Aðsókn að Menntaskólanum á Tröllaskaga fram úr björtustu vonum


?Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur verið starfræktur frá haustinu 2010. Aðsókn að skólanum hefur farið fram úr björtustu vonum. Á heimsíðu skólans kemur m.a. fram að 21 hafi sótt um skólavist á vorönn en því miður hafi ekki verið hægt að taka alla nemendur inn þar sem flestir námshópar eru orðnir yfirfullir,? segir á nýjum og flottum netmiðli, sem nefnist Timinn.is, í dag.

Og áfram þetta: ??Þessi mikli fjöldi nýnema kom mörgum á óvart, en flestir koma úr Siglufirði, þá Ólafsfirði en nokkrir koma annars staðar frá. Það verða því 86 nemendur sem hefja nám á vorönn 2011,? segir á heimasíðu skólans. Það er því margt sem bendir til þess að Menntaskólinn á Tröllaskaga eigi eftir að vaxa enn frekar – enda ungur að árum.

Menntaskólinn á Tröllaskaga tók til starfa haustið 2010 en veturinn áður höfðu verið fjarnámssetur í Siglufirði og Ólafsfirði. Ákveðið var að nýta skólabyggingu í Ólafsfirði sem áður hýsti hluta grunnskólans og gekk undir nafninu Gagnfræðaskólahúsið. Húsnæðinu var breytt töluvert til að það henti menntaskóla og því námi sem skólinn býður upp á fyrir nemendur.

Lögð er áhersla á nemendur séu virkir og sjálfstæðir í námi sínu og velji sér námsleiðir sem nýtast framtíðaráformum og áhugasviðum sínum. Notað verður leiðsagnarmat þar sem viðfangsefni nemenda eru metin jafnt og þétt alla námsönnina og nemendur geri sér sem besta grein fyrir stöðu sinni sjálfir og geti brugðist við en eigi ekki allt sitt undir einu lokaprófi eða einstaka verkefnum og prófi. Kennsluaðferðir eru verkefnamiðaðar.?

Menntaskólinn á Tröllaskaga.

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is


Texti: Timinn.is/ritstjórn.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is