70 ára gamall Willys


Í dag eru nákvæmlega 70 ár síðan græni, flotti Willys-jeppinn hans Andrésar Magnússonar læknis var nýskráður. Tveir af helstu jeppamönnum Siglufjarðar, þeir Guðni Sveinsson og Jón Trausti Traustason, eiga líka afmæli í dag. Var auðvitað haldið upp á þetta allt með viðeigandi hætti á jeppaverkstæði Guðna.

Sama dag og Héðinsfjarðargöngin voru opnuð fyrir umferð, 2. október 2010, birtist í Morgunblaðinu og á þessum vef grein um ævintýraferð umrædds bíls yfir í Héðinsfjörð. Við hæfi er að rifja þá för upp. En þar sagði:

Á GÖMLUM JEPPA YFIR FJÖLLIN

Í dag verða Héðinsfjarðargöngin formlega tekin í notkun og getur þá loksins hver sem er brunað inn í þennan fjörð, sem göngin eru kennd við, og litið hann augum.

Áður en framkvæmdir hófust þar, árið 2006, hafði einungis einn bíll komist þangað akandi. Þetta var 1. maí 1989 – ári áður en Sverrir Sveinsson og sex aðrir norðlenskir þingmenn lögðu fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um að kanna „lagningu vegar og gerð jarðganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar um Héðinsfjörð“ – og farartækið var Willys-jeppi, árgerð 1946.

Hugmyndin kviknaði í fermingarveislu

„Þetta byrjaði eiginlega allt í fermingarveislu daginn áður,“ segir Andrés Magnússon, yfirlæknir á Siglufirði, þegar hann lítur til baka og rifjar upp ferðina einstöku, en þar voru með honum í för Guðni Sveinsson, Stefán Benediktsson og Páll Sigurðsson, ásamt nokkrum öðrum sem fylgdu leiðangrinum eftir á snjósleðum. „Þá var farið að ræða hvort það væri hægt að komast í Héðinsfjörð á bíl. Og við fórum bara af stað strax nokkrir, sama daginn, eins og við vorum klæddir, í jakkafötum og á lakkskóm, og komumst langleiðina upp í Hólsskarð á jeppanum, enda mikill snjór yfir öllu, en snerum þá við og ákváðum að ná okkur í aðeins betri útbúnað. Síðan fórum við á mánudeginum alveg upp og niður í fjöru hinum megin.“Kapparnir óku upp Hólsdalinn, meðfram gljúfri árinnar sem þar er, og lentu í vandræðum í síðustu brekkunni, þurftu að spila sig þar upp, og svo var brött hengja efst uppi Héðinsfjarðarmegin, í 630 metra háu skarðinu, sem þeim leist ekki á, enda ófært fram af henni akandi, en þá datt þeim í hug að láta jeppann síga þar niður á hvolfi, á spilinu, og niður fyrstu brekkuna. Við það laskaðist spilið eitthvað, en þeim tókst að endingu að gera við það.

„Nú, svo förum við niður hlíðina en vorum dálítið smeykir af því að þar var mikill hliðarhalli og erfitt að fara niður brattann en við björguðum okkur á því að láta einhverja standa í dyragættinni hjá mér til þess að vega á móti hallanum og svo brunuðum við bara niður Ámárdalinn, fórum yfir vatnið og keyrðum eftir því endilöngu og alveg niður í fjöru. Og til þess að vera nú alveg viss um að hafa farið alla leið ók ég bílnum aðeins út í sjóinn. Og svo skildum við hann eftir á fjörukambinum,“ segir Andrés, sem kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að slíku brölti. Hann bætir því við, að sér hafi fundist jeppinn hálf-einmanalegur þarna, þar sem hann stóð einn og yfirgefinn í þessum hvíta eyðifirði, þar sem eina merkið um daglegt líf voru tófuspor á víð og dreif.

Ansi bratt

Aðspurður segir hann að þeir hefðu alveg komist til baka ef þeir hefðu viljað en það hefði tekið of langan tíma og aldrei verið inni í myndinni.„Stefán Einarsson á Nesi var búinn að fallast á að sækja bílinn fyrir mig á pramma og draga hann sjóleiðina til Siglufjarðar, þannig að við ætluðum aldrei að fara til baka á honum akandi. En þetta dróst hins vegar því Stefán var á sjó og veðrið ekki hagstætt þegar hann svo var til í tuskið. Eftir viku eða svo ákváðum við því að fara og sækja jeppann og aka honum til baka aftur. En þá hlýnaði og snjórinn varð svo mjúkur að þetta reyndist erfiðara en við héldum í upphafi, að komast upp brekkurnar, og við urðum því að spila hann langa kafla á leiðinni. Þá höfðum við þetta þannig að við vorum með planka sem var á að giska 1,5 metrar á lengd, grófum hann í 1 metra djúpa holu, mokuðum yfir og svo var vírinn strekktur og dró bílinn áfram. Við vorum með grannan vír, eitthvað um 75 metra langan. Það tók okkur tvær eða þrjár atrennur að komast alveg upp þangað og spannaði heila viku og fjölmargir komu að því verki, þ.ám. Guðni Sveinsson, Gunnar Júlíusson, Sigursveinn Sigmarsson, Sævar Björnsson og Oddur Guðmundur Jóhannsson. Svo beið hann þar uppi á toppnum í sólarhring eða svo, á hæstu bungu, Presthnjúk, sem er 767 metra hár, en síðan var brunað niður Skútudalinn.

