Mikið um afbókanir

Ljóst er að Covid 19 hefur sett ferðaþjónustu heimsins í uppnám og sér ekki fyrir endann á því, en nýjustu fréttir herma þó, að e.t.v. muni eitthvað fara að rofa til hér á landi í ágúst.

Siglfirðingur.is náði tali af Anitu Elefsen forstöðumanni Síldarminjasafnsins og spurðist fyrir um komur skemmtiferðaskipa í sumar og annað sem safninu við kemur.

„Staðan er sú, að útlitið fyrir sumarið er óralangt frá því sem við gerðum ráð fyrir,“ sagði Anita. „Skipakomum hefur fækkað mjög mikið, það voru bókaðar 26 komur til Siglufjarðar en 17 hafa verið afbókaðar og 9 standa eftir.“

Eins séu skipafélögin sífellt að endurskoða það, hvenær þau muni sigla á ný og framlengja þann tíma sem skipin liggi bundin við bryggju, og því alls óvíst hvort þessar 9 komur sem enn séu bókaðar muni skila sér.

„Þetta hefur vissulega áhrif á starfsemi safnsins og annarra ferðaþjónustuaðila í Fjallabyggð, en þar að auki hafa ríflega 100 skipulagðir rútuhópar afbókað komu sína og þá þjónustu sem bókuð hafði verið og augljóst að sumarið verður ólíkt því sem við höfum átt að venjast undanfarin ár.“

Mynd (úr safni) og texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]