Ákall og þakkir vegna töfrateppisins


Ágæti lesandi.

Mig langar að vekja athygli þína á átaki sem hrundið hefur verið af stað í þeim tilgangi að auðvelda börnum og byrjendum aðgang að skíðasvæðinu á Siglufirði.

Það er þekkt að skíðaiðkun er holl og góð útivist sem fullorðnir og börn geta notið saman. Það stuðlar að heilbrigðum lífsstíl og hefur mikið forvarnargildi. Á Siglufirði er að finna eitt af bestu skíðasvæðum landsins, með mjög góðri lyftuaðstöðu og frábærum skíðabrekkum. Eitt skortir þó og það er svonefnt töfrateppi (Magic carpet), en það auðveldar þeim sem ekki getað notað lyfturnar að njóta þess að renna sér á skíðum. Þennan búnað er að finna víða á skíðasvæðum á Íslandi.

Ég og fjölskylda mín höfum alla tíð haft mikinn áhuga á að efla skíðaiðkun og kynna skíðaíþróttina, enda er um að ræða eitt besta fjölskyldusport sem unnt er að finna. Í tilefni af 60 ára afmæli mínu var hrundið af stað átaki til að safna fyrir töfrateppi á skíðasvæðið á Siglufirði með það að markmiði að bæta það svo að sem flestir geti notið þessarar góðu útiveru. Stofnað var félag um KÁT, kaup á töfrateppi og lét fjölskylda mín nokkuð af mörkum, auk þess sem fjöldi einstaklinga og nokkur fyrirtæki hafa styrkt verkefnið. Áætlaður kostnaður með uppsetningu er um 10 milljónir króna og þegar þetta er ritað hafa safnast um 20% þess sem til þarf. Félaginu er stýrt af þriggja manna stjórn og fjármunum sem safnast er aðeins unnt að verja til kaupa á búnaðinum.

 Ég vil því leita til þín til að athuga hvort fyrirtæki þitt hafi möguleika á að styrkja þetta mikilvæga verkefni. Öll framlög eru þegin með þökkum. Ef þú sérð þér ekki fært að styrkja verkefnið nú, vil ég biðja þig að hafa okkur í huga í framtíðinni og þakka fyrir þann tíma sem þú hefur eytt við lestur bréfsins.

KÁT töfrateppi vill jafnframt nota tækifærið og koma á framfæri hér innilegum þökkum fyrir þann velvilja og fjárstuðning sem árgangur 1957 veitti félaginu. Árgangurinn kom saman á Siglufirði í sumar, tilefnið var 60 ára afmæli. Þakklæti KÁT töfrateppisins er mikið og vonast félagið að fleiri muni líka eftir því.

Núna er veturinn kominn og við höldum áfram að safna. Reikningsnúmerið er: 0348-13-300108, kt. 470417-1290 .

Bestu kveðjur,

Anna Marie Jónsdóttir

Mynd og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is