Æðarbóndinn á Hraunum


Björk Pétursdóttir hefur undanfarin sumur tekið á móti gestum, innlendum sem erlendum, í vinnustofu sína á Hraunum í Fljótum í Skagafirði, sem er ysti bær í héraðinu að austanverðu, og kynnt þeim sögu æðarfuglsins, arðmesta fugls Íslendinga, ásamt því að bjóða til sölu ýmsan varning unninn frá grunni úr þeirri hreinu náttúruafurð, æðardúninum, sem tíndur er þar í kring í lok varptímans.

„Ég er fædd árið 1950 og uppalin hérna, í gamla húsinu, sem er frá 1873 og ég á í dag. Það hefur verið í fjölskyldunni í 71 ár. Síðan hleypur maður heimdraganum snemma, því að hér var enginn framhaldsskóli, þannig að ég byrja á því að fara í gagnfræðaskóla til Reykjavíkur, Hagaskóla, síðan fer ég til Siglufjarðar, tek landspróf þar, og svo lá leiðin í Kennaraskólann. Maðurinn minn er Gylfi Traustason, fæddur og uppalinn í Ólafsfirði, og við fluttum út á Gásir við Eyjafjörð þegar ég var nýútskrifaður kennari og þá um haustið hófum við búskap þar og bjuggum á Gásum í 31 ár. Af þeim var ég að kenna í 20 ár. Okkur hefur búnast ákaflega vel, við eigum sjö börn, 18 barnabörn og eitt barnabarnabarn þannig að fjölskyldan er stór og mikil og góð,“ segir Björk, um leið og hún færir blaðamanni ilmandi kaffi í bolla, við upphaf spjalls um lífið og tilveruna. Og besta dún í öllum heiminum.

Breytti um starfsvettvang

„Haustið 2004 fluttum við til Akureyrar og þá ákvað ég að ég ætlaði ekkert að fara út á vinnumarkaðinn aftur nema mér leiddist. Mér hefur svo sem ekki leiðst neitt, en ákvað að fara að vinna bara að minni eigin hugarsmíð, því ég er uppalin hér við æðardún og átti nú lausan tíma, svo ég dríf í því að fara að vinna úr æðardúninum. Það sem var erfiðast var að finna út hvernig í ósköpunum ég ætti að fara að því að setja æðardún inn í trefla og sjöl og húfur og taka hann úr aftur til að þvo utan af. Þetta voru mikil heilabrot en þetta tókst mjög vel og ég er ánægð með þessa framleiðslu mína, þetta sem ég er að gera. Þetta er sjötta sumarið mitt hérna í vinnustofunni minni á Hraunum og hingað til mín koma geysilega margir, um 300 á mánuði, einkum Íslendingar, að 90 prósentum, og hér er mikið líf og fjör.“

Vinnustofa Bjarkar er í rafstöðvarhúsinu sem áður tilheyrði fiskeldisfyrirtækinu Miklalaxi. Þau hjónin breyttu húsnæðinu og löguðu fyrir sig. Og þar eru þau með dúnhreinsunina líka.

„Við erum vön að koma hingað í byrjun maí, til að annast um varpið, því við þurfum að vera þar sýnileg, æðarfuglinum líkar það vel. Við tökum síðan dúninn, fyrstu umferð, um það bil þegar fyrstu ungarnir eru að fara úr hreiðrinu, því þá er stutt í að aðrir fylgi á eftir, og við setjum hey í staðinn. Það er dásamlegt að vera æðarvarpinu, ekki síst á meðan blikinn er þar enn, því bæði er hann skraut og svo eru hljóðin sem frá honum koma svo notaleg. Það er hvergi til æðarvarp að nokkru gagni í landinu nema það sé varið fyrir hrafni, máfi, mink og ref, maðurinn verður að koma að því reglulega. Ef það er opið fyrir vargi, þá er það búið. Þannig að við þurfum að vera til.“

