Að skapa venjulegt fólk


Eddan, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin, voru afhent 28. febrúar. Tveir Siglfirðingar voru í hópi þeirra sem fengu verðlaun í ár. Leikari í aukahlutverki var valinn Theodór Júlíusson (Hrútar) og Kristín Júlla Kristjánsdóttir, förðunar- og leikgervahönnuður, hlaut Edduna fyrir gervi (Hrútar), eins og í fyrra (Vonarstræti). Kristín Júlla Kristjánsdóttir er fædd árið 1968. Foreldrar hennar eru Hafrún Ólöf Víglundsdóttir og Kristján Ingi Helgason (Sveinssonar leikfimikennara). Fósturfaðir Kristínar var Júlíus Baldvinsson.
 Eiginmaður Kristínar er Guðmundur Þór Skarphéðinsson, sonur Margrétar S. Hallgrímsdóttur og Skarphéðins Guðmundssonar kennara. Í Sunnudagsmogganum þessa helgina er ítarlegt, fróðlegt og skemmtilegt viðtal við Kristínu, tekið af Ásdísi Ásgeirsdóttur og endurbirt hér með leyfi hennar. Það nefnist „Að skapa venjulegt fólk“ og er á þessa leið:

Kristín Júlla Kristjánsdóttir var venjuleg þriggja barna móðir í Garðinum þegar örlögin tóku í taumana og ein auglýsing í blaði breytti öllu. Hún ákvað að fara að farða fyrir kvikmyndir og auglýsingar. Nú, rúmum áratug síðar, gerir hún það gott í bransanum. Tvær Eddur sitja á hillunni og ótal skemmtilegar minningar hafa skapast sem hún deilir með lesendum.

Kristín Júlla Kristjánsdóttir segir að það skemmtilegasta við starfið sé að fá að skapa venjulega karaktera. Ferðalögin og ævintýrin sem þeim fylgja gera starfið líka spennandi en Kristín segist njóta sín best uppi á jöklum.

Edduverðlaunastyttan sem Kristín Júlla fékk í fyrra fyrir förðun í Vonarstræti hefur fengið félagsskap. Nú standa þær tvær saman því Kristín fór heim með aðra styttu um daginn, að þessu sinni fyrir förðun í kvikmyndinni Hrútum; mynd sem sópaði til sín ellefu verðlaunum. Kvikmyndasminkan Kristín hefur í nógu að snúast og margt hefur drifið á daga hennar síðan lífið tók aðra stefnu.

Fjórtán tíma dagar

Kristín kemur til dyranna eins og hún er klædd, eða réttara sagt inn á kaffihúsið í Borgartúni. Hún er frjálsleg til fara í flaksandi köflóttri skyrtu og lítið sem ekkert máluð. Förðunarmeistarinn segist yfirleitt bara nota dagkrem og maskara. En persónurnar sem hún skapar eru vandlega farðaðar, oft svo vel að það lítur út fyrir að þær séu það alls ekki! Við súpum á tvöföldum latte og hefjum spjallið.

Kristín á ættir að rekja til Siglufjarðar þar sem hún á hús en er uppalin og býr enn í Garðinum, lengst suður með sjó. Þar býr hún með manni sínum Guðmundi, sem er sjómaður og tveimur sonum en elsti sonurinn er fluttur að heiman.

Hún vill hvergi annars staðar búa en segir stundum leiðigjarnt að keyra til og frá vinnu til höfuðborgarinnar. „Það er yndislegt að vera í Garðinum en ég er dálítið leið á því síðustu ár að vera alltaf að keyra á milli. Það getur verið erfitt á veturna; þetta er búið að vera þungur vetur. Ég er svona klukkutíma á milli staða og þegar það eru tólf tíma tökudagar verður dagurinn minn fjórtán tímar,“ segir hún.

