Ævintýraópera fyrir börn frumflutt á Siglufirði


?Ævintýraóperan Baldursbrá eftir þá Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson verður frumflutt á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði næstkomandi laugardag en um er að ræða tónleikauppfærslu fyrir alla aldurshópa. Symphoníuhljómsveit sér um flutning tónlistarinnar sem byggir að hluta á íslenskum þjóðlögum, bæði rímnalögum og þulum, og bregður einnig fyrir rappi og fjörlegum dönsum.? Pressan.is greinir frá.


Og ennfremur:

?Auk flutningsins á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði mun verkið einnig verða endurflutt  í Langholtskirkju í Reykjavík næstkomandi miðvikudag, 9 júlí.

Í samtali við Pressuna segir María Rún Vilhelmsdóttur kynningarstjóri verksins að um sé að ræða nokkuð sérstakt verk, enda sé frekar fátítt að ráðist sé í gerð óperu sem ætluð er börnum. Þetta sé einnig einstakt tækifæri fyrir foreldra til kynna nýja og framandi tónlistarstíla fyrir börnum sínum. Mikil eftirvænting ríki eftir frumsýningu verksins á Siglufirði enda sé Gunnsteinn Ólafsson annar höfunda verksins þaðan og verk hans vel kunnug heimamönnum. Þá sé hópurinn afar spenntur fyrir sýningu verksins í Reykjavík og vonast eftir fullri Langholtskirkju á miðvikudag.

Óperan segir frá Baldursbrá sem kynnist sposkum Spóa og ákveða þau að fara saman upp á fjallstind til þess að njóta útsýnisins en það reynist ekki einfalt mál og hitta þau fyrir kostulegar persónur eins og Rebba, hóp af yrðlingum og hin stórhættulega Hrút. Söngvarar eru þau Fjóla Nikulásardóttir sópran í hlutverki Baldursbrár, Eyjólfur Eyjólfsson tenór syngur Spóa, Jón Svavar Jósefsson baritón er Rebbi, Davíð Ólafsson bassi syngur Hrútinn og níu börn eru í hlutverki yrðlinganna. 16 manna kammersveit leikur og stjórnandi er Gunnsteinn Ólafsson. Líkt og fyrr segir verður verkið frumflutt á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði laugardaginn 5. júlí kl. 17.00 og mun það síðan verða endurflutt í Langholtskirkju miðvikudaginn 9. júlí kl. 20.00.?

Mynd: Fengin af Netinu.

Texti: Pressan.is / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is