Á bíl yfir Skarð


Vorið 1946, þegar unnið hafði verið að gerð vegarins yfir Siglufjarðarskarð í ellefu sumur, voru enn eftir 4 kílómetrar af þeim 13,7 kílómetrum sem leiðin frá Skarðdalslæk að Hraunum í Fljótum var talin vera. Þrátt fyrir að erfitt væri að fá verkamenn til vinnu við vegagerðina, vegna anna í síldinni, var hugur í mönnum að komast sem lengst þetta sumar, enda hafði nú loks fengist jarðýta til verksins.

Vegamálastjóri sagði að þetta væri „alversta vegarstæði sem akvegur hefur verið lagður um hér á landi“. Skarðsvegurinn mun hafa verið hæsti fjallvegurinn, 630 metra yfir sjávarmáli.

Sumarið 1945 var hið opinbera farið að gera sér grein fyrir því að styttast færi í lok vegarlagningarinnar því að leyfi til sérleyfisferða landleiðina milli Sauðárkróks og Haganesvíkur var lengt til Siglufjarðar. Ekið var á bifreið að Hraunum en þaðan var fólk flutt á hestum yfir Siglufjarðarskarð. „Þegar yfir það er komið verður ekið áfram í bifreið til Siglufjarðar,“ sagði í Vísi.

Nokkrir undanfarar

Klukkan hálf átta að morgni mánudagsins 3. október 1938 lögðu þrír menn af stað yfir Siglufjarðarskarð áleiðis til Reykjavíkur á bifreiðinni F 1, sem var af gerðinni Pontiac. Þetta voru bílstjóranir Baldvin Kristinsson, Ólafur Guðmundsson og Stefán Guðmundsson, bróðir Ólafs. Vegurinn var þá aðeins kominn hálfa leið upp í Skarð Siglufjarðarmegin en síðan tóku við ruddar reiðgötur. Tveimur klukkustundum síðar var komið í háskarðið en ferðin þaðan að Hraunum í Fljótum tók sjö klukkustundir. Verst mun hafa verið að komast brekkuna á Ytri-Eggjum. Allmargir menn hjálpuðu bílnum á verstu köflunum, sumir segja tólf. „Hefur bifreið aldrei farið þessa leið fyrr,“ sagði í Tímanum. Baldvin var eigandi bifreiðarinnar, en hún var seld til Akureyrar þremur árum síðar.

Um ferðina orti Guðmundur Davíðsson á Hraunum: „Yfir Skarðið skrönglaðist / skatna sveit með bílinn. / Baldi hingað hrönglaðist / og hélt svo fram óvílinn.“

Sigurpáll Árnason, garðyrkjumaður í Varmahlíð í Skagafirði (sem er enn á lífi, 99 ára), ók yfir Siglufjarðarskarð á jeppabifreið sinni 23. júlí 1946. Hann var einn í bifreiðinni og ók gamla reiðveginn á kafla. Fullyrt var í Mjölni að þetta hefði verið fyrsta bifreiðin sem fór hjálparlaust yfir Skarð. Síðar var það borið til baka og þess getið að sumarið áður og þetta sumar hefði oftar en einu sinni verið farið á jeppum þessa leið.

Áætlunarferðir hófust

Skarðsvegurinn var aldrei vígður formlega en yfirleitt er miðað við að hann hafi verið tekinn í notkun þegar fyrsta fólksflutningabifreiðin komst yfir Siglufjarðarskarð, þriðjudaginn 27. ágúst 1946.

Baldvin Kristinsson, eigandi bifreiðarinnar, K 71, kom akandi á henni til Siglufjarðar um klukkan fjögur síðdegis þennan dag. Hann hafði þurft að fá aðstoð yfir 600 metra kafla sem ekki var fullgerður, Fljótamegin. Sagt var að jarðýta hefði dregið bifreiðina þá leið. Ferðin frá Hraunum í Fljótum til Siglufjarðar tók tvær og hálfa klukkustund. „Stórviðburður í sögu Siglufjarðar,“ sagði í Mjölni. Síðar var sagt að þennan dag hefði verið „sól í lofti og sól í huga Siglfirðinga“.

Strax daginn efir hófust reglulegar áætlunarferðir, þrisvar í viku, á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 11:30. Panta þurfti farseðla fyrir kl. 22 kvöldið áður. Bifreið Baldvins fór yfir Skarð og að vegarendanum. Farþegar þurftu síðan að ganga að hinum enda vegarins, en það var talinn tíu mínútna gangur. Þar beið önnur bifreið sem flutti farþegana áfram.

