Aftur kemur vor í dal


Í dag hvarf sólin á bak við fjöllin í suðri, fyrst Blekkilsfjall, um kl. 13.45, og svo þau sem vestar eru. Næstu 10 vikur og rúmlega það „bregður aðeins fyrir daufu skini á Hafnarhyrnu og Hestskarðshnjúk, þegar létt er í lofti um hádegisbil,“ eins og Þ. Ragnar Jónasson kemst að orði í greininni „Aftur kemur vor í dal“, úr bókinni Siglfirskir söguþættir, sem út kom árið 1997.

Mörg dæmi eru um lengra sólarleysi en hér, einkum á afskekktum sveitabæjum sem flestir eru komnir í eyði. Á Syðra-Firði í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu sést ekki til sólar í 24 vikur. Á Fjalli í Kolbeinsdal í Skagafirði sést sólin ekki í 22 vikur (154 daga). Á Baugaseli í Barkárdal, inn úr Hörgárdal í Eyjafirði, gengur sólin undir 8. október, sem gæti bent til þess að þar væri sólarlaust í rúmar 20 vikur. Á Hvammi í Hjaltadal í Skagafirði sést ekki til sólar í rúmar 19 vikur (135 daga). Á Svartagili í Norðurárdal í Borgarfirði er sólarlaust í 18 vikur.

Nú er bara að þreyja næstu vikur og bíða eftir 28. janúar.

Mynd: Fengin af Netinu.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is