Skyndiákvörðun sem breytti öllu

Kristín rekur sitt eigið fyrirtæki, Júlla ehf. og segist hafa nóg að gera. Verkefnin bíða hennar í röðum. En hún hefur ekki alltaf verið í þessum bransa. Áður en hún fór í förðunarnám var hún í ýmsum störfum en hún varð ung móðir. Þegar hún var rúmlega þrítug, þriggja barna móðir í Garðinum, var hún orðin leið og þyrsti í að komast í spennandi starf. „Ég er svo mikill spennufíkill og það hentaði mér aldrei að vinna níu til fimm. Þetta var skyndiákvörðun í raun og veru. Ég sá auglýsingu frá No Name-förðunarskólanum og hugsaði bara, já, já, ég læri þetta og fer að vinna við kvikmyndir,“ segir hún en mörgum fannst hún setja markið hátt. „Fólki fannst ég bara klikkuð, maður fer ekkert bara og lærir förðun og fer svo að vinna við kvikmyndir en ég ætlaði aldrei að fara í árshátíðarfarðanir. Ég fór með þetta markmið, að fara að vinna við auglýsingar eða bíó,“ segir Kristín.

Byrjaði ferilinn í sjálfboðavinnu

„Ég trúi mjög á alheimslögmálið,“ segir Kristín er hún fékk strax verkefni í kvikmyndum. „Ég tók ákvörðun um að fara í kvikmyndaskólann og bauð mig fram í útskriftarverkefnin hjá nemendunum þar. Þá var Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri skólastjóri þar og hún var mjög hrifin af þessari hugmynd. Þau borguðu bara bensínið. Þar kynntist ég því að vera á setti og kynntist fullt af fólki sem er í dag fólk sem er að vinna í bransanum,“ segir hún.

Eftir þessa reynslu fór Kristín á framhaldsnámskeið í förðun hjá Eskimó en þar kenndi Fríða María Harðardóttir. „Þar kynntumst við mjög vel og hún var á fullu að vinna í auglýsingum. Hún tók stóra áhættu og sendi mig að vinna í Coca Cola-auglýsingu sem hún ætlaði að gera og Reynir Lyngdal leikstýrði. Þetta voru þriggja daga tökur. Þetta var fyrsta reynslan mín í að bera ábyrgð. Þarna var ég bara komin inn. Það var hringt í mig fljótlega aftur út af auglýsingu,“ segir Kristín en eftir þetta fór boltinn að rúlla.

Ég spyr hvað sé skemmtilegast við starfið. „Að fá að skapa. Að fá að skapa karaktera. Mér finnst bara ótrúlega gaman að fá að búa til venjulegt fólk,“ segir hún.

Að búa til venjulegt fólk

Ég spyr hvað sé skemmtilegast við starfið. „Að fá að skapa. Að fá að skapa karaktera. Mér finnst bara ótrúlega gaman að fá að búa til venjulegt fólk,“ segir hún. Ég hvái. „Búa til venjulegt fólk?“ »Já, venjulegt fólk, oft er það mesta vinnan. Tökum dæmi með Rétt þar sem aðalpersónurnar, sem Steinunn Ólína og Steini Bach leika, eru bara algerlega venjulegt fólk. Það er ekkert búið að búa til glamúr í kringum það, svona er bara fólk,“ segir Kristín. „Þarftu þá mikið að gera?“ spyr ég sem ekkert veit um kvikmyndaförðun. „Jú, það er svo fyndið, maður þarf einmitt svo mikið að gera. Eins og í Rétti, ég er að mála Steinunni Ólínu heilmikið. Það er oft mesta trixið, að búa til þetta náttúrulega. Við vorum að búa til hana Gabríelu. Steinu fannst geggjað að fá að leika þennan karakter og við þurftum að taka hana heilmikið niður, hún er glæsileg kona og alltaf flott. Þetta er líka erfitt fyrir leikkonu, að líta alltaf út fyrir að vera svona, með hárið alltaf dáldið slepjað. Þetta var heilmikil vinna, við þurftum til dæmis að byrja alla morgna að setja rúllur í hárið, þú hefðir aldrei trúað því! Hún er með smink, meik og maskara en þú sérð það ekki,“ útskýrir Kristín. „Það er alveg vinna að gera fólk „dull“!

