Enn ein lægðin


Enn ein lægðin skekur landið. Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði og Strandir og Norðurland vestra frá kl. 12.00 og áfram og út allan morgundaginn en gul annars staðar.

Veðurspáin fyrir Strandir og Norðurland vestra er þessi: „Norðaustan, og síðar norðan, 18-25, með vindhviðum yfir 40 m/s í vindstrengjum við fjöll. Snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður. Hætta á foktjoni. Einnig er vert að nefna að það er nærri stórstreymt og vegna lágs loftþrýstings og áhlaðanda má búast við óvenju hárri sjávarstöðu á flóði. Einnig getur verið há öldhæð sumsstaðar við landið.“ Og fyrir Norðurland eystra: „Norðaustan, og síðar norðan, 15-20 m/s með snjókomu og skafrenningi með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður. Einnig er vert að nefna að það er nærri stórstreymt og vegna lágs loftþrýstings og áhlaðanda má búast við óvenju hárri sjávarstöðu á flóði. Einnig getur verið há öldhæð sumsstaðar við landið.“

Siglufjarðarvegur utan Fljóta er lokaður vegna snjóflóðahættu. Kl. 07.00 í morgun var hættustigi aflýst á Múlavegi en óvissustig sett á; því var svo aflýst líka kl. 08.30, en snjóflóðahætta er þó enn sögð möguleg.

Enginn skólaakstur verður í Fjallabyggð í dag og því kennt eftir óveðursskipulagi.

Kortið hér fyrir ofan miðar við stöðuna á komandi miðnætti.

Mynd: Windy.com.
Texti: Sigurður Ægisson │ [email protected] / Veðurstofa Íslands.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]