Af fuglum


Vorfuglarnir halda áfram að berast til landsins. Í fyrradag sást heiðlóa við Garðskaga á Reykjanesi og í dag tvær nærri Selfossi, sex í fjörunni við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi og tvær í Sandgerði. Ekki er því langt í vorið, þótt snjór þeki jörð hér nyrðra þessa dagana.

Haustgestir þreyðu einhverjir veturinn í Siglufirði, þar á meðal nokkrir svartþrestir og a.m.k. tveir gráþrestir. Annar náðist í gildru á Hvanneyrarhólnum fyrir nokkrum vikum og fékk um annan fót sinn númerað álmerki frá Náttúrufræðistofnun Íslands og var sleppt að því búnu og hinn var að narta í epli á sama stað í gær og dag, eins og sést á meðfylgjandi ljósmynd.

Einnig dvöldu nokkrir skógarþrestir í firðinum yfir dimmasta tímann. Tveir þeirra náðust 16. janúar og fengu á sig álmerki og aðrir þrír voru á stjái í dag.

Af svartþröstum er það að frétta, að Örlygur Kristfinnsson hefur heyrt í tveimur syngjandi karlfuglum að undanförnu sem bendir til þess að þeir séu að helga sér óðal. Það yrði þá fyrsta staðfesta varp í Siglufirði. Söngurinn er afar hávær og sérstakur, eins og hér má heyra.

Svo er bara spurningin hvað gráþrestirnir eru að pæla. Oftast hafa þeir farið á brott um þetta leyti eða í apríl, til sinna heima, en einhverjir hafa reyndar verpt á Íslandi í seinni tíð.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Hljóðupptaka: Fengin af Netinu.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is