Aflaverðmætið næstum 4 milljarðar


Sólberg ÓF, frystitogari Ramma hf. í Ólafsfirði, er það skip sem kom með mest aflaverðmæti að landi á árinu, en alls fiskaði skipið fyrir um 3.800 milljónir. Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma, segir að þetta sé góður árangur, en árið hafi þó alls ekki verið hnökralaust. Sólbergið kom nýtt til landsins í maí í fyrra frá Tyrklandi og kom skipið í staðinn fyrir Mánaberg og Sigurbjörgu. Árið sem er að kveðja er því fyrsta heila ár skipsins á veiðum og var afli Sólbergsins á árinu 12.450 tonn af óslægðum fiski… Að sögn Ólafs var það ekki fyrr en 2-3 síðustu mánuði ársins að allt var farið að virka 100% við veiðarnar.“

Þetta má lesa í Morgunblaðinu í dag.

Og áfram:

„Það var ákveðinn galli í togvindum skipsins, sem gerði okkur erfitt fyrir að veiða við ákveðin skilyrði,“ segir Ólafur. „Okkur gekk illa að veiða grálúðu og búnaðurinn virkaði ekki sem skyldi þannig að mikill tími fór í þær veiðar.“ Ólafur segir að þrátt fyrir frátafir hafi útgerð Sólbergsins nokkurn veginn gengið samkvæmt áætlunum. Tekjur séu að langmestu leyti í erlendri mynt og sömu sögu sé að segja um kostnað eins og olíu, veiðarfæri og laun sjómanna eða hlut. Viðmiðið hafi verið að veiða fyrir meira en 30 milljónir evra og það hafi gengið eftir. Sólbergið fór í 11 veiðiferðir á árinu, en nokkur tími fór í lagfæringar og eins fór skipið í slipp á árinu, sem ekki hafði verið ráðgert. 35 eru í áhöfn hverju sinni, en tvær áhafnir eru á skipinu.“

Sjá nánar hér fyrir neðan.

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Ágúst Ingi Jónsson (Morgunblaðið) / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Úr Morgunblaði dagsins.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is