Margar beygjur

Um miðjan október 1946 var lokið við að leggja veginn alla leið en eftir var að bera ofan í hann. Þá tók ferðin frá Siglufirði til Haganesvíkur „ekki nema tvo tíma,“ að sögn Þjóðviljans. Þótti í frásögur færandi að farið hefði verið í bíl frá Siglufirði „alla leið til Reykjavíkur“ á einum degi. Framkvæmdum lauk svo sumarið 1947.

Ekki voru allir sáttir við legu vegarins og fráganginn. Haustið 1946 sagði í Mjölni að á veginum væru margir hættustaðir, hann væri lagður „í ótal essum og bugðum“ sem væru „óforsvaranlega krappar,“ vegurinn væri allt of mjór og erfitt að mætast á honum.

Skarðsvegurinn var oftast opnaður í apríl eða maí og honum var haldið opnum fram í september eða október, ef hægt var. Stundum var ófært vegna snjóa meira en hálft árið. Siglfirðingar urðu að sætta sig við þessa samgönguleið í rúma tvo áratugi, þar til Strákavegurinn og Strákagöngin voru tekin í notkun í nóvember 1967.

Baldi blúss

Baldvin Kristinsson bifreiðastjóri kom við sögu bæði 1938 og 1946. Hann var fæddur 1901 og dó 1964, 62 ára. Faðir Baldvins var Kristinn Ásgrímsson hákarlaskipstjóri við Eyjafjörð og móðir hans var Helga Guðrún Baldvinsdóttir, ættuð úr Eyjafirði. Þau fluttu til Siglufjarðar árið 1926. Meðal barna Kristins og Helgu voru Guðbjörg ljósmóðir á Siglufirði, kona Árna Kristjánssonar sem kenndur var við Shell, og Arnfríður, kona Þórarins Hjálmarssonar vatnsveitustjóra.

Kona Baldvins var Steinunn Björnsdóttir, dóttir Björns Pálssonar bónda á Dalabæ á Úlfsdölum og Jórunnar Árnadóttur. Baldvin og Steinunn eignuðust einn son.

Baldvin mun hafa komið til Siglufjarðar á þriðja áratug tuttugustu aldar. Hann var einn af þremur fyrstu sem fengu ökuskírteini á Siglufirði, Alþingishátíðarárið 1930. Á fjórða og fimmta áratugnum rak hann Bifreiðastöð Baldvins hf. og einnig bifreiðaverkstæði (sem síðar hlaut nafnið Neisti). Þegar Baldvin ók áætlunarbílnum yfir Siglufjarðarskarð árið 1946 var hann nýfluttur til Sauðárkróks en mun síðustu ár sín hafa búið í Reykjavík.

Á bílstjóraferlinum var Baldvin oft kallaður Baldi blúss og það tengt því að hann hefði ekið greitt, „á blússandi siglingu,“ ekki síst milli Varmahlíðar og Siglufjarðar.

Fyrstu bifreiðarnar

Samkvæmt bókum bæjarfógetaembættisins á Siglufirði voru fyrstu bifreiðarnar skráðar þar árið 1928. Fyrstu tvær, 16. júlí, voru SI 4 og SI 6, Chevrolet-vörubifreiðar eign Guðbrands Vigfússonar og félaga, og sú þriðja, SI 7, einnig Chevrolet-vörubifreið, var skráð 2. ágúst, eign Andrésar Hafliðasonar og félaga.

Næsta ár bættust tíu bifreiðar við, þar á meðal fyrsta fólksbifreiðin, SI 9, skráð 8. apríl 1929, Ford, eign Snorra Stefánssonar.

Tólf bifreiðar til viðbótar voru skráðar árið 1930. Ein þeirra var önnur fólksbifreiðin, SI 22, Pontiac, en eigandi hennar var Vilhjálmur Hjartarson (sú bifreið var seld til Akureyrar sumarið 1932).

Það var svo árið 1938 að einkennisbókstafurinn breyttist úr SI í F.

Árið 1946, þegar leiðin yfir Siglufjarðarskarð opnaðist, voru 75 bifreiðar skráðar á Siglufirði, þar af 11 fólksbifreiðar.

Mynd: Sigurður Ægisson | [email protected]
Texti: Jónas Ragnarsson | [email protected] Upphaflega birt í Hellunni, september-október 2016 (18.10.2016).

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]