Alma fékk orðu

Alma Dagbjört Möller landlæknir fékk riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni og ellefu öðrum. Þau þrjú hafa verið í forystusveit í aðgerðum gegn kórónuveirufaraldrinum.

Alma var skipuð landlæknir fyrir rúmum tveimur árum, fyrst kvenna. Hún er fædd á Siglufirði árið 1961, yngst af sex börnum Jóhanns G. Möller verkalýðsleiðtoga og bæjarfulltrúa og Helenu Sigtryggsdóttur, sem er 96 ára.

Alma er með sérfræðiviðurkenningu og doktorsgráðu í svæfinga- og gjörgæslulækningum, meistarapróf í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu og sérfræðiviðurkenningu í heilbrigðisstjórnun. Frá árinu 2014 var hún framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala en áður var hún yfirlæknir á gjörgæsludeildum Landspítala í Fossvogi og við Hringbraut.

Mynd: Vísir.is.
Texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]