Æðardúnninn hefur algjöra sérstöðu

„Æðardúnninn er, að því ég best veit, eini dúnninn í öllum heiminum sem við getum gengið að úti í náttúrunni og safnað í þessum mæli; fuglinn skilur þetta eftir og við hreinsum hann og þvoum og vinnum úr honum. Allur hinn dúnninn, annar andadúnn, álftadúnninn og gæsadúnninn, sem er framleitt allt mögulegt úr, sængur, úlpur og svo framvegis, þetta er allt saman dúnn sem er handreyttur af fuglunum, annað hvort lifandi eða dauðum. Allt saman. Því ég veit ekki hvar í veröldinni er að finna andavarp, álftavarp eða gæsavarp, þar sem maðurinn fer á eftir og tekur upp dúninn. Ég hef aldrei heyrt af slíku. Þar við bætist að venjulegur andadúnn er mjög sundurlaus og í gæsahreiðrum eru bara fjaðrir og rusl. Það er ekkert nýtilegt. Ekki arða. Þannig að æðardúnninn hefur algjöra sérstöðu, bæði vegna þess að kollan skilur hann eftir handa okkur og kemur ár eftir ár á sama staðinn, þar sem henni líður vel og hún er varin, og svo vegna hinnar einstöku samloðunar og fjaðurmögnunar og léttleika dúnsins, því æðardúnninn er, ólíkt dúni annarra fugla, alsettur örfínum þráðum með fíngerðum krókum sem allir krækjast saman, sem aftur veldur samloðun hans. Einangrun hans er einfaldlega loftið sem hann heldur í sér. Þess vegna verðum við að gefa honum gott pláss til að hann fái notið sín, sé hlýr og góður, og hafa hann í náttúrulegu efni, þannig að allt sé heilt í gegn,“ segir Björk.

„Ég kaupi núna mest af efninu í Vogue, það er þægilegast fyrir mig. Ég vanda mig mikið við að kaupa efnin því að ég veit að þau eru ekki alltaf það sem stendur á miðanum. Ég er að kaupa mikið bómull og viskós, sem eru þunn efni með 3% teygju og ég verð að passa mig á því að þetta séu virkilega náttúruleg efni, að bómullin sé bómull og viskósið sé unnið úr trjákvoðu, þannig að ég fæ alltaf leyfi til þess að prófa það og það geri ég með því að kveikja í smá bút og athuga hvernig það brennur. Þannig að ég er ekki að vinna með plastefni. Ég passa það mjög vel að ég sé með allra bestu efnin utan um dúninn.“

Einn mesti nytjafugl á Íslandi

Æðurin, eða æðarfuglinn eins og tegundin er oftast nefnd, er af ættbálki gásfugla eða andfugla. Hún er yfirleitt talin stærst allra anda, 50-71 cm að lengd, um 2.000 g að þyngd að meðaltali og með 80-108 cm vænghaf. Vísindaheiti tegundarinnar, Somateria mollissima, þýðir eiginlega „líkaminn sem geymir hinn afar mjúka fiðurdún.“

Útbreiðslusvæðið er að heita má allt norðurhvel jarðar. Um fimm deilitegundir er að ræða og greinast þær einkum eftir mismunandi formi nefs og litar við rótina, frá gulu yfir í rauðgult.

Æðurin hefur verið friðuð á Íslandi frá árinu 1847. Hún er staðfugl hér við land og mjög félagslynd. Hún er mestan hluta ársins bundin við sjó, einkum meðfram ströndum, og hefur reyndar allt lífsviðurværi sitt þaðan. Að vetrarlagi geta hóparnir talið jafnvel þúsundir fugla. Snemma vors gengur hún á land í auknum mæli, í fjöruna til að byrja með eins og til að búa sig undir aukna dvöl á þurru yfir varptímann. Og þar er líka oft margt um fuglinn. Svo gerist hún djarfari og fer ofar og innar þegar líða tekur að sjálfum eggjatímanum sem er breytilegur eftir landshlutum en víðast hvar þó í hálfnuðum maí.

Hreiðrið er oftast einhverskonar skál eða dæld í snögglendi, ýmist í fjöru, á bökkum og töngum voga og lóna, í eyjum og á hólmum eða jafnvel með ám alllangt inn til landsins, allt að 30 km frá sjó. Það er fóðrað með þykkum dúni sem hefur borið nafn og hróður þessarar andategundar víða. Eggin er yfirleitt 4-6 talsins en geta verið 1-8. Þau eru oftast grænleit en stundum blá. Útungunartími er 25-28 dagar og sér kollan ein um áleguna. Blikinn stendur oft nærri hreiðrinu, einkum í upphafi varpsins. Fyrr eða síðar, mislengi eftir varpi og einstaklingum, dregur hann sig gjarnan í hlé ásamt öðrum félögum sínum, og heldur á fellistöðvar.

Nýklaktir ungarnir eru dökkgráir að lit, alþaktir dúni. Þeir eru hreiðurfælnir; leiðir móðirin þá til sjávar um leið og hinn síðasti er kominn úr eggi og allir orðnir þurrir. Yfirleitt deyr mikið af ungunum fyrstu dagana og talið að orsakarinnar sé að leita í fæðuframboðinu hverju sinni, eins og hjá öðrum andarungum. Mikil áraskipti eru að afkomunni. Þeir ungar sem lifa verða að fullu sjálfstæðir 55-60 daga gamlir og fleygir 65-75 daga.

