Afinn fæddist skömmu eftir Skaftárelda


Sunnudaginn 14. október voru 228 ár síðan afi Zophaníu Guðmundu Einarsdóttur Briem fæddist, árið 1790, sjö árum eftir Skaftárelda. Afinn hét Halldór Jónsson og var 62 ára þegar Einar sonur hans fæddist og Einar var 71 árs þegar Zophanía fæddist. Þetta er lengsta æviskeið þriggja kynslóða hér á landi en eldra met var 226 ár.

Halldór var bóndi í Fljótum í Skagafirði en fæddur á Siglufirði 14. október 1790 og dó 1855, 64 ára. Hann átti fimm börn með þremur konum. Yngsti sonur Halldórs var Einar Halldórsson bóndi og sjómaður í Fljótum í Skagafirði og síðar síldarmatsmaður á Siglufirði, fæddur 1853, dáinn 1941, 88 ára. Einar átti fjórtán börn með tveimur konum. Elst var Rósa, amma Ólafs G. Einarssonar fyrrverandi ráðherra og Þorgeirs Þorgeirsonar rithöfundar. Zophanía var yngsta systkinið, fædd á Siglufirði í janúar 1925, er orðin 93 ára, starfaði lengi í menntamálaráðuneytinu og hefur búið í Reykjavík. Maður hennar var Gunnlaugur Briem. Meðal systkina Zophaníu voru Guðmundur Einarsson vélstjóri á Siglufirði, Maron Einarsson sjómaður á Siglufirði og Jón Einarsson vélstjóri á Siglufirði og Akranesi.

Zophanía er eini núlifandi Íslendingurinn sem á afa sem fæddist á átjándu öld. Þrír aðrir núlifandi Íslendingar eiga afa sem fæddist fyrir meira en tvö hundruð árum, tvær konur og einn karl.

Mynd: Af Facebook-síðunni Langlífi.
Texti: Jónas Ragnarsson │ jr@jr.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is