Siggi safnaði tánöglum í marga mánuði

Kristín naut þess mjög að vinna að myndinni Hrútum. „Mér finnst svo skemmtilegt að gera bíómynd þar sem þú sérð ekki að fólkið er farðað, og þannig á það líka að vera,“ segir hún. „Ef búningar og smink eru ekkert áberandi heldur falla algerlega að öllu hinu, þá er það vel heppnað. Eins og með Hrúta, ég er rosa stolt af henni. Þar er ýmislegt sem fólk gerir sér ekki grein fyrir. Ég lét Sigga Sigurjóns safna tánöglum í marga mánuði! Hann þurfti að hafa langar og gular táneglur en hann klippir þær einmitt í myndinni. Lísa konan hans Sigga var ekkert ánægð með mig! Og hann að safna öllu þessu skeggi,“ segir Kristín og brosir að þessu. „Allt sem ég gat til að gera hann slæman! Ég lét hann safna hárunum í nefinu og hann mátti ekki klippa augabrúnirnar,“ segir hún hlæjandi. „Hvernig fannst honum þetta?“ spyr ég. „Honum fannst það æðislegt! Ótrúlegur maður, samvinnuþýður. Honum fannst þetta bara æðislegt. Þeir fóru í svo mikinn karakter, hann og Teddi, og æfðu þetta mjög lengi,“ segir Kristín en hún segist njóta þess að vinna með slíkum listamönnum.

„Ég lét Sigga Sigurjóns safna tánöglum í marga mánuði! Hann þurfti að hafa langar og gular táneglur en hann klippir þær einmitt í myndinni. Lísa konan hans Sigga var ekkert ánægð með mig!“

Pústað í stólnum hjá Kristínu

Oft setjast leikarar í stólinn hjá Kristínu og fá útrás. „Þá verða þeir svo miklir vinir manns. Þetta er mjög náin vinna. Persónulegustu tengsl leikara eru við sminkuna,“ segir hún. „Ertu eins og barþjónninn, eins konar sálfræðingur?“ „Já, algjörlega. Það er 100% trúnaður þarna inni. Við erum fyrir luktum dyrum. Það er pústað í þessum stól! Leikari kemur kannski illa stemmdur eða þreyttur og kemur inn til okkar og svo mætir hann á sett eftir klukkutíma og allt í góðu, lítur ótrúlega vel út og ekki að sjá að neitt hafi verið að. Leikstjóri veit aldrei hvað er búið að ganga á. Leonardo di Caprio lýsti þessu vel í ræðu einu sinni en þar þakkaði hann sérstaklega sminkunni sinni. Hann sagði einmitt að leikarar væru ekki neitt ef ekki væri fyrir sminkurnar á slæmum dögum.“

Móri er í uppáhaldi

Kristín segir að Móri í Vonarstræti sé sá karakter sem hún haldi mest upp á af sínum sköpunarverkum. „Ég held að það verði bara alltaf Móri. Bæði útlitslega og ekki síður karakterinn sem lifnaði svo við að hann er ennþá í lífi mínu. Maður trúir svo virkilega að Móri sé bara til. Við Steini áttum ótrúlega náið vinnusamband, þetta var ekkert smá, hann var í stólnum hjá mér tvo til þrjá klukkutíma á hverjum morgni. Hann er með gerviskegg og gervihár og gervitennur,“ segir Kristín en ekki var hægt að láta Þorstein safna skeggi vegna annarra sena þar sem hann var skegglaus.

Hún lýsir þessu nánar. „Móri var með alskegg alla myndina og það eru límingar. Það eru alveg ótrúlega mörg „extreme close up“ í þessari mynd. Það var líka svo góð samvinna á milli okkar Steina og það var aldrei farið af stað án þess að ég væri búin að fara yfir allt,“ segir hún sem fylgist með öllum tökum á mónitor og getur því gripið inn í ef hún sér að gervið er ekki að virka.

