Alþjóðlegt fjallaskíðamót


„Markmið mótsins er að efla útivist í náttúrulegu umhverfi svo og að vekja athygli á töfrum Tröllaskaga,“ segir í tilkynningu um alþjóðlega fjallaskíðamótið Super Troll Ski Race sem fram fer á Tröllaskaga í byrjun maí.

Með mótinu er Skíðafélag Siglufjarðar, Skíðaborg, að endurtaka leikinn frá því í fyrra. Þátttakendur ýmist ganga á skíðum sínum eða renna.

„Mótið hefst í Fljótum og verður gengið frá Heljartröð yfir Siglufjarðarskarð í átt að Illviðrishnjúki og niður að skíðaskálanum í Skarðsdal. Keppnisleiðin er krefjandi og því mikil ögrun fyrir þátttakendur,“ segir um leiðina.

Fram kemur að megintilgangur mótsins sé að efla barna- og unglingastarf Skíðafélags Siglufjarðar og að allur ágóði renni til félagsins.

„Mikil gróska hefur verið í fjallaskíðamennsku á Tröllaskaga svo og úti í heimi en ástundun íþróttarinnar sameinar bæði útivist og líkamsrækt,“ segir í tilkynningu mótshaldara sem lofar veglegum verðlaunum, meðal annars þyrluskíðun.

Verndari mótsins og sérstakur gestur er Tómas Guðbjartsson læknir.

Mynd og texti: Vísir.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is