36 heimilislæknar á námskeiði á Siglufirði


Sérfræðingar í heimilislækningum sitja nú námskeið á Siglufirði til að
öðlast viðurkenningu sem leiðbeinendur fyrir unglækna í sérnámi. Alls
sækja það 36 heimilislæknar.

Staðsetning er valin til að leggja aukna
áherslu á hlut landsbyggðar í sérnámi, að sögn Valþórs okkar
Stefánssonar, framkvæmdastjóra lækninga og reksturs á HSF, sem jafnframt er formaður kennslunefndar Félags íslenskra
heimilislækna (FÍH), en sú nefnd er ábyrg fyrir stöðlum og gæðaeftirliti
á slíku námi á Íslandi.

Auk þess að fá kunnáttu sem leiðbeinendur fyrir sérnámslækna fá þeir að kynnast nýsköpun á Siglufirði eins og sjá má á uppbyggingu Rauðku í kringum ferðamannaiðnað og lyfja- og líftæknifyrirtækið Genis sem er í eigu sömu aðila. Auk þess munu þeir skoða Heilbrigðisstofnunina í Fjallabyggð, þær samgöngubætur sem orðið hafa vegna Héðinsfjarðarganga og fá útsýni um bæinn og fjörðinn og innsýn í menningarsögu staðarins.

Mikill skortur hefur verið á heimilislæknum á Íslandi og hætta er á því að sá skortur fari vaxandi vegna hækkandi aldurs á stórum hluta þeirra og á næsta áratug eða svo munu margir þeirra komast á aldur og fara af vinnumarkaði, að sögn Valþórs. ?Einnig hefur orðið ákveðið brottfall úr stéttinni og úr röðum unglækna til útlanda eftir hrun. Ein helsta áskoruninn til lausna er að auka möguleika á sérnámsstöðum í heimilislækningum á Íslandi og um leið áhuga unglækna á sérnáminu. Þetta virðist vera að takast en til þess þarf að tryggja gæði sérnámsins. Þá er m.a. átt við að gæði heilsugæslustöðva út um land séu næg til að sinna þörfum sérnámslækna til að öðlast viðurkennda færni í faginu. Ein forsenda fyrir gæði sérnámsins er að til staðar sé sérmenntaður heimilislæknir, sem tekur að sér að leiðbeina sérnámslæknum og hafi til þess viðurkennda kunnáttu og færni,? segir Valþór.

Hópurinn framan við Kaffi Rauðku skömmu áður en námskeiðið hófst á fimmtudag, 15. maí. Því lýkur í dag.

Stærri mynd hér.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is