Albatros í heimsókn

Skemmtiferðaskipið Albatross - Siglufjörður - Bahamaeyjar - Nassau

Skemmtiferðaskipið Albatros er í heimsókn þessa stundina, liggur við akkeri á miðjum firðinum til klukkan 18.00 í dag. Farþegar, sem eru þýskir, eru fluttir að bryggju í léttbátum og hafa verið duglegir við að skoða bæinn, heimsækja söfn, setur, kaffihús og veitingastaði. Anita Elefsen safnstjóri Síldarminjasafnsins mun enda hafa farið um borð með fyrsta bát og fært skipverjum götukort og upplýsingapésa og beðið starfsfólk skipsins um að hvetja farþegana til að fara í land og njóta alls þess sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða, sem ekki hefur þurft að segja þeim tvisvar.

Um 100 farþegar eru þar af bókaðir í skipulagða heimsókn á Síldarminjasafnið og um 200 fóru með rútum í Mývatnssveit.

Skipið var í Hafnarfirði í gær, lagði af stað þaðan áleiðis hingað um klukkan 18.30 í gærkvöldi.

Albatros er gert út af þýsku útgerðinni Phoenix Reisen, um borð eru 820 farþegar og 330 starfsmenn. Það er skráð á Bahamaeyjum, með Nassau sem heimahöfn. Það var smíðað árið 1973 og er 28.518 brúttólestir að stærð, 205.45 metra langt og 25.22 metra breitt.

Sjá nánar hér.

Næsti áfangastaður er Spitsbergen.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]
image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]