Siglufjarðarpistill


Morgunblaðið birtir reglulega pistla fréttaritara sinna, í þætti sem nefnist Úr bæjarlífinu. Er þar reynt að bregða upp myndum úr heimabyggð og því sem fólk úti um land hefur verið og er að fást við hverju sinni. Þetta á að vera stutt og hnitmiðað og hefur undirritaður reynt að byrja hverju sinni þar sem frá var horfið. Frá þeirri reglu er að einhverju leyti vikið að þessu sinni. Þann 4. janúar og 10. september 2011, 28. janúar, 21. júlí og 10. nóvember 2012, 6. apríl, 17. ágúst og 14. desember 2013 var komið að Siglufirði. Einnig 17. maí og 15. nóvember 2014, sem og 21. mars og 24. október í fyrra, 19. mars 2016. Og svo í dag.

Þar segir:

  • Þann 27. ágúst árið 1946 var fyrstu fólksflutningabifreiðinni ekið yfir Siglufjarðarskarð og er oftast miðað við að vegurinn hafi verið tekinn í notkun þann dag. Hann er því nýorðinn 70 ára. Reglulegar áætlunarferðir yfir Skarðið hófust strax daginn eftir. Í blaðafréttum kom fram að bifreiðastjórinn, Baldvin Kristinsson, hefði þurft aðstoð við að komast yfir 600 metra kafla sem ekki var fullfrágenginn. Bifreiðin, K 71, kom til Siglufjarðar um klukkan fjögur síðdegis þennan dag. Þar með var einangrun Siglufjarðar rofin en unnið hafði verið að vegagerðinni í tólf sumur. Strákavegurinn leysti svo Skarðsveginn af hólmi árið 1967.
  • Í ágústmánuði jókst umferð um Héðinsfjarðargöng um 4% miðað við sama mánuð í fyrra. Hefur umferðin því aukist um tæp 12% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Stefnir í metumferð um Héðinsfjarðargöngin nú í ár og að heildarökutækjafjöldi verði 250–260 þúsund. Meðalumferð á dag stefnir því í um 710 ökutæki á sólarhring. Þegar ráðist var í gerð Héðinsfjarðargangna áætlaði Vegagerðin að 350 bílar myndu fara um þau á dag.
  • Hafin er skráning menningarerfða í Fjallabyggð. Hún er liður í samstarfsverkefni milli tveggja stofnana í Noregi og ÞjóðListar ehf. á Íslandi og styrkt af Norsk-íslenska samstarfssjóðnum. Unesco, menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur lengi hvatt til slíkrar skráningar í heiminum öllum.
  • Smástrákar er félagsskapur ungliða í Björgunarsveitinni Strákum á Siglufirði og starfa í því 24 unglingar á aldrinum 13-15 ára ásamt sjö umsjónarmönnum. Á vikulegum æfingum er farið yfir það sem við kemur björgunarsveitastarfinu, s.s. fjallamennsku, klifur, ísklifur, rötun, skyndihjálp og fleira. Magnús Magnússon og Ragnar Hansson leiða þetta ungliðastarf og hafa gert undanfarin ár og eiga stóran þátt í því að það er jafn öflugt og gott og raun ber vitni.
  • Nýr viðlegukantur Hafnarbryggjunnar á Siglufirði var formlega vígður í gær, 30. september. Innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, klippti á borða og opnaði mannvirkið formlega til notkunar. Framkvæmdir hófust í febrúar 2016 við fyllingu og niðurrekstur á stálþili, sem er 227 metra langt. Annar viðlegukanturinn er 155 metra langur og hinn um 60 metrar. Þá var innsiglingin að Siglufjarðarhöfn og einnig hluti hafnarinnar dýpkað niður í – 9,0 metra. Eftir er að steypa þekju á höfnina, en það verður gert næsta vor eftir að fyllingin hefur sigið. Gamli viðlegukanturinn var orðinn sundurryðgaður og ónýtur og því var þessi framkvæmd löngu tímabær. Endurbætt og stækkuð Hafnarbryggjan mun mæta þörfum útgerða í heimabyggð ásamt skipum annarra útgerða. Einnig er hægt að taka á móti stærri skemmtiferða- og flutningaskipum. Heildarkostnaður við þessa miklu framkvæmd er ríflega 550 m.kr. Hafnarbótasjóður styrkir byggingarhluta verkefnisins um 75% og dýpkunarhluta um 60% þannig að hlutur Fjallabyggðar er um 150 m.kr. og Hafnarbótasjóðs um 400 m.kr.
    Hafnarbryggjan var upphaflega vígð í byrjun nóvember 1928. Norðurhliðin var þá 70 metra löng, austurhlið 80 metrar og suðurhlið 45 metrar. Fyrsta skipið, sem fékk að leggjast að henni var Brúarfoss. Dettifossslagurinn svonefndi var einmitt háður á téðri bryggju 13. maí 1934. Hún var endurbyggð á árunum 1957 til 1964 og svo núna aftur.
  • Unglingamót Tennis- og badmintonfélags Siglufjarðar, A-mót, er haldið í dag og á morgun, 1. og 2. október. Mótið er hluti af Dominos unglingamótaröð BSÍ. Keppendur eru um 100 talsins frá alls sjö félögum.

siglufjardarpistill

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]
Fylgja: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]