„Aðkomufólki finnst afar sérstakt að koma inn í svona gamla fiskbúð″


Fiskbúð Siglufjarðar er í hjarta bæjarins, við Aðalgötu 27, og hefur verið þar lengi. Rótgróið, virt fyrirtæki, með ævagamla og merkilega sögu. Enda stolt allra þeirra sem hér búa. Og víst er, að mikil yrði breytingin ef henni yrði lokað.
Best að ýta þeirri óþægilegu hugsun frá sér.

Eysteinn Aðalsteinsson hefur verið þarna starfandi í 33 ár.

Einn góðan veðurdag, þegar fréttamaður rak augun í hann þar sem hann sat framan við búð sína og brosti við mannlífinu í sólskininu, ákvað hann að rabba aðeins við karlinn og forvitnast um eitt að annað honum og versluninni tengt.

Í ljós kom, að fiskbúðin er búin að vera þarna í meira en 50 ár, og þar áður var hún í norðurendanum á rauða húsinu við hliðina á nýja veitingastaðnum, Hannes Boy Café. Kaupfélag Austur-Skagfirðinga á Hofsósi, sem hafði verið stofnað árið 1919, var eigandinn þá, átti bæði Kjötbúð Siglufjarðar og þessa fiskbúð.

„Og svo var önnur fiskbúð á horninu hér fyrir ofan,″ segir Eysteinn, „þar var Matthías Ágústsson, pabbi Steingríms eða Denga sem tók við af honum, og Ólafs sem við öll þekkjum og býr hér enn.”

Þegar Eysteinn byrjar að vinna í Fiskbúð Siglufjarðar eru Jósafat Sigurðsson og Björn Þórðarson, sem í  daglegu tali voru kallaðir Jósi og Böddi, eigendur hennar. „Ég var búinn að eiga hlut með þeim í nokkur ár þegar þeir seldu sína hluti og fluttu suður í kringum árið 1983. Salmann Kristjánsson og Guðfinnur bróðir minn keyptu þá af þeim. Svo hættir Guðfinnur 1991, og ég og Salli kaupum hans part, og svo þegar Salli hættir 1996 kaupi ég af honum.″

En hvenær skyldi vera mest að gera?

„Það er aldrei mikið að gera núna í seinni tíð, miðað við það sem áður var,″ svarar Eysteinn að bragði. „Við vorum þrír hérna og höfðum miklu meira en nóg að gera; þá verkuðum við fisk líka, í gömlu fiskbúðinni, niðri á bryggju. Við áttum hana með búðinni hérna og vorum alltaf með fasta báta yfir sumarið og verkuðum saltfisk til útflutnings og líka til að eiga í búðina. Og þá var nóg að gera. Þá tókum við á móti bátunum á kvöldin og flöttum fiskinn og gengum frá honum. Svo fór hann yfirleitt ekki út fyrr en á haustin, þá var þetta öðruvísi söltun á fiski, þá fór þetta allt í stæður og var marg umstaflað; hann var orðinn eins og þerriblað þegar hann fór loksins, til Spánar og Ítalíu og svoleiðis. Það var nú þá. Það er af sem áður var í því.″

Nú er það ómetanlegt fyrir bæjarfélagið að hafa fiskbúð eins og þessa, segir fréttamaður. Skynjar Eysteinn það á einhvern hátt, beinan eða óbeinan, af viðskiptavinunum?

„Já, já. Aðkomufólki finnst afar sérstakt að koma inn í svona gamla fiskbúð, sem er búin að halda sinni mynd svona lengi. Ég held reyndar að það sé engin önnur alveg frá Akranesi og hingað, vestanfrá. En ég held að það sé ein á Akureyri. Það eru margir búnir að reyna þetta, en þær hafa yfirleitt ekki lifað lengi. Maður hefur reynt að halda þessu í þokkalegu horfi, ekki samt þannig að maður sé að breyta of miklu, reynt frekar að halda þessu hreinu og þokkalegu.″

En af hverju gengur þetta hérna?

„Ja, ætli það sé ekki bara af því að ég er með meira en fisk, ég er með kjöt líka og sitthvað fleira; þetta myndi ekki ganga annars. Og svo ódýrt vinnuafl. Ef maður þyrfti að fara að halda mannskap á þessu, þá myndi það aldrei ganga upp; það myndi ekki þýða að ætla að fara að leika einhvern forstjóra.″

Hvaðan kemur fiskurinn?

„Hérna af Fiskmarkaði Siglufjarðar, alltaf nýr og góður. En silungurinn er eldisfiskur, frá Hólalaxi. Ég er búinn að fá fisk frá þeim í mörg ár, þetta er alveg klassavara.″

En hvað varð um reykta rauðmagann, sem einu sinni var að finna í kæliborðinu?

„Jú, ég var með hann fyrir nokkrum árum, reykti hann þá sjálfur, en hef ekki verið með hann lengi.″

En rúgbrauð með plokkfiski er ennþá á boðstólum.

Og vinsælast hjá Siglfirðingum hvað fiskmetið varðar er …?

„Ýsan og þorskurinn; þau eru 80% af sölunni.″

En ef horft er til almanaksársins, skyldi vera meira að gera einn mánuðinn en aðra?

„Já, sumarið er t.d. ágætis tími, ekki síst eftir að ferðafólk tók að sækja bæinn heim í auknum mæli í seinni tíð.″ segir Eysteinn. „Hér koma útlendingar mikið og kaupa af mér ferskan fisk, Egilssíldin gamla og góða er mjög vinsæl. Ég sel aldrei meira af henni en yfir sumarið. Íslendingar líta varla við þessu. Hún er mjög vinsæl af Þjóðverjum, Frökkum og Ítölum. Svo eru hæðir og lægðir í þessu. Það er þokkalegt yfir Þorrann. Hann er svolítið vinæll Þorramaturinn hjá okkur. Og svo er það náttúrlega rauðmaginn og vorfiskurinn. Svo er aftur steindauður tími í febrúar og mars, voðalega dauft yfir þessu, en svo fer að lifna aftur þegar fer að líða á sumarið.″

En haustin?

„Jú, þá er sláturtíðin og þá gefur það eitthvað. Desember er ekkert sérstakur í þessu. Það er af sem áður var í því. Fólk er orðið með svo fín tæki heima hjá sér, getur keypt í jólamatinn þegar þetta er á tilboðum og geymt bara til jólanna.″

Vinnur hann Þorramatinn eitthvað sjálfur?

„Já, hrútspungana og sviðasultuna, og ég geri þorrabakka, mjög vinsæla; hangikjötið kemur nær eingöngu orðið frá Akureyri núna, en áður líka frá Sauðárkróki. Það er orðið þægilegra með ferðir frá Akureyri, heldur en Sauðárkróki; það fer oft suður fyrst þaðan og svo til Akureyrar og síðan hingað. Annars er kjötið þaðan afburða gott líka, það vantar ekki.″ Og hákarlinn er siglfirskur, kemur frá honum Vella, Sverri Björnssyni, og hefur aldrei klikkað, segir fisksalinn.

En er maðurinn ekki farinn að lýjast eftir að hafa staðið vaktina í meira en þrjá áratugi?

„Jú, auðvitað er maður orðinn þreyttur, enda orðinn 69 ára gamall. Maður finnur líka að maður er ekki eins hress og var í eina tíð, maður þarf að hvíla sig meira um helgar en áður, svona til að vera sæmilegur á mánudegi. Maður er voða latur að gera eitthvað á kvöldin, leggst bara undir teppi og horfir á sjónvarpið. En gangur lífsins er víst svona.″

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]