Alsæll með útúrdúrinn


Hinn afar geðþekki Noel Santillan, 28 ára gamall, frá Perth Amboy í New Jersey í Bandaríkjunum, sem í gær og dag hefur verið eitt aðalumfjöllunarefni íslenskra fjölmiðla, vegna óvæntrar stefnu sem ferðalag hans tók, kveðst hafa allt frá árinu 2010 ætlað að sækja Ísland heim, hann hafi aldrei komið hingað áður, og loks þegar hann hafi látið verða af því hafi það gerst sem gerðist.

„Ég hafði ætlað mér að vera í Reykjavík eina nótt og aka svo um Ísland, á milli þorpa og bæja, en halda mig þó mestmegnis á Suðurlandi, einfaldlega vegna þess að ég taldi það betra veðurfarslega, en það hafði eiginlega aldrei hvarflað að mér að keyra yfir hálft landið fyrsta daginn, allra síst eftir fimm klukkustunda flug frá New York,“ sagði hann í viðtali við tíðindamann og ljósmyndara Siglfirðings.is um hádegisbilið og brosti, alsæll með að þetta hafi samt æxlast svona, því það sem fyrir augu hafi borið hafi verið frábært alla leiðina norður og svo hafi Siglfirðingar tekið honum opnum örmum og greitt götu hans í hvívetna, Sigló Hótel sé einstakt og bærinn og allt umhverfið ævintýri líkast.

Eftir nokkurn tíma í akstri fór hann að gruna að eitthvað væri öðruvísi en það ætti að vera og athugaði GPS-tækið í tvígang en niðurstaða þess var í bæði skiptin sú sama, að hann væri á réttri leið. Við Laugarveg 18 var hann kominn á áfangastað, fullyrti græjan, og þar knúði hann dyra. Hótel Frón í Reykjavík, þar sem hann átti pantað herbergi, er þó við Laugaveg 22A.

„Ég fer suður á morgun, var að kynnast öðrum Bandaríkjamanni hér á Siglufirði, Jeremy að nafni, og við ætlum að vera í samfloti. Á laugardag, 6. febrúar, er svo áætluð heimferð til Bandaríkjanna.“

Á meðfylgjandi ljósmynd var hann að snæða hádegisverð í aðalmatsal Sigló Hótels, og naut á meðan útsýnisins yfir smábátahöfnina.

Þess má geta, að Laugarvegurinn á Siglufirði hefur verið nefndur Þingmannagatan, því við hann hafa óvenju margir stjórnmálamenn búið, eða nánar tiltekið Birkir Jón Jónsson (nr. 31), Illugi Gunnarsson (nr. 7), Kristján L. Möller (nr. 25) og Sigríður Anna Þórðardóttir (nr. 35), auk þess sem Höskuldur Þórhallsson tengist Laugarvegi 23 (afi hans og amma áttu þar heima) og Siv Friðleifsdóttir tengist Laugarvegi 27.

Sjá nánar hér.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]