Almyrkvi á tungli 21. desember


Á vetrarsólstöðum, þriðjudagsmorguninn 21. desember, á stysta degi ársins, verður almyrkvi á tungli. Ef veður leyfir sést myrkvinn vel frá Íslandi þótt tunglið sé tiltölulega lágt á lofti á vesturhimni, rétt fyrir ofan Óríon, milli fótleggja Tvíburanna og horna Nautsins. Almyrkvinn hefst klukkan 07:40 og stendur yfir til klukkan 08:54. Þennan desembermorgun mun því rautt og jólalegt tungl svífa eins og risavaxin náttúruleg jólakúla á himnafestingunni og boða rísandi sól.

Tunglmyrkvar geta aðeins orðið þegar sólin, jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu. Tunglmyrkvar verða því aðeins þegar tungl er fullt og fer inn í skugga jarðar. Þrátt fyrir þetta verða tunglmyrkvar þó ekki mánaðarlega því brautarplan tunglsins og brautarplan jarðar eru ósamsíða. Tunglbrautin hallar um 5° frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi jarðar yfirleitt undir eða yfir tunglið.

Skuggi jarðar er tvískiptur og því eru til þrjár gerðir af tunglmyrkvum: Almyrkvar, deildarmyrkvar og hálfskuggamyrkvar. Gerð myrkvans hverju sinni fer eftir því hvernig tunglið færist inn í skugga jarðar. Alskugginn er dimmasti hluti jarðskuggans og þar sést sólin alls ekki. Hálfskugginn er hins vegar ekki eins dimmur en innan hans sést hluti sólar.

Tunglmyrkvar sjást frá allri næturhlið jarðar, ólíkt sólmyrkvum sem sjást aðeins frá takmörkuðu svæði á jörðinni. Í þetta sinn sést myrkvinn best frá Norður-Ameríku en líka vel frá Íslandi þótt tunglið sé tiltölulega lágt á lofti á morgunhimninum í vestri. Seinast sást almyrkvi frá Íslandi aðfaranótt 21. febrúar 2008.

Sjá alla fréttina hér.

Ómyrkvað, fullt tungl.

En svona kemur það til með að líta út í fyrramálið, eins og 21. febrúar 2008 þegar myndin var tekin.

Mynd af ómyrkvuðu tungli: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Mynd af almyrkvuðu tungi 21. febrúar 2008: Fengin af Stjörnufræðivefnum (http://www.stjornuskodun.is/)

Texti: Sverrir Guðmundsson | sverrirstjarna@gmail.com

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is