150 ár frá fæðingu sr. Bjarna Þorsteinssonar


Í dag eru 150 ár liðin frá fæðingu sr. Bjarna Þorsteinssonar, tónskálds, þjóðlagasafnara og prests í Siglufirði.

Hann fæddist á Mel í Hraunhreppi á Mýrum 14. október 1861, var sonur Þorsteins Helgasonar bónda þar og konu hans Guðnýjar Bjarnadóttur bónda og skipasmiðs Einarssonar í Straumfirði. Hann varð stúdent í Reykjavík 1883 og lauk guðfræðiprófi frá Prestaskólanum 1888. Á námsárunum var hann bæjarfógetaskrifari í Reykjavík, stundakennari við latínuskólann og sýsluskrifari í Vatnsdal. Hann var settur prestur í Hvanneyrarprestakalli í Siglufirði 28. september 1888 og veitt það kall 18. mars 1889 og átti eftir að þjóna íbúum staðarins til 1. júní 1935, eða í 47 ár. Hann kvæntist Sigríði Lárusdóttur Blöndals sýslumanns á Kornsá í Vatnsdal 26. ágúst 1892. Þeim varð fimm barna auðið.

Þótt Bjarni væri afburða prestur, var það sem tónskáld að hann komst fyrst í snertingu við þjóðina. Brautryðjendaverkið var ?Íslenzkur hátíðasöngur – víxlsöngur milli prests og safnaðar á stórhátíðum kirkjunnar,‟ sem prentaður var í Kaupmannahöfn 1899 og átti eftir að sigra hjörtu landsmanna og er enn notaður um allt land á mestu hátíðum íslensku þjóðkirkjunnar – jólum, páskum og hvítasunnu.

Sr. Bjarni hóf einnig á síðustu tveimur áratugum 19. aldar að safna og bjarga þannig frá gleymsku íslenskum þjóðlögum og fékk þau prentuð í Kaupmannahöfn á árunum 1906-1909. Baldur Andrésson (1897-1972) segir um þetta í óútgefnu handriti: ?Áður en rit Bjarna um þjóðlögin kom út, var sú skoðun almenn, að ekki væri um auðugan garð að gresja hjá okkur Íslendingum, hvað þjóðlög snertir. Aðeins 16 íslenzk þjóðlög höfðu verið birt á prenti, þegar hann fór að safna þjóðlögum á seinni hluta 19. aldarinnar … Og það var reyndar skoðun margra, að íslenzk þjóðlög væru svo léleg og ljót, að þau væru ekki þess virði að þeim væri safnað – þau væru þjóðinni til minnkunar. Og svo var það álit margra, að þau væru ekki einu sinni íslenzk að uppruna, heldur afskræming á erlendum lögum. Þessir menn báru ekki það traust til þjóðarinnar, að hún gæti lagt neitt til frá eigin brjósti í þessum efnum.‟

En annað átti eftir að koma á daginn, þegar stórvirki hans, upp á um 1.000 blaðsíður, kom fyrir almenningssjónir. Mun það eitt nægja til að halda nafni sr. Bjarna á lofti um ókomna framtíð í íslenskri tónlistar- og þjóðarsögu. Hann samdi líka um ævina fjölda alkunnra sönglaga, eins og t.a.m. ?Ég vil elska mitt land‟, ?Sólsetursljóð‟ og ?Sveitin mín‟, og eitthvað af söngtextum líka, þar sem kunnastur er vafalaust ?Það liggur svo makalaust ljómandi á mér‟.

Upp úr aldamótunum 1900 fór hann að gefa sig meira að opinberum málefnum og framkvæmdum í kauptúninu nyrðra, og átti fyrir það eftir að verða nefndur ?faðir Siglufjarðar‟. Hann mótaði byggðina og gerði t.d. skipulagsuppdrátt af bæjarstæðinu, löngu áður en slíkt tíðkaðist á Íslandi.

Og flest er hér þó óupptalið, sem hann kom að.

Árið 1930 var hann sæmdur prófessorsnafnbót fyrir afrek sín og riddarakrossi íslensku fálkaorðunna. Og heiðursborgari Siglufjarðarkaupstaðar var hann kjörinn 1936. Hann andaðist í Reykjavík 2. ágúst 1938.

