5. bekkur hreppti gullskóinn


Eins og greint var frá hér 9. september tók Grunnskóli Fjallabyggðar þátt í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Umferðarstofa, Ríkislögreglustjórinn, Menntamálaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Lýðheilsustöð og Heimili og skóli stóðu að hvað Ísland varðaði. Var átakinu ætlað að hvetja nemendur, foreldra og starfsmenn skóla til að ganga, hjóla, fara á línuskautum eða á annan virkan hátt til og frá skóla. Átti hver bekkur að skrá hjá sér hverjir komu til skóla á áðurnefndan hátt og safna stigum í 10 kennsludaga.

Er skemmst frá því að segja að þátttaka var mjög góð, nemendur tóku þetta alvarlega og þótti kennurum sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með börnum og foreldrum koma þannig samferða, sem gaf hinum síðarnefndu líka gott tækifæri til að kenna börnum sínum umferðarreglur, sem ekki veitir af í hraða nútímans.

Að þessu sinni bar 5. bekkur sigur úr býtum, með 98% göngu- eða hjólamætingu, og hreppti þannig gullskóinn eftirsótta, en aðrir bekkir voru með um 90% og þar yfir, sem verður að teljast hreint frábær árangur. 

Í öllum bekkjum var útbúið svokallað ?göngutré?, þar sem hver nemandi fékk daglega úthlutað grænu laufblaði fyrir að koma gangandi eða hjólandi í skólann, brúnu ef hann kom á bíl og gulu kæmi hann gangandi hálfa leiðina – og þannig reynt að koma til móts við þá sem áttu um lengstan veg að fara.

Og allir bekkir fengu að sjálfsögðu viðurkenningarskjal og hvatningu til að halda áfram á sömu braut.

5. bekkur með sigurlaunin, gullskóinn.

Allir bekkir fengu viðurkenningarskjal.

Svona leit göngutré 5. bekkjar út þegar upp var staðið.Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is