Álftirnar eru komnar


Álftirnar, sem verpt hafa í
Langeyrarhólmanum undanfarin ár, eru komnar til Siglufjarðar úr vetrarheimkynnum sínum og er það
enn eitt örugga merkið um að vorið sé í nánd.

Sveinn Þorsteinsson tók nokkrar myndir þar innfrá í dag.

En fyrst smá fróðleikur. 

Álftin er langstærst íslenskra fugla. Hún er 145-160 cm að lengd, um 9.000 g að þyngd að meðaltali – kvenfuglar yfirleitt um 8.000 g, karlfuglar um 1.000 g (frá Danmörku eru þó dæmi um karlfugla, sem vógu 14.000 g) – og með 218-243 cm vænghaf.

Hún er alhvít að lit nema á höfði, sem er ofurlítið gulleitt. Nefið er fagurgult við rótina en svart að framan. Lithimna augna er yfirleitt brún, getur þó í undantekningartilfellum verið blá. Fætur eru dökkgráir eða svartir. Litamunur kynja enginn.

Álftin verpir í Lapplandi, Norður-Rússlandi og vítt um freðmýrar Síberíu, austur á Kamtsjatkaskaga og Sakalín. Hún er á Kommandereyju í Beringshafi, nyrst á Japanseyjum, og á afmörkuðum svæðum í Mið-Asíu, einkum við Kaspíahaf. Talið er að álftin hafi verpt á Grænlandi áður fyrr en veiðimenn eskimóa útrýmt henni. Nú er hún einungis flækingur þar.

Deilitegundir eru engar.

Íslenska álftin er í eðli sínu farfugl er kemur hingað snemma á vorin. Kjörlendið er mýri hverskonar, jafnt í byggð sem til fjalla. Gróðursælar tjarnir og stöðuvötn eru í miklu uppáhaldi. Hún er félagslynd, nema um varptímann; þá er hvert par út af fyrir sig.

Um mánaðamótin apríl-maí fer álftin að gera sér hreiður. Það er mikil dyngja, oftast staðsett í hólma í tjörn eða á eða í sefþykkni við bakka. Hún er gjarnan 50-70 cm á hæð, 100-200 cm í þvermál (jafnvel 300 cm) og gerð úr kvistum, stönglum og blöðum og fóðruð innst með dúni. Varptími hefst yfirleitt í kringum 15. maí. Hreiðrið og jafnvel tjörnin öll er varin af grimmd og engum liðið að gera ferð sína þar um.

Hér á landi eru eggin að jafnaði 3-5 talsins en í Rússlandi t.d. oftast 4-7. Þau eru hvít en litast fljótt af jarðefnum í hreiðrinu. Útungun tekur 31-42 daga og liggur kvenfuglinn einn á en steggurinn er á verði á næstu grösum. Ungarnir skríða dúnklæddir úr eggi og njóta mikillar umhyggju. Þeir verða fleygir 78-96 daga gamlir. Ungfuglar eru öskugráir með ljósbleikt nef, dökkleitt fremst.

Á sumrin lifir álftin mest á slýkenndum jurtum og rótum sem hún rífur úr botni en einnig á sefi, fergini og grasi á bökkunum. Ennfremur étur hún skordýr, hornsíli og fiskaseiði. Að vetrarlagi tekur hún einkum marhálm við sjávarsíðuna en einnig skeldýr og orma.

Mestur hluti íslenska stofnsins fer héðan til Bretlandseyja á haustin, einkum Skotlands og Írlands. Lagt er af stað í október og stundum flogið hátt. Er frægt dæmið um álftirnar 30 sem flugmaður tilkynnti um hinn 9. desember árið 1967 í rúmlega 8.200 m hæð yfir Hebrideseyjum (Suðureyjum) vestur af Skotlandi en það er rétt neðan við farleiðir þotna. Vindhraðinn fer þar oft í 200 km/klst eða 112 sjómílur en nefna má til samanburðar að fárviðri samkvæmt Beaufortkvarðanum (12 vindstig) er þegar vindhraðinn fer upp í 68-136 mílur á klukkustund. Flughraði álftanna mældist 139 km/klst. Súrefni í þessari hæð er einungis 40% af því sem er á jörðu niðri og þar er líka nístingskuldi svo menn gætu ekki lifað af á þeim slóðum án tækjabúnaðar. Í umræddu tilviki var hitastigið -48°C. En hitt þekkist líka að álftir fljúgi lágt yfir sjó alla leiðina til Bretlands.

Myndir: Sveinn Þorsteinsson | svennith@simnet.is

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is