trjábolurinn er flettur birtist þessi frásögn í víxlun á sumar- og vetraræðum trésins. Ár eftir ár hleður tréð á sig vitneskju um umhverfi sitt og verður sem lífræn formmyndun þess.

Það má segja að við fyrstu sýn virðist sem geómetrísku línur samsetningarinnar og lífrænu æðar viðarins séu andstæðingar og vinni gegn hverjar öðrum. En þegar betur er að gáð sést að að baki hönnun samsetningarinnar liggur skilningur á eðli trésins. Því viðarsamsetningin tekur mið af náttúrlegum hreyfingum viðarins. Þannig beinir Unndór sjónum að þeim mætti sem verður til þegar andstæður vinna saman og er það von hans að það gefi byr undir vængi þeirrar hugmyndar að veröldin sé ein samfelld heild í stað þess að vera samsett úr mörgum aðskildum hlutum. Vonarneisti þeirrar hugsunar liggur í aðgerðinni að reka fleyg í samsetninguna því í stað þess að sundra þá sameinar hann.

Unndór Egill Jónsson útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2008 og svo með Mfa gráðu frá Listaháskólanum Valand í Gautaborg í Svíþjóð árið 2011. Unndór hefur verið virkur í sýningahaldi frá útskrift bæði hér á landi sem erlendis. Helstu sýningar eru Momentu Design í Momentum Arthall í Moss í Noregi árið 2010, Ríki, flóra, fána, fabúla í Listasafni Reykjavíkur árið 2016, Cloudbusters: Intensity vs. Intension í Estonian Museum of Contemporary Art í Tallinn í Eistlandi árið 2018 og einkasýningin Tvívængja í Nýlistasafninu árið 2015. Með fram sýningarhaldi hefur Unndór verið mjög virkur í félagsstarfi innan listaheimsins, hann gegndi stöðu formans Myndhöggvarfélagsins í Reykjavík á árunum 2013 til 2015. Þá hefur hann tekið að sér sýningarstjórnun, skipulagt listviðburði. Með fram myndlistinni starfar Unndór nú sem kennari og forstöðumaður verkstæða hjá Listaháskóla Íslands.

Alþýðuhúsið á Siglufirði - Siglufjörður - Unndór Egill Jónsson Alþýðuhúsið á Siglufirði - Siglufjörður - Unndór Egill Jónsson

Myndir og texti: Aðsent.