17,6 stig í Siglufirði í gærkvöldi


Ekki varð ofsaveðursins að neinu ráði vart í Siglufirði í gærkvöldi. Mesta hviðan sló þó í 45 m/sek, kl. 03.00 í nótt. Öllu hvassara var í Skagafirði. Mesta hviða á Stafá fór í 62 m/sek um miðnættið, sem var það mesta á landinu.

Hitinn fór í 17,6 stig í Siglufirði í gærkvöldi og í 10 stig eða meira á 48 stöðvum í byggð (af 107), að því er fram kemur á bloggsíðu Trausta Jónssonar veðurfræðings. „Siglufjarðarhitinn er landsdægurmet og reyndar hæsti hiti sem nokkru sinni hefur mælst á landinu fyrstu 26 daga marsmánaðar. Þetta er annað landsdægurmetið í mánuðinum – sem þó hefur ekki verið neitt sérlega hlýr, er nú 0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára í Reykjavík, en -0,4 undir því á Akureyri,“ segir hann ennfremur.

Mesti hiti á Siglufirði í dag var „bara“ 16,3 stig.

Myndin hér fyrir ofan var tekin um sjöleytið í gærkvöldi.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is