55 ára afmælishátíðin nálgast


55 ára afmælishátíð Siglfirðingafélagsins verður haldin í Gullhömrum í Grafarholti á laugardaginn kemur, 1. október. Húsið verður opnað kl. 19.00 og borðhald hefst síðan stundvíslega kl. 20.00. Gera má ráð fyrir hinu skemmtilegasta kvöldi þar sem kemur saman glæsilegur matseðill, stórskemmtileg dagskrá og það sem mestu máli skipir FRÁBÆR félagsskapur. Um er að ræða einn af stærri viðburðum á vegum félagsins og er engu til sparað og unnið hefur verið hörðum höndum að því að gera allt sem gæsilegast.

Veislustjóri kvöldsins er hinn hressi Rúnar Freyr, en hann mun halda uppi stuðinu á milli atriða sem eru ekki af verri endanum. Eyþór Ingi kemur og syngur hið heimfræga lag „Siglufjörður“ auk þess að taka nokkur vel valin lög með Gospelkór Lindakirkju. Þessir aðilar eru einmitt hluti af hinni stórgóðu sýningu Jesus Christ Superstar, sem sýnd hefur verið í Hörpu við glymjandi undirtektir.

Hið sígilda happdrætti er á sínum stað, en vinningarnir eru ekki af verri endanum, gisting á Sigló Hótel, Torgið býður í mat, Alla Sigga gefur einn af sínum fallegu gripum, gjafabréf á Argentínu steikhús og margir fleiri veglegir vinningar.

Til að klára kvöldið var óskað eftir liðsstyrk frá Siglufirði, en hljómsveitin No More Drama mun leika fyrir dansi þegar borðhaldi er lokið.

Eins og sjá má verður eitthvað fyrir alla. Miðaverð er aðeins 9.900 kr. og eru miðar einungis seldir í forsölu. Miðasölu líkur núna á fimmtudag, 29. september næstkomandi. Hægt verður að kaupa miða á ballið á kvöldinu sjálfu, en miðaverð á ballið er 3.000 kr.

Hægt er að kaupa miða með því að senda póst á asdisjona@gmail.com (Ásdís Jóna Sigurjónsdóttir) eða jona@rafsveinn.is (Sigurjóna Bára Hauksdóttir), eða hringja í síma 822-2027 eða í síma 699-5959 eftir kl. 16.00. Einnig er hægt að nálgast miða hjá Gunnari Trausta í Merkismönnum, Ármúla 36.

Siglfirðingar búsettir á Siglufirði geta haft samband við hana Steinu Matt, en hún er miðasölustjóri heima í firðinum fagra.

Þetta er tilvalinn viðburðir fyrir áraganga, saumaklúbbinn eða vinahópinn, að taka sig saman og skemmta sér konunglega eins og Siglfirðingum einum er lagið.

Mynd (plakat) og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is