Æðurin er einn mesti nytjafugl á Íslandi. Úr hverju hreiðri fást 15-20 grömm af æðardún, þannig að um 60 hreiður þarf til að fá í 1 kíló.

Nauðsynlegt að þvo dúninn

„Það þarf alltaf að þurrka dún, þó við komum með hann heim í þurrki, vegna þess að botnarnir geta verið blautir og svo er kollan að drita í hann,“ segir Björk. „Þegar ég var krakki var hann þurrkaður í fjárhúsgörðunum og í minningum mínum er ég að hrista dún allt sumarið. Þetta þótti alveg átakanlega leiðinleg vinna, sérstaklega fyrir börn og unglinga. Það var eiginlega ekkert leiðinlegra til. En síðan kom Gylfi, maðurinn minn, nýr inn og sá þetta með allt öðrum og ferskari augum. Hann byrjaði á því að fá sér grindur úr gömlum refabúum og leggja þær ofan á garðaböndin og þar með var vinnuaðstaðan orðin betri, að þurrka dúninn ofan á garðaböndunum en ekki í garðanum, og hann var líka miklu fljótari að þorna. Síðan fáum við þetta hús hér, rafstöðvarhúsið, niður við Miklavatn, og þar er stór vélasalur, eitthvað um 70 fermetrar. Við höfðum hérna rennandi heitt vatn og við útbjuggum bara þennan sal þannig að við erum með löng borð með neti á, þar sem við leggjum dúninn, við erum með blásara sem blása heitu lofti, þarna verður 30 gráðu hiti inni, og dúnninn er skrælþurr á sólarhring. Þetta er bara alveg dásamlegt. Við grófhreinsum hann þarna þannig að einn þriðji af þyngd dúnsins verður eftir sem gróft rusl. Síðan förum við með dúninn upp á Hraun á Skaga, í stóran og mikinn þurrkara sem annar bóndinn þar smíðaði hugvitssamlega, og eftir það fer dúnninn til Helgu Ingimarsdóttur í Höfnum á Skaga sem hreinsar hann fyrir okkur, tínir úr honum fjaðrirnar og annað. Svo tek ég dúninn minn heim, handþvæ hann allan og hef svo hérna þessa fínu aðstöðu til að þurrka hann þar sem heitt loftið leikur um hann undir stálristum. Ég vinn aldrei úr dúninum nema ég sé búin að þvo hann. Það skipti ekki máli á Íslandi hérna í gamla daga að vera með sængur með óþvegnum dúni í, því við finnum ekki skítalyktina af honum fyrr en hann er kominn í meiri hita og raka. Því auðvitað er ekkert nóg að bara þurrhreinsa dún sem kollan er búin að drita í aftur og aftur. Það er lykt af honum.“

Gamall draumur að fullvinna dúninn

En hvenær skyldi Björk hafa fengið þessa hugmynd að vinna þetta allt frá grunni, í stað þess að selja dúninn óhreinsaðan til stærri kaupenda, eins og löngum tíðkaðist hér á landi?

„Ég var búin að hugsa um þetta í mörg ár, meira að segja þegar ég var unglingur hérna, þá fannst mér alltaf svo skrýtið að mest allur dúnninn færi í burtu, væri seldur úr landi óunninn, þessi hreina náttúruafurð, þessi fjársjóður sem æðardúnninn er. Það var til einstaka æðardúnssæng hér og þar en ekki meira. Á þeim tíma voru húsakynni kaldari og meira um fjaðrir í dúninum svo að heilt kíló fór af dúni í eina sæng. En nú eru tímar breyttir, húsakynni önnur og betri og dúnninn betur hreinsaður og því léttari, heldur meira í sér lofti og því nóg að hafa hálft kíló í sængunum. Það er mín uppskrift, svoleiðis sæng vil ég og hef verið að selja. Svo á maður aldrei að hólfa æðardúnssæng, alltaf að hafa dúninn í einu rými til þess að hann fái nógu mikið pláss til að lyfta sér, þá verður hann hlýrri og meiri og betri. Maður bara hristir upp sína æðardúnssæng og á hana svo bara áratugum saman, ef maður fer vel með hana. Ég á eina 40 ára sæng og nota hana hérna, með 500 grömmum í. Ef fólk vill hafa hana öðruvísi, þá kaupir það bara sængina annars staðar. Fólk heldur gjarnan að sængin eigi að vera hólfuð, af því að það er ekki hægt að búa til sæng úr öðrum dúni nema hólfa hana, því sá dúnn tollir ekkert saman og verður að vera í hólfum. En æðardúnninn tollir allur saman og á ekki að vera í hólfum. Það er mín skoðun.

