1.944 bílar fóru um Héðinsfjarðargöng laugardaginn 30. júlí


Það kom ekki á óvart að nýtt met liti dagsins ljós í umferðartölum um Héðinsfjarðargöng um nýliðna helgi. Laugardaginn 30. júlí síðastliðinn fóru 1.974 bílar um göngin Siglufjarðarmegin en 1.913 Ólafsfjarðarmegin, sem gerir að meðaltali 1.944 bíla um bæði göng. Litlu minni umferð var um göngin á sunnudeginum 31. júlí eða 1.853 bílar að meðaltali. Umferð dettur aftur á móti mjög niður á mánudeginum, eða niður í 1.201 bíl.

Nýliðin þriggja daga helgi er þá með langhæsta meðaltal hingað til eða 1.729 bíla/sólarhring frá föstudegi til og með sunnudegi.

Meðalumferð það sem af er ári er nú 576 (bílar/sólarhring). Þetta meðaltal gæti þó átt eftir að dragast aðeins sama; það ræðst af því hvernig haustið verður.

Afar fróðlegt verður að fylgjast með umferðinni um næstu helgi þar eð sú helgi hefur jafnan reynst stærri, þar sem nokkrar útihátíðir fara fram á svæðinu þá. Nefna má Fiskidaginn mikla á Dalvík, Pæjumótið í Fjallabyggð og Króksmótið á Sauðárkróki. Þá kemur í ljós hvort umferðin hegðar sér með svipuðum hætti og undanfarin ár sem leitt gæti til þess að 2.000 bíla múrinn verði rofinn, en líklegt verður að telja að veðurfar spili stóra rullu í því.

Svona hefur umferðin þróast í júlí til 1. ágúst.

Þetta línurit sýnir þróun umferðar það sem af er ári og meðalumferðina.

Séð á milli gangamunnanna í Héðinsfirði 27. júlí 2011.

Ljósmynd: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

Tafla og línurit: Vegagerdin.is / Friðleifur Ingi Brynjarsson.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is