Þetta er líka oft mikil samvinna með ljósamönnunum. „Eins og í Hrútum unnum við mjög náið saman. Ljósamaðurinn kallaði kannski á mig og spurði hvort ekki vantaði glampa hér og þá setti ég vaselín punkt þar og hann ljósið á móti,“ útskýrir hún. „Þetta skiptir ótrúlegu máli, lýsingin getur verið hlý eða köld og breytt kannski litnum í hárinu. Og ef það er hörð lýsing þarf sminkið að vera öðruvísi.“

Kiknaði í hjánum yfir Sean Penn

Kristín hefur unnið með stórstjörnum á borð við Ben Stiller og Sean Penn en þeir voru hér við tökur á The secret life of Walter Mitty. „Ég farðaði ekki Ben Stiller, hann er með einkasminku. En ég var yfir sminkdeildinni í myndinni á Íslandi, fyrir utan hönnuðinn,“ segir hún en tökurnar stóðu yfir í fimm vikur.

Kristín er ekki með stjörnur í augunum yfir Ben Stiller. „Ég kynntist honum ekkert mikið. Hann er svo sem ósköp venjulegur maður. Ég var ekki „starstruck“,„ segir hún. „Maðurinn sem ég var „starstruck“ yfir var Sean Penn. Ég hefði aldrei trúað því. Ég hélt að ég myndi aldrei verða það. Það er bara mottó hjá mér að það er enginn æðri en annar,“ segir Kristín og lýsir því hvernig það var þegar hún sá Sean Penn í fyrsta sinn. „Við vorum fyrir austan í tökum þegar Sean Penn kom. Hann labbar inn á hótelið, lítill og hjólbeinóttur „hillbilly“ í kúrekaskyrtu og gallabuxum, í bomsum með derhúfu. Sko, svo mikill „hillbilly“! Hann labbar bara inn og í alvörunni, þá gerist það sem fólk talar um, ég fékk í hnén! Ég kiknaði bara,“ segir hún og brosir.

Hún segir Penn hafa verið alþýðlegan og hann hafi til að mynda afþakkað bílstjóra og viljað keyra sjálfur. „Hann kveikti sér bara í sígarettu inni og enginn þorði að segja neitt og svo drap hann bara í á matardiskinum. Og það voru bara allir eins og ég með í hnjánum,“ segir hún og hlær. „Einu sinni hlammaði hann sér við hliðina á mér í matartjaldinu! Og þá gat ég ekki borðað,“ segir hún og sýpur hveljur yfir tilhugsuninni.

Starfið hefur leitt Kristínu víða en hún hefur ferðast bæði innanlands og erlendis til að farða. Hún segir það, ásamt að búa til karaktera, það skemmtilegasta við starfið.

Frjáls eins og fuglinn á jöklum

Starfið hefur leitt Kristínu víða en hún hefur ferðast bæði innanlands og erlendis til að farða. Hún segir það, ásamt að búa til karaktera, það skemmtilegasta við starfið. „Það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri, þessi forréttindi að fá að ferðast svona mikið. Þó að mér hafi alltaf þótt gaman að skoða landið mitt þá gerum við það ekki eins í þessum bransa, því við erum oft að fara á einhverja leynda staði. Ég er alveg sjúk í jöklana, bæði Langjökul og Vatnajökul. Það er heilun að vinna á þessum stöðum. Að vera uppi á jökli í heilan dag og ekki í símasambandi. Og í alvörunni, maður verður eins og fuglinn, svo frjáls. Maður losnar við allt, allar áhyggjur,“ segir hún uppnumin.

„Svo hef ég unnið í svissnesku Ölpunum. Það var mikil upplifun að vinna í 3.000 metra hæð og fara í kláf í vinnuna. Ég að deyja úr lofthræðslu, ég hugsa að ég geri þetta aldrei aftur í lífinu!“ segir hún.

