Alls voru níu síldarverksmiðjur reistar hér í firðinum


Í tilefni af frétt í Morgunblaðinu í gær, um niðurrif
síldarverksmiðjunnar okkar gömlu, hefur Siglfirðingur.is óskað eftir
upplýsingum frá Örlygi Kristfinnssyni um þær verksmiðjur sem hér hafa
starfað.

Þær voru auðfengnar.

Hann skrifar:

Árið 1911 tóku tvær síldarverksmiðjur til starfa á Siglufirði,
Bakkevigsverksmiðjan fyrst og síðan Evangersverksmiðjan og er hún
jafnframt fyrsta verksmiðjan sem kalla mætti stóriðju. Það sama sumar
voru tvær fljótandi bræðsluverksmiðjur starfræktar á firðinum,
bræðsluskipin Alpha og Eureka.

Árið 1912 hóf Söbstadverksmiðjan starfsemi. Tormod Bakkevig, Olav og Gustav Evanger og Hans Söbstad voru allir norskir.

Árið 1913 byggði daninn Sören Goos verksmiðju á Eyrinni sem fékk nafnið Rauðka.

Árið 1919 byggðu Gránufélagið og þýskt
fyrirtæki síldarverksmiðju á Siglufirði sem kölluð var Grána og var hún
talin fyrsta íslenska síldarverksmiðjan.

Árið 1926 byggði þýski iðjuhöldurinn
dr. Carl Paul verksmiðju á Siglufirði. Sú verksmiðja var ýmist kölluð
Paulverksmiðjan, Paul, Doktor Paul eða einfaldlega SRP eftir að hún
komst í eigu Síldarverksmiðja ríkisins.

Þá byggði ríkið þrjár verksmiðjur á
Sigló; fyrst 1930 og var sú nefnd SR30, sú næsta tók til starfa 1935 og
var kölluð SRN (N = nýja) og loks árið 1946 reis landsins stærsta
síldarverksmiðja fyrr og síðar SR46, sú sem nú er verið að rífa niður í
frumeindir sínar.

Niðurstaðan er sú að alls voru níu
síldarverksmiðjur reistar og reknar á Siglufirði og nú þegar minnast
ætti 100 ára afmælis fiskimjölsiðnaðar á Íslandi er verið að rífa
síðustu verksmiðjuna á Siglufirði, fyrrum höfuðborg síldarinnar.

Reyndar er áformað að efna til svolítils málþings um þetta 100 ára afmæli á Jónsmessuhátíð Síldarminjasafnsins í vor.

Siglfirðingur.is færir Örlygi bestu þakkir fyrir sendinguna.

Þórður Andersen í verksmiðjunni, sem nú er búið að selja.

Mynd og inngangstexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Ívitnaður text: Örlygur Kristfinnsson

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is