Aðalfundur KGSÍ


Aðalfundur Kirkjugarðasambands Íslands (KGSÍ) var haldinn laugardaginn 28. maí síðastliðinn á Siglufirði og var þetta 21. aðalfundur KGSÍ, en þeir hafa verið haldnir árlega í öllum landshlutum.

KGSÍ var stofnað í desember 1995 eftir nokkra undirbúningsvinnu, sem meðal annars fólst í því að kanna þörf á slíku sambandi hér á landi. Stjórn KGSÍ ályktaði að blaðaútgáfa á vegum sambandsins væri rökrétt framhald af stofnun sambandsins. Blaðið Bautasteinn varð vettvangur umræðu um kirkjugarðamálefni hér á landi og hefur blaðið verið gefið út árlega frá stofnun sambandsins. Stefnt er að því, að efni í blaðið berist sem víðast að og það upplýsi lesendur um flest er lýtur að kirkjugarðamálefnum. Blaðinu er dreift í um 1.200 eintökum.

KGSÍ og kirkjugarðaráð hafa staðið að rannsóknum á fjármálum og rekstrarskilyrðum kirkjugarða til að rökstyðja fullyrðingar um að framlag ríkisins til málaflokksins nægi ekki til að kirkjugarðar geti uppfyllt lagaskyldur sínar með sóma. Árið 2011 og 2013 voru utanaðkomandi sérfæðingar fengnir til verksins til að gæta hlutleysis. Skýrsla, sem út kom í mars 2016, er afurð ráðherraskipaðrar nefndar (sjá hér).

Á Siglufirði var blíðskaparveður daginn sem aðalfundurinn var haldinn  og var dagskráin að miklu leyti helguð útkomu skýrslunnar frá því í mars. 

Jóhannes Finnur Halldórsson sérfræðingur frá innanríkisráðuneytinu fór yfir skýrsluna og helstu niðurstöður.

Þórsteinn Ragnarsson forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma og fulltrúi frá kirkjugarðaráði í nefndinni fór yfir gjaldalíkanið sem skiptir framlagi ríkisins niður á kirkjugarða og spurði hvort þörf væri á að stokka spilin og gefa upp á nýtt og í því tilliti yrði að endurskoða samkomulagið við ríkið sem gert var 2005.

Niðurstaða Jóhannesar Finns og Þórsteins var sú að það vanti yfir 40% viðbót við framlag ríkisins til að samkomulag við ríkið frá 2005 sé á sama grunni og þá.  Um er að ræða 400 m.kr. á ári.

Guðmundur Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóri kirkjugarðaráðs, sem hefur eftirlit með kirkjugörðum landsins, flutti fróðlegt erindi sem hann nefndi: „Framkvæmdir við kirkjugarða á Tröllaskaga.“ Fram kom í erindi Guðmundar Rafns og á myndum sem hann sýndi frá kirkjugörðum að ýmislegt er lagfært og framkvæmt þrátt fyrir skerta tekjustofna. Skýringin er gjarnan sú að sjálfboðavinna og vægir taxtar fyrir verktöku koma til að gera það að verkum að dæmið gengur upp.

Ingólfur Jóhannsson garðyrkjuverktaki frá Uppsölum í Eyjafjarðarsveit flutti áhugavert erindi um rekstur og umhirðu í litlu sveitarfélagi. Frá honum komu ýmis ráð um hvernig hægt væri að forgangsraða verkefnum þegar rekstrarfé nægði ekki til að uppfylla allt það sem æskilegt væri að gera. Hann sagði að ráðamenn gerðu ráð fyrir að verktakar í þessum málaflokki gæfu hluta af vinnu sinni til samfélagsins með því að fjársvelta greinina eins og raun ber vitni um.  

Kristján Ólafsson komst ekki á fundinn en Smári Sigurðsson framkvæmastjóri Kirkjugarða Akureyrar hljóp í skarðið og ræddi um kostnað við rekstur og umhirðu kirkjugarða. Niðurstaða Smára var sú sama og annarra sem ræddu fjármál kirkjugarða, þ.e. að mikið fé vantaði til að kirkjugarðar gætu uppfyllt lagaskyldur sínar.

Páll Helgason, fyrrverandi kennari og heimamaður, flutti aðalfundarfulltrúum stórskemmtilegar limrur og sögur sem hann hefur samið um  þekkta Siglfirðinga. Óhætt er að segja að fundarmenn veltust um af hlátri og var Páll margklappaður upp áður en hann lauk máli sínu.

Ómar Hauksson tók að sér að vera leiðsögumaður eftir aðalfundinn. Farið var í Síldarminjasafnið og á Þjóðlagasetrið með viðkomu á Ráðhústorginu. Fundarmenn og makar þeirra, alls yfir 90 manns fylgdu Ómari eftir í halarófu. Ómar sagði fyrst frá sögu Siglufjarðar og fléttaði inn í frásögnina skemmtilegum sögum af þekktum Siglfirðingum. Sr. Bjarni Þorsteinsson var þar langfyrirferðamestur eins og vænta mátti.

Þessari heimsókn norður lauk svo með stund í Siglufjarðarkirkju að morgni sunnudagsins 29. maí, þar sem viðstaddir fengu að heyra í nokkrum orðum sögu byggðar, og þ.m.t. kirkna, í Siglufirði allt frá landnámi, auk þess sem Kirkjukór Siglufjarðar söng.

Fleiri myndir er að finna hér.

Myndir: Þórsteinn Ragnarsson (allar nema forsíðumyndin) / Sigurður Ægisson | [email protected]
Texti: Þórsteinn Ragnarsson.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]