Alþjóðlegi bangsadagurinn


Alþjóðlegi bangsadagurinn er 27.
október, sem jafnframt er afmælisdagur Theodore (Teddy) Roosevelt
(1858-1919), 26. forseta Bandaríkjanna. Hann var mikill
skotveiðimaður og sagan segir að eitt sinn árið 1902 þegar hann var á
veiðum hafi hann vorkennt litlum, varnarlausum bjarnarhúni og sleppt
honum. Dagblaðið Washington Post birti skopmynd af þessum atviki.
Búðareigandi einn í Brooklyn í New York varð svo hrifin af þessari sögu
að hann bjó til leikfangabangsa sem hann kallaði í höfuðið á Teddy eða
Teddy Bear.

Nú er þessi leikfangabangsi orðin
vinsæll leikfélagi barna um allan heim, og er framleiddur í ýmsum stærðum, litum og gerðum, og er líklega það leikfang sem
flestum, bæði ungum og öldnum, þykir hvað vænst um.

Í mörgum bókum er hann
persóna sem táknar öryggi, kærleik og góða nærveru.

Síðan árið 1998 hafa bókasöfn á
Norðurlöndum haldið upp á Alþjóðlega bangsadaginn og það var eins í dag.
Á Bókasafni Fjallabyggðar á Siglufirði, sem opnaði kl. 09.30 í morgun
af þessu tilefni, var bangsaþema og voru allir bangsavinir velkomnir
þangað með bangsana sína og fjölmargir tóku því boði og litu í heimsókn.


Bókasafnsbangsi ársins 2010 heitir
Sigfrid og situr á Bókasafni Fjallabyggðar sem tákn um notalegt og
vingjarnlegt andrúmsloft bókasafnsins.

Umrædd teikning í The Washington Post árið 1902.

Það er eitthvað hlýtt og notalegt við ímynd leikfangabangsans.

Þær Sara, Marta og Sumeja voru mættar í hið nýja kósíhorn bókasafnsins í dag með bangsana sína

og létu fara vel um sig innan um hollt og gott lesefnið. 

Skopmynd og bangsamynd: Fengnar af Netinu.

Mynd úr bókasafni og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is