99 ára afmæli bæjarins


Á þessum degi, 20. maí, árið 1818 samþykkti Friðrik konungur sjötti tilskipun um að Siglufjörður í Eyjafjarðarsýslu skyldi vera löggiltur verslunarstaður. Hundrað árum síðar, 20. maí 1918, var tilkynnt að Alþingi hefði samþykkt að veita Siglufirði kaupstaðarréttindi.

Í siglfirska blaðinu Fram var fjallað um afmælið og hátíðahöldin 1918. Snemma að morgni 20. maí var skotið af fallbyssu og „lúðraflokkur“ frá Akureyri lék lög. Skrúðganga barna var frá Hvanneyri að Barnaskólanum. Drengir og fullorðnir þreyttu „kapphlaup“ og kl. 11 var guðsþjónusta í kirkjunni „sem ekki rúmaði nærri því alla er þar vildu vera“. Eftir hádegið voru lögð blóm að leiðum þriggja merkismanna í nýja kirkjugarðinum og þriggja í Hvanneyrarkirkjugarði. Skrúðganga var að hátíðarsvæðinu við Barnaskólann og „var fáni Íslands borinn þar fyrir“. Þegar þjóðsöngurinn hafði verið sunginn var flutt „nýorkt hátíðakvæði eftir Matthías Jochumson með nýsömdu lagi eftir séra Bjarna Þorsteinsson“. Bjarni flutti ræðu fyrir minni Siglufjarðar, fleiri ræður voru fluttar og sungnir ættjarðarsöngvar. Í leikfimishúsi Barnaskólans var síðan „dansleikur er hélst framundir morgun“.

Ritstjóri Fram hugsaði til þess dags eftir nákvæmlega eitt ár þegar haldið verður upp á hundrað ára afmæli kaupstaðarréttindanna og tvö hundruð ára afmæli verslunarréttindanna: „Vér óskum að þeir er halda hátíðlegan 20. maí 2018 megi fá að sjá blómlegan ávöxt iðju vorrar og niðja vorra yfir öldina.“

Mynd: Ljósmyndari ókunnur.
Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is