237.188 ökutæki fóru um göngin


Að því er fram kemur í upplýsingum frá Friðleifi I. Brynjarssyni hjá umferðardeild Vegagerðarinnar jókst umferð um Héðinsfjarðargöng  um 6,7% á nýliðnu ári borið saman við árið á undan. Meðalumferð á dag, árið 2015, reyndist vera 650 ökutæki á sólarhring en var 609 ökutæki á sólarhring árið 2014. Samtals fóru um 237.188 ökutæki um göngin, í báðar áttir, yfir allt árið.

Umferðarmesti dagur ársins var laugardagurinn 8. ágúst en þá fóru um 2008 ökutæki um göngin, sem er næst mesti fjöldi bíla sem farið hefur um göngin á einum degi, en gamla metið frá 2011 er 2099 ökutæki.
Dagar með yfir 1000 ökutæki voru 34 sem er nýtt met.

Umferð hefur nú aukist um 18,6% frá árinu 2011, sem er fyrsta heila árið frá því að göngin opnuðu. Sumardagsumferð hefur aukist um 14,5% en vetrardagsumferðin um 21,1%.

Umferð jókst alla vikudaga, mest á miðvikudögum eða 12,6% en minnst á laugardögum eða 4,7%. Mest er ekið um göngin á föstudögum, að jafnaði, en minnst á sunnudögum.

Myndefni: Vegagerðin (Friðleifur I. Brynjarsson).
Texti: Vegagerðin (Friðleifur I. Brynjarsson) / Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]