17. júní


Þjóðhátíðardagurinn er fagur í Siglufirði þetta árið, algjört logn úti og sólskin. Myndin hér fyrir ofan var tekin á ellefta tímanum.

Jónas Ragnarsson  birti á Facebook-síðu sinni í morgun eftirfarandi fróðleik:

Í bókinni Dagar Íslands, sem kom út 1994 og 2002, má finna atburði sem gerðust á þessum degi. Hér eru sjö dæmi.

1886: Afmælis Jóns Sigurðssonar var minnst í fyrsta sinn, í kaffihúsinu í Lækjargötu 4 í Reykjavík, rúmum sex árum eftir að hann lést.

1911: Háskóli Íslands var settur í fyrsta sinn. Jafnframt voru Prestaskólinn, Læknaskólinn og Lagaskólinn lagðir niður. Fyrsta árið voru 45 nemendur í Háskólanum, þar af ein kona.

1940: Háskólabyggingin við Suðurgötu í Reykjavík var vígð, en framkvæmdir höfðu staðið í fjögur ár.

1944: Stofnun íslenska lýðveldisins var formlega lýst yfir á þingfundi á Lögbergi á Þingvöllum. Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti Íslands. Hátíðargestir voru um 25 þúsund (landsmenn voru þá um 127 þúsund). Þrátt fyrir úrhellisrigningu fram eftir degi þótti hátíðin takast vel.

1954: Ísland er land þitt, ljóð Margrétar Jónsdóttur, birtist í fyrsta sinn, í Morgunblaðinu, á tíu ára afmæli lýðveldisins. Ljóðið varð vinsælt þegar lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar við það kom út á hljómplötu haustið 1982.

1979: Lagið „Það er kominn 17. júní“ var í fyrsta sinn flutt á réttum degi, en það kom út haustið áður á plötunni Dömufrí með Dúmbó og Steina. Rétt nafn lagsins er „Hæ, hó, jibbíæ og jibbíó“.

2000: Þjóðhátíðarskjálftinn. Jarðskjálfti sem mældist 6,5 stig og átti upptök í Holtum í Rangárvallasýslu reið yfir Suðurland kl. 15:41 og fannst víða. Enginn slasaðist en hús skemmdust, m.a. á Hellu, hveravirkni breyttist, tugir tonna af gleri brotnuðu, minnkar sluppu úr búrum og „útsæðið hoppaði upp úr moldinni,“ eins og sagði í DV.

Til hamingju með daginn, gott fólk.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson │ [email protected] 

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]