7-9-13


Upp er runninn 7. september árið 2013, sem í hugum margra landsmanna hefur töluvert gildi og það svo mikið reyndar sumstaðar að allnokkur pörin hafa ákveðið að ganga í hjónaband í dag, enda má lesa út úr dagsetningunni einhverja mestu töfra- eða happaþulu okkar frá upphafi, 7-9-13, sem ætti þá líklega að tryggja hinum nýgiftu aukaskammt af hamingju og jafnvel öðrum gæðum í framtíðinni.

Elsta skráða heimild um þessi talnarunu, samhangandi við einhverja útbreiddustu hjátrú sem þekkist meðal kristinna manna nú til dags, að banka þrisvar í eða undir borð eða snerta einhverja viðartegund, er frá 1913 og það er Axel Olrik, texta- og þjóðfræðingur, sem hefur skráð hana niður eftir fröken Dahl, nuddkonu einni í Kaupmannahöfn. Þar segir orðrétt: „Banke under bordet og sige 7, 9, 13, som præstekonen gjorde. At det ikke skal gå ilde med noget, man udtaler sig forhåbningsfuldt om.”

Nákvæmlega þessi samspyrða, og eins hitt, að fara með þuluna eina og sér – en tilgangurinn er sá, að reyna að koma í veg fyrir að ósk sem maður lætur út úr sér virki ekki storkandi á örlögin – mun einungis þekkt í Danmörku og á Íslandi, eða var það a.m.k. lengstum. Dr. Ingvar Svanberg, þjóðfræðingur við Uppsalaháskóla, kannast t.d. ekki við þetta í Svíþjóð og eiginkona hans ekki í Færeyjum, þar sem hún er fædd og uppalin. Hið sama er upp á tengingnum varðandi Noreg og Finnland, að því er greinarhöfundur best veit.

En hvað skyldi vera í gangi þarna? Af hverju þessar tölur frekar en aðrar? Margir fræðimenn hafa reynt að svara þessu, hér og ytra, og bent á, að í raun séu þær einhverjar hinar kröftugustu í gjörvallri mannkynssögunni.

Ebba Hjorth, textafræðingur og fyrrum ritstjóri Den Danske Ordbog, hefur bent á áhugaverða hluti í þessu sambandi. „Þetta gæti hafa orðið til í áföngum,” segir hún í viðtali frá 30. september í fyrra, á Videnskab.dk, „því frá miðri 19. öld er kunnugt orðatiltækið „hvorki 7 né 9”, sem merkir „hvorki heilagt né vanheilagt”.” Á þeim árum hafi talan 7 verið álitin heilög en 9 vanheilög, ólukkugripur [- sennilega þá liðið fyrir það að hafa verið í mestu uppáhaldi í norrænum átrúnaði, Ásatrú]. Á einhverjum tímapunkti hafi 13 svo bæst við, kannski vegna þess, að hún var alræmd óhappatala, og eins hins, að samkvæmt gamalli alþýðutrú mátti draga úr áhrifamætti vondra afla með því að nefna þau. Einnig má vera að 13 hafi tengst þessu af því að hún er prímtala, eins og 7, eða að fólk hafi viljað bæta henni aftan við 7-9 út af rytmanum, sem upp á vantaði.

Þetta er afar sannfærandi kenning. Þó er ómaksins vert að skoða jafnframt aðra möguleika. Lítum samt fyrst aðeins nánar á tölurnar.

Sjö

Sköpun heimsins tók sjö daga, að því er fram kemur í upphafsorðum Biblíunnar, og Guð blessaði þann síðasta og helgaði. Í 3. Mósebók segir: „Þið skuluð færa Drottni eldfórnir í sjö daga. Sjöunda daginn skuluð þið halda heilaga samkomu. Þá skuluð þið ekkert verk vinna.” Og litlu síðar: „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Fyrsta dag sjöunda mánaðarins skuluð þið halda helgihvíld, minningardag með hornablæstri, helga samkomu.” Og: „En sjöunda árið skal landið hvílast algjörlega. Það er hvíld Drottni til dýrðar. Þá skaltu hvorki sá akur þinn né klippa víngarð þinn.” Í 5. Mósebók segir: „Þetta eru þau lög og ákvæði sem þið skuluð fylgja af kostgæfni svo lengi sem þið lifið í landinu sem Drottinn, Guð forfeðra þinna, hefur fengið þér. Þið skuluð fylgja þeim svo lengi sem þið lifið í landinu..: „Sjöunda hvert ár skaltu fella niður skuldir.” Og í Nehemíabók segir álíka: „Sjöunda hvert ár munum við ekki nýta það sem landið gefur af sér og gefa eftir hverja skuldakröfu.” Og í Jeremía: „Sjöunda hvert ár skal sérhver yðar leysa úr ánauð hebreskan ættbróður sinn sem hefur selt sig þér.” Og í Síraksbók er þetta: „Sáðu eigi í plógför ranglætis, ella uppskerðu sjöfalt af slíku.” Þannig kemur umrædd tala fyrir á nánast hverri blaðsíðu þarna. Svipað er með Nýja testamentið. Setningar Jesú á krossinum voru t.a.m. sjö. Þetta er langalgengasta talan í Ritningunni.

