Af Siglufjarðarkossum og öðru


Árum saman birtust greinar í Mánudagsblaðinu eftir mann sem nefndi sig Ajax. Voru þær taldar besta efnið í því blaði. Sumir sögðu að höfundur þeirra hefði verið Ólafur Hansson menntaskólakennari. Haustið 1974 skrifaði Ajax grein þar sem fjallað var um síldina og Siglufjörð.

Jónas Ragnarsson.

 

Hálfgerð heimsborg og rómantískt ævintýraland

Siglufjarðarkossarnir voru blautir og langir

Siglufjörður fór ekki að vaxa neitt verulega fyrr en á síðustu áratugum nítjándu aldar. Þá færðist miðstöð íslensku síldveiðanna norður þangað, en hafði áður verið á Austfjörðum, aðallega á Seyðisfirði. En uppgangur staðarins varð mjög hraður á fyrstu áratugum þessarar aldar. Og í augum íslensku þjóðarinnar varð hann rómantískt ævintýraland.

Á sumrin flykktist þangað fólk af öllum landshornum til að fá sér vinnu í síldinni. Það var þá mikill árstíðamunur á Siglufirði. Á sumrin var þar líf og fjör og manngrúi en á haustin færðist kyrrð yfir allt og Siglfirðingar voru einir eftir í bænum sínum. Innfæddir Siglfirðingar brugðust ýmislega við þessum árstíðaskiptum, sumir vörpuðu öndinni léttar þegar aðkomulýðurinn var horfinn, öðrum leiddist fásinnið á veturna.

Miklar þjóðsögur gengu um tryllt ástalíf í Siglufirði um sumartímann. „Þær voru indælar andvökunæturnar uppi í Hvanneyrarskál,“ eins og þar stendur. Líklega voru margar af þessum sögum meira og minna sannar en þátttakendur í ástalífinu voru víst sjaldnast innfæddir Siglfirðingar heldur aðkomufólkið, ekki síst hið sunnlenska. Hér í Reykjavík þótti það í þann tíð mesta mildi ef reykvísku síldarstúlkurnar komu aftur úr síldinni á haustin án þess að vera óléttar.

Útlendingar settu mikinn svip á mannlífið á Siglufirði á sumrin á þessum árum. Þar var fullt af Norðmönnum og Svíum, bæði sjómönnum og alls konar útgerðarbröskurum. Og það var mál manna að Íslendingar stæðust þessum útlendingum ekki snúning í ástamálum. Íslensku stúlkunum þóttu landar sínir eins og aumir sveitarkurfar í samanburði við hina veraldarvönu útlendinga.

Norðmennirnir og Svíarnir kunnu alls konar brögð í sambandi við ástalíf, sem Íslendingar höfðu aldrei heyrt minnst á. Það er haft fyrir satt að Norðmenn og Svíar á Siglufirði hafi gerbreytt íslenskri kossatísku. Áður kunnu Íslendingar ekki aðra kossa en litla og feimnislega smellkossa, sem voru strax búnir. Útlendingar kenndu íslensku stúlkunum blauta og langa kossa þar sem hver koss gat staðið yfir svo mínútum skipti. Síldarstúlkurnar dreifðu svo þessari kossatísku um landið og svo fór að íslensku karlmennirnir lærðu hana líka. Enn á áratugnum milli 1920 og 1930 voru slíkir kossar kallaðir Siglufjarðarkossar hér í Reykjavík. Nú á dögum mun æskulýðnum í Reykjavík þykja Siglufjarðarkossar sjálfsagður hlutur.

Siglufjörður hafði á þessum árum á sér sérstakan blæ sem var ólíkur öllu öðru á Íslandi. Hann verkaði á mann eins og hálfgerð heimsborg. Í góðu veðri voru allir bæjarbúar úti að labba, ólíkt því sem tíðkaðist á Akureyri.

Siglufjörður verkaði ekki á neinn hátt sérstaklega norðlenskur, enda voru margir bæjarbúar innflytjendur af Suðurlandi, Vesturlandi eða Norðurlandi. Hafliðaættin, sem setti sinn svip á bæinn á þessum árum, var til dæmis að miklu leyti sunnlensk að uppruna.

Mannlífið var allt öðruvísi á Siglufirði en á Akureyri. Stéttaskiptingar gætti miklu minna þar en í höfuðstað Norðurlands. Og Siglfirðingar voru lausir við hofmannlegt fálæti Akureyringa í viðmóti við ókunnuga. Blærinn á fólkinu var allur alþjóðlegri. Og þrátt fyrir breytta tíma gætir þessa mismunar talsvert enn í dag. Siglfirskur yfirstéttarmaður getur talað við fátækling eins og jafningja sinn, en mér er sem ég sjái slíkt gerast á Akureyri.

Síðustu áratugirnir hafa verið Siglfirðingum erfiðir. Síldin er farin, fólk hefur flutt í burtu í stórum stíl og íbúunum farið sífækkandi. Kannski er þetta að breytast núna, þess sjást nokkur merki. Ef til vill eiga Siglfirðingar nýja uppgangstíma fyrir höndum.

En ég er hræddur um að síldarrómantíkin siglfirska komi aldrei aftur. Slík ævintýrasumur koma ekki aftur í bráðina. En þrátt fyrir erfiða tíma hefur gamli blærinn á Siglfirðingum haldist furðanlega. Siglufjörður er enn í dag heimur út af fyrir sig, með sínum sérstaka andblæ – þó að hann sé ekki eins rómantískur og var í gamla daga.

Mynd: Gamalt póstkort, sennilega frá 1913. Magnús Ólafsson.
Inngangstexti: Jónas Ragnarsson | [email protected]
Megintexti: Ajax. Þessi útgáfa fyrst birt í Siglfirðingablaðinu sem var að koma út.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]