188.533.962 krónur

Gatnaframkvæmdir í Siglufirði. Túngata.

Eftir rigningarnar miklu í fyrri hluta ágústmánaðar og umræðu sem varð í kjölfarið meðal bæjarbúa hér, sendi ritstjóri eftirfarandi spurningar til Fjallabyggðar með því fororði að svörunum yrðu gerð skil á Siglfirðingi:

1) Hver er kostnaður bæjarfélagsins við úrbætur á fráveitukerfi Siglufjarðar frá árinu 2000 og til þessa dags og hvenær er ráðgert að framkvæmdum ljúki? Samkvæmt fundargerð dagsettri 17.11. 2017 átti þeim að ljúka í fyrra.

2) Eru einhver áform uppi um að kaupa öflugari dælubúnað til að koma í veg fyrir það sem gerðist á dögunum? Ef ekki, hvernig hyggist þið leysa málið í framtíðinni?

Ástæðan fyrir því að spurt er 19 ár aftur í tímann er sú, að unnið hefur verið að úrbótum á fráveitukerfi bæjarins samkvæmt heildaráætlun sem gerð var árið 2000, til að uppfylla lög um fráveitur með tilliti til hreinsunar á skolpi, lengd útrása o.fl. Jafnframt hefur tilgangur aðgerðanna verið sá að draga úr og þó helst reyna að koma í veg fyrir flóðavandamál sem skapast við háa sjávarstöðu.

Svör við fyrrnefndum spurningum bárust í gær. Þar segir Ármann Viðar Sigurðsson, deildarstjóri tæknideildar:

1) Frá árinu 2000 hefur verið framkvæmt fyrir 188.533.962 kr. Varðandi lok á framkvæmdum þá er reiknað með því að  þeim ljúki á næsta ári. Ég tek samt fram að framkvæmdum lýkur í raun ekki þá, þar sem endurnýjun á lagnakerfi mun halda áfram, þ.e. lagnir í götum. Framkvæmdaáætlunin sem gerð var miðaði að smíði hreinsibrunna, fækkun útrása og lengingu útrása; þeirri vinnu er áætlað að ljúka á næsta ári.

2) Varðandi kaup á öflugri dælu eða annari lausn, þá er það í skoðun með hönnuði og verður tekin ákvörðun við gerð fjárhagsáætlun 2020.

Ritstjóri þakkar Ármanni Viðari svörin.

Myndin sýnir framkvæmdir í Túngötu 14. júní 2017.

Mynd (úr safni) og texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]