Hinn furðulegasti gjörningur


Þau sem átt hafa leið upp Saurbæjarásinn í morgun hafa eflaust rekið upp stór augu þegar við blasti á Héðinsfjarðarskiltinu allt annað nafn en verið hefur til þessa. Nú hefur þar verið letrað: Stúlknagöng.

Fréttamaður Siglfirðings.is náði tali af formanni bæjarráðs Fjallabyggðar í kjölfarið, Steinunni Maríu Sveinsdóttur, til að spyrja nánar út í þetta. Sagði hún að þetta hefði komið til af því að Jafnréttisstofa á Akureyri hefði lengi gert athugasemd við að á sama tíma og göngin sem liggja norðvestur úr Siglufirði skuli vera kölluð Strákagöng ætti að vera skýlaus krafa að hin nýju bæru nafn hins kynsins. Nýverið hefði svo Kvenréttindasamband Íslands lagst á árar með Jafnréttisstofu og Vegagerðin á endanum látið undan þrýstingnum, ekki talið sér stætt á öðru miðað við framannefnd rök.

„Þetta var framkvæmt seint í gærkvöldi. Við vorum látin vita fyrr um daginn hvað til stæði. Ég er að sjálfsögðu fylgjandi jafnrétti kynjanna, eins og vonandi sérhver Íslendingur, en verð að segja að ég undrast mjög þessi vinnubrögð, þótt ég á sama tíma geri mér grein fyrir því að Vegagerðin er í fullum rétti þarna, enda er þessi vegarkafli og göngin sjálf alfarið á hennar ábyrgð en ekki okkar,“ sagði Steinunn María. „Þó hefði verið heppilegra, finnst mér, að taka umræðuna fyrst í sveitarfélaginu í stað þess að ráðast í að skipta um nafn á göngunum í skjóli nætur og því hlýt ég að fordæma svona vinnubrögð.“

Þess megi geta, að vestari göngin, sem heiti eftir fjallinu Strákum, eins og flestir viti, eigi í raun ekki að bera það nafn, því sennilega hafi það upphaflega kallast Strókar, vegna strýtumyndana á kolli þess og niður með hlíðum. Nafnið hafi með öðrum orðum afbakast á einhverjum tímapunkti. En hvort það komi til með breyta einhverju í stöðunni sem upp er komin sé allsendis óvíst. Hitt gæti þó allt eins verið að skiltið yrði tekið niður jafnskjótt og því var komið fyrir, þegar Vegagerðin átti sig á þessum mistökum og það væri óskandi, sagði Steinunn María.

Ekki náðist í bæjarstjóra, Gunnar I. Birgisson, við vinnslu fréttarinnar en sagt er að hann sé allt annað en kátur. Aukafundur bæjarstjórnar er fyrirhugaður núna kl. 11.00 vegna þessa máls. Hann verður við umrætt skilti og er von á kröftugri yfirlýsingu. Fundurinn verður opinn almenningi.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is