Aðalheiður S. Eysteinsdóttir með sýningu í Gerðubergi í Reykjavík


Aðalheiður S. Eysteinsdóttir opnaði í gær sýninguna Þorrablót í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Reykjavík. Þar fangar hún þorrablótsstemmningu fyrr og nú, eins og segir í auglýsingu um viðburðinn. ?Ungir og gamlir, karlar og konur, þorramatur, hljómsveit, fólk að dansa, djamma og djúsa!?

Á opnuninni lék Friðjón Hallgrímsson á harmoniku og Gunnar Þorsteinsson fór með kvæði.

?Verk Aðalheiðar eru skúlptúrar og lágmyndir unnar úr timbri og fundnum hlutum. Listakonan raðar saman timburbútum svo úr verða lifandi manneskjur, dýr og hlutir sem tengjast aðstæðum hverju sinni. Þrátt fyrir að efniviðurinn sé oft óheflað afgangstimbur og yfirbragð verkanna grófgert hvílir yfir þeim fínleiki, næmni og hlýja. Henni tekst að gæða efnivið, sem sumir myndu kalla rusl, lífi og heilla áhorfendur með hrífandi verkum. Aðalheiður vinnur gjarnan að list sinni í samstarfi við aðra og að þessu sinni taka þrír gestalistamenn þátt í sýningunni. Það eru þau Gunnhildur Helgadóttir, Jón Laxdal og Guðbrandur Siglaugsson.?

Í dag, sunnudaginn 27. mars kl. 14.00-16.00, býður Aðalheiður svo til listsmiðju. Þar gefst börnum, með aðstoð foreldra / aðstandenda sinna, tækifæri til að skapa verk í anda hennar.

Sýningin stendur annars til 19. júní.

Sjá nánar hér.

Myndir: Kristján L. Möller | klm@althingi.is

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is