Og höfuðdyggðirnar í kristinni siðfræði eru sjö: Hófsemi, forsjálni, hugprýði, réttsýni, trú, von og kærleikur. Einnig dauðasyndirnar: hroki, ágirnd, losti, reiði, græðgi, öfund og leti.

Og undur veraldar.

Séu allar tölur frá 1-7 lagðar saman verður útkoman 28, dagafjöldi tunglmánaðarins og tíðahringsins.

Og ekki þykir slæmt nú á tímum, frekar en áður, að vera í sjöunda himni. Í þessari tölu er sjálf lífshrynjandin fólgin.

Níu

Þrír er á sömu lund mikil happatala, býr yfir töframætti og er heilög. Í Gamla testamentinu kemur hún oft fyrir. Höll Salómons var t.d. þrisvar sinnum tíu álnir á hæð, þar voru þrjár gluggaraðir og þrjár vistarverur. Nói átti þrjá syni, ættfeður Ísraelsmanna voru þrír, konungar Ísraels sömuleiðis, og mestu spámennirnir: Jesaja, Jeremía og Esekíel. Og í Nýja testamentinu koma vitringarnir með þrjár gjafir, vinsælasta kenningin um aldur Jesú er sú, að hann hafi verið 33 ára þegar hann var krossfestur og upprisan varð á þriðja degi. O.s.frv. Að því ógleymdu, að Guð kristinna manna er þríenn: faðir, sonur og heilagur andi.

Í goðafræðinni sem og öllum heimi þjóðsagna og ævintýra er þetta á sömu lund. Og illar vættir þola ekki umrædda tölu.

Hvað þá ef útkoman er 3 x 3.

Í stærðfræðinni hefur talan níu líka mikla sérstöðu. Eða eins og Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur, höfundur Stóru hjátrúarbókarinnar og þeirra fleiri, orðar það á einum stað: „Það er alveg sama með hvaða tölu hún er margfölduð, þversumma útkomunnar, eða þversumman af þversummunni, verður alltaf níu. Tökum nokkur dæmi: 9 x 7 = 63 (6 + 3 = 9), 9 x 951 = 5319 (5 + 3 + 1 + 9 = 18 og 1 + 8 = 9 ), 9 x 10832 = 97488 (þversumman er 36 og þversumman af 36 er 9). Talan níu er sú eina sem býr yfir þessum eiginleika.”

Og meðgöngutími kvenna er níu mánuðir. Að fátt eitt sé nefnt.

Þrettán

Talan þrettán er erfiðari viðfangs. Eyja Margrét Brynjarsdóttir ritar eftirfarandi um hana á Vísindavefnum: „Hræðsla við töluna 13 er kölluð triskaidekafobia. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram um uppruna þessarar fælni og hjátrúin sem tengist henni birtist í ýmsum myndum. Til að mynda hafa mörg hótel enga hæð sem kölluð er 13. hæðin, happdrætti forðast að gefa út miða númer 13, sumum finnst borðhald með 13 manneskjum óhugsandi og fjöldamorðingjar sem hafa 13 stafi í nafninu sínu eru tíndir til hjátrúnni til staðfestingar. Þegar þrettánda dag mánaðarins ber upp á föstudag á dagurinn að vera slíkur óheilladagur að sumt fólk forðast jafnvel að mæta til vinnu.

Sú skýring sem heyrist líklega oftast á neikvæðri ímynd tölunnar 13 er að við síðustu kvöldmáltíð Krists hafi verið samtals þrettán menn. Óorðið sem föstudagurinn þrettándi hefur á sér má svo meðal annars rekja til þess að krossfesting Krists á að hafa farið fram á föstudegi.

Stundum eru þó nefndar aðrar skýringar á triskaidekafobiu sem ekki verða raktar til kristni. Meðal annars er sagt að Hebrear til forna hafi litið á 13 sem óheillatölu vegna þess að þrettándi stafurinn í hebreska stafrófinu, M, er fyrsti stafurinn í orðinu mavet sem merkir „dauði”. Í Babylóníu, Kína og Róm til forna var litið á 12 sem heillatölu og 13 var þá óhappatala vegna þess að hún kemur næst á eftir 12. Einnig er sagt að bæði hindúar og víkingar hafi trúað því að það boðaði ógæfu ef þrettán manns söfnuðust saman. Þessar skýringar seljum við ekki dýrari en við keyptum þær. Eflaust er svo hefðin ein í mörgum tilfellum orsök fælni gagnvart þessari skemmtilegu prímtölu.