En ég sem sagt var alltaf að hugsa um að þetta væri synd og skömm að láta dúninn svona af hendi í fullvinnslu. Og svo líður tíminn og það koma upp tvær kynslóðir sem vita ekki hvað æðardúnssæng er, hafa ekki hugmynd um það, því hann er hvergi að sjá hér á landi í neinni íslenskri vöru. Þess vegna var það sem að ég bara varð að gera eitthvað. Og hingað kemur fullt af Íslendingum. Þeir eru um 90% þess fólks sem verslar við mig. Það finnst mér merkilegt. Og mest gaman. Ég auglýsi reyndar allt á íslensku því ég er að gangast upp í þessu hlutverki, að sýna landanum hvað þetta er frábær efniviður. Mig langar til að kynna æðardúninn fyrir Íslendingum.“

Sumarvertíð og jólavertíð

„Ég vinn mest hérna,“ segir Björk, „kem á vorin, er að sauma pínulítið fyrir opnun, en svo sauma ég alla daga, þannig að það eru alltaf til nýir litir og eitthvað nýtt á hverjum einasta degi. Ég er með afskaplega marga liti í gangi, 20-30, af hverri vörutegund, þannig að ég bara framleiði þetta jafnóðum. Ég er hér frá 10 á morgnana og fram á kvöld allt sumarið og alveg fram á haust, en auglýstur opnunartími er frá 13 til 18 alla daga, frá því ég set skiltið upp, 20. júní. Svo þegar skiltin eru farin, þá bara loka ég.

Ég þori ekki að tala við ferðaskrifstofur því ég get ekki tekið við stórum rútum. Mér finnst 16 manns alveg nóg, gæti tekið upp í 20, en ég vil frekar geta náð utan um þetta, það er meira gaman. Því ég er ekki bara að selja heldur líka að fræða þau sem hingað koma um lifnaðarhætti æðarfuglsins og hvernig þetta nú gerist allt. Útlendingarnir sem koma hingað segja að þetta sé vel falið leyndarmál.

En ég sem sagt er að vinna alla daga því ég get ekki safnað á lager, ég er með svo marga liti að ég hef ekki hugmynd um hvaða litir eru inn þetta árið. Þegar ég kem heim til Akureyrar, í lok september, hvíli ég mig venjulega, en byrja svo aftur í nóvember til að undirbúa jólamarkaðinn, þá nota ég Feisbókina, er með síðuna „Hrauna Æðardúnn“ þar. Það er nær eingöngu póstverslun á þeim tíma. Svo tek ég mér pásu fram til vors. Þetta er því sumarvertíð og jólavertíð.

Ég er með sængur til sölu eins og ég vil hafa þær, með 500 grömmum í, en auglýsi þær ekkert sérstaklega. Ég er líka með ungbarnasængur, með 100 grömmum í. Svo er ég með trefla sem ég get tekið dúninn úr, þeir eru líka eyrnaskjól í leiðinni, og sömuleiðis er ég með eitt sem ég kalla hálsskjól, það er styttri gerð, og þau þarf að þvo með dúninum í, það er ódýrari útfærsla. Svo er ég að framleiða sjöl og húfur, úr hvoru tveggja er hægt að taka dúninn úr. Ég var að gera miklu fleira hér í byrjun en endaði með þetta, ætlaði mér að nota dúninn svona fyrir heilsuna, framleiða eitthvað til að vefja utan um auma liði, skó til að hafa á fótunum á næturnar, til þess að sofa í, hafa eitthvað hlýtt á höndunum, t.d. fyrir hjartasjúklinga; mamma notaði t.d. alltaf dúnvettlingana sína á kvöldin við sjónvarpið og sagði að sér liði þá miklu betur í hjartanu. Og svo var ég með fyrir augun og eitthvað fleira. En allt þetta sem átti að vera svona heilsutengt, það bara var ekkert að seljast. Svo að ég bara hætti. Nú er svo mikið að gera hjá mér í hinu að ég einbeiti mér að því eingöngu, að hafa það til sem allir vilja kaupa, og í mörgum litum. Það er bara það. Svona er lífið.“

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]