Álalækur – sem Lækjargata heitir eftir


Árið 1788 setti danskur maður að nafni Christian Redzlew á fót verslun í Siglufirði. Hann var þá búinn að vera á Íslandi í 25 ár, m.a. sem aðstoðarkaupmaður á Akureyri og Hofsósi og eflaust vitað þörfina í nágrannabyggðinni. Og fyrsta húsið sem reis á Eyrinni þar, að undanskildum hjöllum og sjóbúðum bænda, mun hafa verið það, sem hann fékk tilsniðið frá Noregi. Var því komið fyrir austan við mynni Álalækjarins, er svo hét, þar sem í dag er Ráðhús Siglufjarðar. Þegar hér er komið sögu eru 107 manns búsettir í allri sókninni, á 15 býlum. Nánari dreifing var sú, að 12 íbúar voru í Héðinsfirði (og einungis búið í Vík (6) og Ámá (6)), 14 í heimili á Siglunesi, 19 í Úlfsdölum (á Máná (4), í Dalabæ (10) og í Engidal (5)), og 62 á níu býlum í Siglufirði. Þau voru eftirfarandi: Staðarhóll (8), Ráeyri (8), Saurbær (5), Hóll (3), Leyningur (6), Kot (Skarðdalskot) (5), Skarðdalur (11), Höfn (8) og prestsetrið Hvanneyri (8).

Í Örnefnaskrá Helga Guðmundssonar er þetta að finna, í umfjöllun hans um Búð:

„Nær efst í hlíð fjallsins [Hafnarhyrnu] er bekkur grösugur eða grunnt hvolf þvers í brekkunni, nefnist það: Fífladalir (15) og framan við þá Fífladalabrúnir (16) en niður frá þeim Fífladalagil (17) um það fellur Fífladalalækur (18) og sunnan við Búðarhólinn. Skilur og gil þetta syðsta melhöfðan frá hinum Búðarhólunum, neðst í hlíðinni og nefnist hann: Lági-Seti (19) því annar melhöfði er nokkuð ofar, einnig sunnan við gilið, nefndur: Hái-Seti (20). Utar nokkuð í hlíðinni er klettabrík, nefnd: Syðsti Gimbrarklettur (21) því tveir eru aðrir honum líkir, á sömu hæð, litlu utar. Norðan við hinn syðsta klettinn, allt ofan frá Búðarhyrnu, er gildrag það er merkjum hefir ráðið, fram á síðustu aldir og lækur niður frá því er féll fast norðan við ysta Búðarhólinn; og nefnst hefir Merkjalækur (22) sést þar og enn á kafla niður frá þeim farvegi mjög forn merkjagarður, skamt upp frá hinni nýju kirkju; stefnir hann beint upp til gilsins en niður þar um sem kirkjan stendur og austur um eyrina sunnan barnaskólans; en er hulinn af framburði lækjarins ofar og neðar í hallanum. Hefir tún þessa býlis náð út að honum, líklega ofar en nú er kirkjan og allt ofan að læk þeim er suður fellur í víkina, neðan hallans og melsins og nefnist Álalækur (23) er hann samsafn margra smálækja úr hlíðinni allt út að Hvanneyrará, sem líka hefir þangað fallið í fornri tíð, og í ós þennan þá flotið allstór skip, eins og róðrarskip enn gerðu á síðustu öld; við hann hefir því verið aðaluppsátur skipa hér um margar aldir. Austur frá læknum er hin fornkunna: Þormóðseyri (24) – nú fjölbyggð orðin – nefnd eftir Þormóði ramma er hér nam fyrst lönd og hér hefir líklega fyrst á land gengið.”

Sem kunnugt er hlaut Siglufjörður kaupstaðarréttindi árið 1918, þegar minnst var aldarafmælis verslunarréttindanna og átti sr. Bjarni Þorsteinsson drjúgan þátt í því. Það var á hreppsnefndarfundi 5. júlí 1917, að hreppsnefndin gekk endanlega frá nöfnum á tólf götum kauptúnsins og hljóðar bókunin um þetta svo:

„1. Aðalgata, byrjar við Álalækjarbrú og liggur ofan á lóð Henriksens. Ójafnar tölur vinstra megin við allar göturnar, jafnar tölur hægra megin.
2. Gránugata frá svokölluðu Faktorshúsi og niður að sjó. Búist er við, að sú gata nái í framtíðinni upp að læk eða helst alveg upp að brekkunni.
3. Norðurgata byrjar við Gránugötu og liggur norður að sjó hjá Kambi.
4. Suðurgata byrjar við Álalækjarbrú og liggur suður hjá Efri-Höfn.
5. Lindargata byrjar við Suðurgötu, skammt fyrir ofan Álalæk og liggur í boga upp hjá Lindinni og suður hólana (Búðarhóla).
6. Vetrarbraut byrjar við Gránugötu og liggur norður eyrina.
7. Tjarnargata byrjar við Gránugötu og liggur norður eyrina.
8. Lækjargata byrjar (væntanlega) suður við lækjarósinn og liggur norður eyrina, þar sem lækurinn rennur út.
9. Eyrargata frá Lækjargötu austur eyrina fram hjá húsinu (áður bænum) Eyri suður að Söbstadshúsum.
10. Grundargata byrjar suður við væntanlegt framhald Gránugötu og liggur norður eyrina fram hjá torfbænum Grund.
11. Hvanneyrarbraut byrjar við Eyrargötu og liggur út hjá Hvanneyri alla leið út í Bakka.
12. Kirkjugarðsvegur (Brekkugata) liggur frá Suðurgötu og upp að kirkjugarði.”

Lækjargata, sem er því kennd við umræddan Álalæk, er það eina í umhverfinu sem minnir á hann nú um stundir.

Þar höfum við það.

Teikningar af Siglufirði 1888 og 1918: Bjarni Þorsteinsson.
Ljósmynd: Ókunnur höfundur. Úr bók Ingólfs Kristjánssonar: Ómar frá tónskálds ævi (1961).
Kort: Fengið af Netinu og því breytt lítillega.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Heimildir:
Sigurður Ægisson (1958-): Saga Sparisjóðs Siglufjarðar. Handrit.
Helgi Guðmundsson (1881-1944): Örnefnaskrá í Sigluneshreppi og Úlfsdölum (http://snokur.is/siglufjordur-bud.html)
Aðalskipulag Siglufjarðar 2003-2023. Útgefið 23. september 2004. (www.fjallabyggd.is/skrar/.pdf/greinarger__23.09_2004.pdf)

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is