Fengum hláturskast í stórhríð

Ég spyr hvað sé það klikkaðasta sem hún hafi lent í. „Það er þegar við lentum í Grænlandsstorminum uppi á Langjökli 2012. Það var í janúar og svokallaður Grænlandsstormur gekk yfir landið og við vorum að taka upp bíómyndina Frost. Við erum uppi í tökum þegar stormurinn skellur á. Þetta var frábært fyrir myndina. Það var rosalegt, ég held að það hafi farið upp í 50 metra. Við vorum með tvo skúra þar sem við héldum til og það var kaðall sem var strengdur á milli kamarsins og skúranna. Við máttum aldrei fara færri en tvö og helst þrjú í einu á kamarinn. Ég og Magga Einars búningahönnuður þurftum að fara og fórum saman. Við skriðum. Á miðri leið komumst við ekki lengra, við gátum ekki andað. Þá lögðumst við niður, haldandi í kaðallinn, og fengum hláturskast! Þegar ég hugsa til baka hugsa ég: vorum við að gefast upp? Ég veit það ekki. Við vorum að kafna. Við hefðum auðvitað verið rammvilltar ef við hefðum ekki verið með kaðallinn. Svo bara hlógum við og hlógum. Á endanum þegar við komumst að kamrinum og opnuðum hann, þá var hann alveg lokaður af snjó,“ lýsir hún.

Þau voru svo kölluð niður af jöklinum af Almannavörnum. „Og þegar við fórum í trukkinn þá var hann bilaður. Við héldum þar til í nokkra klukkutíma,“ segir hún en saman voru þau um tuttugu manns. „Maður hefur oft lent í einhverju, en þetta er minnisstæðast.“

„Það er ótrúlega gaman að fá viðurkenningu á störfum sínum, það er ákveðin virðing. Og flott að vera með það á ferilskránni,“ segir Kristín.

Eddan er heiður og virðing

Við tölum um Edduna. Og það tvær. „Það er ótrúlega gaman að fá viðurkenningu á störfum sínum, það er ákveðin virðing. Og flott að vera með það á ferilskránni,“ segir Kristín en hún segist hafa orðið hissa að vinna Edduna í ár. „Ég er ekki að segja að ég eigi það ekki skilið, því ég er mjög ánægð með þessa mynd, Hrúta. En hinar, Heba Þóris og Áslaug Sigurðar sem voru tilnefndar með mér gerðu líka flotta hluti. Mér fannst við allar eiga hana skilið.“

Kristín talar um heiðursverðlaun Eddunnar sem að þessu sinni komu í hlut Rögnu Fossberg. „Ég er svo ánægð að Ragna Fossberg, móðir þessarar starfstéttar, skyldi fá heiðursverðlaunin. Það er svo mikil virðing og heiður fyrir okkar stétt. Mér fannst með þessu að okkar stétt færi upp á næsta plan. Það loðir ennþá við að framleiðendur spyrji, þarf sminku?“

Hollywood heillar ekki

Ýmislegt er á döfinni á næstunni. „Ég er að fara að gera stuttmynd sem Nanna Kristín er að leikstýra og Ólafur Darri leikur aðalhlutverk. Síðan er alls konar sem ég er ekki búin að skrifa undir,“ segir hún dularfull.

„Hvað um Hollywood, kallar það?“ „Nei, ég hef neitað mörgum verkefnum. Þetta heillar mig ekki neitt. Mig langar frekar að vera gervahönnuður að íslenskri bíómynd, heldur en að vera aðstoðarmaður að erlendri. Fínt að vera góð á Íslandi.“

Kaffið okkar er orðið kalt og kominn tími til að kveðja. Ég spyr að lokum: „Hefurðu lent í að gervinefið af einhverjum festist bara ekki?“ „Já, iðulega,“ segir hún og hlær.

Document2

Forsíðumynd og viðtal: Ásdís Ásgeirsdóttir | [email protected].
Inngangstexti: Sigurður Ægisson | [email protected].

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]