Alþjóðleg ráðstefna um ljóstækni


Alþjóðleg ráðstefna um ljóstækni hefur farið fram á Siglufirði undanfarna daga. Ráðstefnan ber yfirskriftina Dinamo 2017 og hana sækja um 70 sérfræðingar alls staðar að úr heiminum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur haft veg og vanda að undirbúningi og skipulagningu ráðstefnunnar. Ráðstefnugestir komu til Siglufjarðar sl. sunnudag og hafa fundað stíft alla vikuna. Dagskráin hefur verið brotin upp með ýmsum uppákomum eins og gönguferð um bæinn undir styrkri leiðsögn Ómars Haukssonar, heimsókn á Síldarminjasafnið þar sem Steinunn María Sveinsdóttir, fagstjóri safnsins og jafnframt formaður bæjarráðs Fjallabyggðar, heillaði gesti upp úr skónum með afar áhugaverðum fróðleiksmolum og sögum frá Síldarárunum. Eins var farið bjórsmökkun í Segul 67 og í heimsókn á Súkkulaðikaffihúsið hjá Fríðu og gætt sér á góðum veitingum þar. Og Siglufjarðarkirkja var opnuð til skoðunar.

Farið var í eina skoðunarferð út fyrir bæjarmörkin, þar sem gengið var um Dimmuborgir, farið í jarðböðin í Mývatnsveit ásamt því að skoða hverasvæði og hinn stórbrotna Goðafoss. Lokakvöldverður ráðstefnunnar var haldinn á Kaffi Rauðku í gærkvöldi þar sem Þórarinn Hannesson fór algjörlega á kostum, með rímnakveðskap, fjöldasöng og að lokum voru flestir ráðstefnugestir komnir í banastuð á dansgólfinu, eitthvað sem enginn átti von á að gerðist í þessu vísindasamfélagi.

Óhætt er að segja að ráðstefnugestir séu himinlifandi með staðsetningu ráðstefnunnar. Þeir hafa mikið talað um fegurð fjarðarins, vingjarnlegt viðmót, afslappað samfélag og einstaka menningu. Svo hefur veðrið reyndar sýnt allar sínar hliðar, þá daga sem gestirnir hafa dvalið í bænum. Einn ráðstefnugestanna hafði á orði að hann hefði eiginlega átt að vera á annarri ráðstefnu sem haldin var í San Francisco á sama tíma, en þegar að hann sá að þessi ráðstefna yrði haldin á Siglufirði og hann fór að gúggla staðinn, var valið auðvelt.

Viðtökurnar á Siglufirði hafa verið frábærar. Margir hafa lagt hönd á plóg til að láta allt ganga upp. Aðstaðan á Sigló hótel og Hótel Siglunesi er til fyrirmyndar, ráðstefnuaðstaðan í Bláa húsinu mjög góð og allar veitingar og viðurgjörningur frammúrskarandi.

Ég vil koma á framfæri einlægu þakklæti til alls starfsfólks á Sigló hóteli, Hótel Siglunesi, Kaffi Rauðku og til Fjallabyggðar. Siglufjörður er einstaklega góður staður til að halda ráðstefnur sem þessar.

Forsíðumynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Mynd úr jarðböðunum og texti: Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands | si@nmi.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is