Álft með laskaðan fót?


Álftirnar, sem verptu í Langeyrarhólmanum þetta vorið, hafa verið úti á firði með
ungana sína fimm að undanförnu, en á meðan notuðu aðrar fjórar tækifærið
og vöfruðu um svæðið. Sú kenning var uppi í bænum að e.t.v. væru það ungar sama
parsins frá því áður.

En nú eru þær sumsé farnar og hinar komnar aftur á tjörnina.

Þetta vakti athygli fréttamanns, og ekki þó síður hitt, að ungarnir héldu sig á vatninu en þær fullorðnu uppi í hólmanum, sem er óvenjulegt.

Síðar í dag kom hugsanleg skýring á þessu, þegar Sveinn Þorsteinsson sá að annað foreldranna virtist haltra. Hann náði myndum þegar sá fugl klöngraðist niður fjöruna og lagðist til sunds og notaði bara annan fótinn, en lagði hinn aftur fyrir sig og upp, eins og til hvíldar.

Siglfirðingur.is hafði undir kvöld samband við álftasérfræðing, sendi honum myndir og spurði hvort þetta væri eitthvað sem álftir stunduðu alla jafna, eitthvað svipað og himbriminn gerir á stundum, og fékk það svar að svo væri ekki, þótt það kæmi fyrir að þær dóluðu sér og beittu þá einungis öðrum fæti. En þetta fannst honum undarlegt.  

Jafnframt sagði hann að fuglar hefðu mikla aðlögunarhæfni og hann vissi dæmi um álft sem hafði fótbrotnað en sárið greri og allt varð eins og fyrr. Og önnur dæmi nefndi hann svipuð.

Því er vonandi að þetta fari allt vel.

Mestur hluti íslenska álftastofnsins fer til Bretlandseyja á haustin, einkum Skotlands og Írlands. Lagt er af stað í október og stundum flogið hátt. Er frægt dæmið um álftirnar 30 sem flugmaður tilkynnti um hinn 9. desember árið 1967 í rúmlega 8.200 m hæð yfir Hebrideseyjum (Suðureyjum) vestur af Skotlandi en það er rétt neðan við farleiðir þotna. Vindhraðinn fer þar oft í 200 km/klst eða 112 sjómílur en nefna má til samanburðar að fárviðri samkvæmt Beaufortkvarðanum (12 vindstig) er þegar vindhraðinn fer upp í 68-136 mílur á klukkustund. Flughraði álftanna mældist 139 km/klst. Súrefni í þessari hæð er einungis 40% af því sem er á jörðu niðri og þar er líka nístingskuldi svo menn gætu ekki lifað af á þeim slóðum án tækjabúnaðar. Í umræddu tilviki var hitastigið -48°C. En hitt þekkist líka að álftir fljúgi lágt yfir sjó alla leiðina til Bretlands.

   

Sumar álftir verða hér eftir, einkum ef þær finna sér verulegt æti. Þannig eru fuglar árið um kring á helstu lindasvæðum Íslands, bæði á Norðausturlandi og Suðurlandi og einnig með sjó þar sem aðgrunnt er og sjaldan leggur, einkum við suðvestanvert landið. Í mildri tíð dreifast álftirnar út frá þessum öruggu svæðum. Fjöldi álfta sem hafa vetursetu er breytilegur. Á árunum 1976-1979 var heildarfjöldinn sennilega ekki mikið yfir 500; í kringum 1982-1983 var hann kominn í allt að 800 og árið 1985 var hann 1300. Og ekki hefur dregið úr þessu með hlýnandi vetrum undanfarið.

Þessar fjórar álftir voru austan flugbrautar 23. ágúst síðast liðinn.

Gömlu álftirnar mættar í hólmann í dag.

Ungarnir voru sunnan við hann og nærðust þar af bestu lyst.

Álftin þurfti að beita vinstri fætinum, sem líklega er þó meiddur.

Hér sést þetta ágætlega. Hún notaði bara þann hægri við að koma sér áfram.

Annað sjónarhorn.

Myndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is og Sveinn Þorsteinsson | svennith@simnet.is

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is