Sumum varð ekki um sel þegar við fórum niður í bakaleiðinni enda sumar brekkurnar meira að segja erfiðar fyrir snjósleða upp í móti, og það er orðið ansi bratt. Það voru sumir hræddir við að jeppinn myndi steypast fram fyrir sig eða velta, en ég þekkti minn bíl og vissi að þetta yrði allt í lagi. Í þessum ferðum var enginn í bílnum nema ég, hinir voru hlaupandi í kring til aðstoðar og svoleiðis og hangandi á þegar með þurfti.“

Áhugavert spil

Saga bílsins er merkileg en spilið er einnig merkilegt og á sér áhugaverða sögu. „Þetta er feiknalega öflugt gírspil frá Koenig Iron Works í Houston í Texasríki í Bandaríkjunum, tengt við gírassann á bílnum, þ.e.a.s. þetta er ekki rafmagnsspil; það hefði aldrei þýtt að fara þetta á svoleiðis græju,“ segir Andrés. „Vélin snýr sumsé spilinu, ekki rafall. Og það hafði verið notað til að draga á að giska 25 metra langt skriðmót, fullt af steypu, þegar ég var að vinna í hitaveitu í Hafnarfirði sem ungur maður, þegar verið var að steypa hitaveitustokkinn. Þá var það á Scout-jeppa og unnið á þessu daginn út og daginn inn. Og svo eignuðust tveir frægir jeppamenn þetta spil, Snorri og Guðni Ingimarssynir, sem voru fyrstu menn til að fara akandi upp á Vatnajökul, þ.e.a.s. upp í Grímsvötn, og þá er ég ekki frá því að þetta spil hafi verið á jeppanum þeirra. Þannig að ef það er satt, þá hefur þetta spil verið með í fyrstu ferðinni upp í Grímsvötn og svo aftur í ævintýrareisunni í Héðinsfjörðinn. Og það er ekki svo lítið.“

Leiðarkort.

Hólsskarðið, þar sem farið var yfir í Héðinsfjörð 1. maí, og hjólför
á leiðinni upp á Presthnjúk; Siglufjörður hægra megin,
Héðinsfjörður vinstra megin.

Á leiðinni upp Ámárdalinn; verið að grafa holu fyrir spilfestuna.

Sama.

Spilað upp úr Ámárdalnum.

Séð ofan í Hólsdal (efri hluti myndarinnar);
Almenningshnakki, hæsta fjall við Siglufjörð, efst til vinstri.

Toppnum náð. Á Presthnjúk.

Sama.

Sama.

Sama.

Sama.

Sama, en verið að undirbúa brottför.

Viðtal fyrir sjónvarp áður en farið er niður.

Verið að kvikmynda.

Efst í Skútudal.

Séð ofan í Skútudal.

Lagt af stað í mesta brattann (efst í Skútudal).

Sama.

Utan í Hólshyrnu.

Á leiðinni niður Skútudalinn.

Á fullri ferð.

Einn í hvítri auðninni.

Á niðurleið.

Tómt streð.

Eddi og Andrés fullir ákafa.

Kappar á sleða fylgdust með.

Enn á niðurleið.

Hangið utan á til að dreifa þunganum.

Ein brekkan enn.

Og önnur til.

Áning.

Pása.

Þorsteinn Jóhannesson framan við spilið.

Stutt fyrir ofan Skútuána.

Í Skútudal.

Siglufjörður í fjarska.

Komið niður brekkuna.

Í miklum hliðarhalla við Skútuána ofan við hitaveitumannvirkin.

Sama.

Jeppinn og bílstjórinn 21 ári síðar, 28. september 2010, báðir við hestaheilsu.

Og að lokum spilið góða.

[Viðtalið birtist upphaflega 2. október 2010, á bls. 18, í Morgunblaðinu, en myndir eru hér töluvert fleiri. Endurbirt með leyfi.]
Allar myndir úr ferðinni eru ýmist teknar af Sigursveini Sigmarssyni eða Oddi Guðmundi Jóhannssyni.
Nýjustu myndirnar og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Leiðarkort: Elín Esther Magnúsdóttir | ee@mbl.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is