150 ára gamalt uppsagnarbréf


Jón Jónsson snikkari var staddur á Siglufirði á þessum degi fyrir nákvæmlega 150 árum, 14. febrúar 1867, þegar hann sá ástæðu til að skrifa bréf til kærustu sinnar, Signýjar Pétursdóttur í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu, og láta hana vita að hann væri „hreint frá því horfinn að öllu leyti“ að taka saman við hana. Þau höfðu eignast dóttur árið áður, Pálínu Helgu Jónsdóttur, en hún dó árið sem uppsagnarbréfið var skrifað. Það vekur athygli að Jón sendi bréfið ekki beint til Signýjar heldur bað hann ritstjóra vikublaðsins Norðanfara á Akureyri að birta það „höfundinum til virðingar“.

Signý var fædd 1830 og dó 1908, 78 ára að aldri. Pálína var eina barn hennar.

Jón var fæddur 1831 og dó 1887, 56 ára. Áður en Jón kynntist Signýju átti hann tvö börn með Guðnýju Jónasdóttur úr Eyjafjarðarsýslu en missti hana í ársbyrjun 1865. Næstu ár mun hann hafa verið í Höfn á Siglufirði, hugsanlega við skipasmíðar. Svo kynntist hann Hólmfríði Stefánsdóttur og eignaðist með henni sjö börn. Þau bjuggu á Helgustöðum í Fljótum í Skagafirði. Meðal barnanna voru tvíburasysturnar Ásdís Jónsdóttir og Sigríður Jónsdóttir. Önnur varð 95 ára, hin 98 ára og hafa fáir tvíburar náð hærri aldri.

Mynd: Norðanfari / Tímarit.is. 
Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is