Allra hjóna elst

Trausti Magnússon og Hulda Jónsdóttir

Trausti Magnússon er 100 ára í dag, 13. ágúst, fæddur í Kúvíkum við Reykjarfjörð í Strandasýslu og heitir fullu nafni Trausti Breiðfjörð. Hann var næstelstur af fjórum börnum Magnúsar Hannibalssonar skipstjóra og Guðfinnu Guðmundsdóttur. Auk þriggja alsystkina átti Trausti sex hálfsystkini, samfeðra, en eitt þeirra varð 94 ára.

Trausti var alinn upp á Gjögri, hóf sjóróðra með föður sínum átta ára gamall og flutti til Djúpuvíkur átján ára og var á ýmsum skipum, lengst af skipstjóri á Hörpu, sem var meðal annars flóabátur á Húnaflóa. Bjargaði mönnum úr sjávarháska 1948. Hann flutti að Sauðanesi við Siglufjörð árið 1959 og gerðist vitavörður í Sauðanesvita. Fyrstu átta ár Trausta á Sauðnesi var staðurinn ekki í vegasambandi og þurfti þá að ganga eftir tæpum götum fyrir Strákafjall til að komast til Siglufjarðar eða að fara yfir fjöll. Einnig var hægt að fara sjóleiðina, en lending var erfið. Hann flutti til Reykjavíkur um áttrætt.

Kona Trausta er Hulda Jónsdóttir og er hún orðin 97 ára. Samanlagður aldur þeirra hjóna er 197 ára. Engin hjón eru eldri en nokkur hafa verið gift lengur vegna þess að þegar Trausti og Hulda giftu sig var hann orðinn 32 ára og hún 29 ára. Síðustu ár hafa þau hjónin búið að Austurbrún 39 í Reykjavík. Fimm af sex börnum þeirra eru á lífi.

Á myndinni eru Trausti og Hulda í heimsókn á Sauðanesi.

Mynd: Björn Valdimarsson │[email protected]
Texti: Jónas Ragnarsson │ [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]