Mikil hátíð verður í dag, á morgun og á sunnudag á Siglufirði til að minnast 150 ára afmælisins, í samvinnu helstu stofnana byggðarlagsins – Fjallabyggðar, Þjóðlagaseturs, Ljóðaseturs, Tónskóla Fjallabyggðar,
Menntaskólans á Tröllskaga, Bókasafns Fjallabyggðar, Grunnskóla Fjallabyggðar, Leikskóla
Fjallabyggðar, Siglufjarðarkirkju og Síldarminjasafnsins – og með virkri þátttöku fjölda bæjarbúa, yngri sem eldri. Aðrir stuðningsaðilar eru Aðalbakarinn, Arnold Bjarnason, Berg hf, Bás hf. Geirabakarí, Rammi hf, Rauðka, Sparisjóður Siglufjarðar og  Tunnan ehf. Hátíðin hefst kl. 10.00 með því að 40 börn syngja lagið Kirkjuhvol, eftir sr. Bjarna, í tröppum Siglufjarðarkirkju, og í dag kl. 17.00 verður vígður klukkuturn á lóð prestsetursins Hvanneyrar þar sem aðalkirkjurnar stóðu ein af annarri frá árinu 1614 og allt til 1890. Og í kvöld kl. 20.00 verða í Þjóðlagasetri, sem kennt er við sr. Bjarna, stofnuð tvö félög, annars vegar kvæðamannafélag og hins vegar þjóðdansafélag. Á morgun, laugardag, verður málþing í Siglufjarðarkirkju, og hefst það kl. 14.00, og eftir það er kaffi og afmælisterta í Rauðku í boði bæjarstjórnar og fyrirtækja, og dagskrá í kringum það, m.a. myndlista- og ljósmyndasýning. Um kvöldið, kl. 22.00, verða tónleikar þar með Hvanndalsbræðrum.

Hátíðinni lýkur á sunnudag með hátíðarguðsþjónustu í Siglufjarðarkirkju, í umsjón presta Fjallabyggðar, þar sem flutt verður hátíðartón sr. Bjarna, ásamt nokkrum laga hans. Þrír kirkjukórar koma að þeirri stund, Kirkjukór Siglufjarðar, Kirkjukór Ólafsfjarðar og Kór Laugarlandsprestakalls í Eyjafirði, ásamt Karlakór Siglufjarðar.

Syðra, nánar tiltekið í Grafarvogskirkju, verður sr. Bjarna einnig minnst í kvöld með tónleikum sem hefjast kl. 20.00. Sjá hér.

Annars er dagskráin í Siglufirði nákvæmlega svona:

Föstudagur 14. október

   

 •     Kirkjutröppur kl. 10.00
  •     Fjörtíu skólabörn syngja Kirkjuhvol sr. Bjarna
 •     Hvanneyrarkirkjugarður kl. 17.00
  •     Vígður nýr minnisvarði á Kirkjuhól ? sr. Sigurður Ægisson
 •     Þjóðlagasetur kl. 20.00
  •     Stofnfundir kvæðamannafélags og þjóðdansafélags í Fjallabyggð           

Laugardagur 15. október

 •     Siglufjarðarkirkja kl. 14.00
  •     Málþing um sr. Bjarna (ávarp og fundarstjórn ? sr. Sigurður Ægisson; ávarp bæjarstjóra ? Sigurður Valur  Ásbjörnsson,  söngur úr þjóðlagasafni sr. Bjarna ? nemendur í Grunnskóla og Tónskóla Fjallabyggðar; líf og störf sr. Bjarna – Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður; fjöldasöngur ? lag sr. Bjarna; lesið úr nýrri ævisögu sr. Bjarna ? Viðar Hreinsson; fjöldasöngur ? lag sr. Bjarna; hagyrðingurinn sr. Bjarni ? atriði frá Ljóðasetri, Þórarinn Hannesson; hver er sr. Bjarni fyrir ungu fólki? ? Anita Elefsen; fjöldasöngur ? lag sr. Bjarna)                  
 •     Rauðka kl. 15.00

  •      Kaffi og afmælisterta í boði bæjarstjórnar og fyrirtækja
  •      Kvæðasöngur – stjórnandi Gunnsteinn Ólafsson
  •      Úr myndaalbúmi sr. Bjarna – Örlygur Kristfinnsson

 •     Bláa húsið kl. 15.00?18.00
  •      Sr. Bjarni í römmum nokkurra listamanna
  •      Í fótspor sr. Bjarna – ljósmyndasýning Menntaskólans á Tröllaskaga
 •     Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar kl. 16.00?18.00
  •     Opið setur og ókeypis aðgangur
 •     Rauðka kl. 22.00
  •      Tónleikar Hvanndalsbræðra

Sunnudagur 16. október

 •     Siglufjarðarkirkja kl.14.00
  •     Hátíðarguðsþjónusta í umsjón presta Fjallabyggðar. Tónlist sr. Bjarna flutt af kirkjukórum Fjallabyggðar, Kór Laugalandsprestakalls í Eyjafirði og Karlakór Siglufjarðar

Sr. Bjarni Þorsteinsson.

Myndin er tekin 1931.

Mynd: Aðsend.


Texti:
Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is