Á hinn bóginn er sagt að sumstaðar sé 13 talin heillatala. Þar eru til dæmis nefndir Forn-Egyptar, en hjá þeim var þrettánda skeið lífshlaupsins dauðinn, eða lífið eftir dauðann, sem hafði jákvæða merkingu.”

Þannig er nú hefðbundna svarið við því, hvers vegna sjö, níu og þrettán hafi orðið fyrir valinu í áðurnefndri töfraþulu.

En því verður ekki neitað að síðasta talan hefur alltaf verið dálítill hausverkur og erfitt að gúttera hana í þessu sambandi. En ef grannt er skoðað má e.t.v. finna lausn á þeim vanda.

Alltaf á gægjum

Eins og kom fram hér í upphafi er siðurinn að banka í eða undir borð eða í tré algengur á meðal kristinna og á sér e.t.v. uppruna í þeim hugmyndaheimi. Krossinn á Golgata hefur verið nefndur í þessu sambandi. Og sé tekið með í reikninginn að elsta heimild um 7-9-13 er tengd prestfrú, liggur beinast við að horfa í þá átt um tilurðina, ef litið er framhjá því sem Ebba Hjorth hefur lagt til málanna.

Í Fyrra Pétursbréfi, 5. kafla og 8. versi segir: „Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.” Þessi orð bergmála í gegnum aldirnar og verða sýnileg í hinum margvíslegustu formum. Sá ljóti var allsstaðar á sveimi, alltaf á gægjum, í von um að ná einhverju til sín. Það minni kemur fyrir í Hringadróttinssögu J. R. R. Tolkiens, eða hver man ekki eftir hinu logandi auga Sárons?

Við þetta bætist, að nafnið hafði aðra og dýpri merkingu áður fyrr en nú er. Að vita það gat breytt stöðunni, meira að segja afvopnað drauga og púka og annað hyski, gert það magnvana (sbr. framannefnt í danskri alþýðutrú). Og svo öfugt. Spurning prestanna, „Hvað á barnið að heita?,” í þann mund sem það er ausið helgu vatni, á einmitt rætur í þessu. Ekki mátti láta neitt uppi fyrirfram, þá gæti skrattakollurinn birst með það sama. Fólk var því sífellt á varðbergi. Nú eru aðrir tímar og foreldrum gert að ákveða þessa hluti áður en hálft ár er liðið og tilkynna Þjóðskrá eða sæta dagsektum ella, eins og segir í 25. grein Laga um mannanöfn, sem tóku gildi 1. janúar 1997.

Vera má sumsé, að þessi talnaruna hafi einfaldlega verið tilkomin vegna þess að sjö er tala Biblíunnar per se, níu þar afar máttug líka og þrettán síðan lærisveinarnir tólf og meistarinn og því afar hentug til að rugla þann svarta og beina athygli hans frá hinu sagða um leið og þríbankað var. Og er.

Hinn kunni danski þjóðfræðingur Iørn Piø sá í orðum nuddkonunnar Dahl eitthvað nálægt því sem kallað er wellerismi. Þar er á ferðinni nokkurs konar orðaleikur, ævagamalt stílbragð, a.m.k. frá því um 2.500 f. Kr., og þekkt víða um jörð, viðurkenndar klisjur sem ganga ekki upp ef rýnt er í þær. Dæmi: „„Það gefur augaleið,” sagði blindi maðurinn.”

En hitt gæti allt eins verið, ekkert svo langt frá þessu, að um annars konar djók sé að ræða, staðbundinn húmor, ekki ósvipað og kann að liggja á bak við hina nú afar þekktu bandarísku skammstöfun O.K., þ.e.a.s. „oll korrect” í staðinn fyrir „all correct”. Hennar er fyrst getið á prenti árið 1839 í dagblaði einu í Boston í Massachusettsríki. Axel Olrik bætir nefnilega við færslu sína áðurnefnda frá 1913: „Udtrykket er meddeleren velkendt, uden at hun kan sige, hvor hun har det fra.” Grínið hefur þá verið á kostnað prestfrúarinnar, sem – að einhverjum hefur fundist, stöðu hennar vegna – átti ekkert með að vera að föndra við einhver hindurvitni, því sumir fræðimenn hafa jú bent á eikardýrkun Kelta eða þvíumlíkt í eina tíð í sambandi við bankið eða snertinguna eða jafnvel fjötrun ákveðinna meinbæginna andavera í hin ýmsustu tré með slíkum gjörningi.

Eða var kannski rangt eftir maddömunni haft? Sagði hún 6, 9, 13 – sem er Faðirvorið í Mattheusarguðspjalli, þ.e.a.s. í 6. kafla, versum 9-13? Annað eins hefur nú gerst. Þá væri minningin um krossinn og Hin Drottinlega bæn sameinað á bak við hina frómu ósk. Sem er ekki lítið.

Það skyldi þó aldrei vera?

Eða að háðið liggi einhvern veginn í misræminu?

Hmmmm.

 

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is