?Rosarosarosarosarosarosarosagaman?


Grunnskóli Fjallabyggðar var settur á dögunum. Hann er tvískiptur og kennt bæði á Siglufirði og í Ólafsfirði. Hér í bæ eru 1.-6. bekkur með aðstöðu við Norðurgötuna, í gamla barnaskólahúsinu, en 7.-10. bekkur við Hlíðarveg, í gagnfræðaskólahúsnæðinu.

Um kl. 10.00 í morgun leit fréttamaður í heimsókn til þeirra barna sem voru að hefja nám hér í fyrsta sinn, rabbaði aðeins við þau og tók nokkrar myndir.

Og fyrsta spurningin var auðvitað hvernig það væri að byrja í skóla.

?Gaman,? svaraði Tómas Orri með það sama. Borðfélagar hans, Marlís Jóna Þórunn og Margrét Brynja, voru honum sammála.

?Rosagaman,? sagði þá einhver og fleiri tóku undir.

?Rosarosarosarosarosarosarosagaman,? heyrðist þá úr öðru horni, og öll hin börnin samsinntu því jafnharðan.

?Eruð þið búin að læra eitthvað það sem af er?? var næsta spurning.

?Nauts,? segir einn.

 

?Við erum ekki einu sinni búin að læra stærðfræði meira að segja,? heyrist frá öðru borði og ekki laust við að örlítillar hneykslunar gæti í röddinni.

En þetta var nú ekki alveg rétt, því Mundína kennari var búin að fara í gegnum tvær gullvægar reglur þessa fyrstu tíma dagsins. Önnur var svona: Réttið upp hönd ef þið viljið fá orðið. Og hin: Bara einn má tala í einu.

En þær voru ekki alveg farnar að virka, skiljanlega.

?Hvað haldið þið að verði skemmtilegasta fagið?? var þriðja spurning gestsins.

?Ha?? svara börnin og reka upp stór augu.

?Fæið? Hvað er nú það eiginlega??

Fréttamaður skynjar að hér þarf að umorða, enda ekki von að 6 ára börn átti sig á þessu.

?Hvað haldið þið að verði skemmtilegast að læra??

?Stærðfræði,? hrópa flest. ?Náttúrufræði,? segja einhver. ?Að baka og elda uppi í efra húsi? og ?smíði? fær líka nokkur atkvæði.

Þeim finnst annars nýja heitið yfir smíði furðulegt orð. ?Tæknimennt?? Og hlægja bara.

Nemendurnir eru 14 talsins.

En eru þau búin að ákveða hvað þau ætla að verða þegar þau verða stór?

Nei, Anna Brynja, Dómhildur Ýr, Halldóra Helga, Jón Grétar og Margrét Brynja eru ekki með það á hreinu eins og er, en Marlís Jóna Þórunn ætlar að vera sjókona ?eins og pabbi?, Tómas Orri fótboltamaður, Mikael er hættur við að verða risaeðlufræðingur og vill frekar verða lögreglumaður, Kristin Dag langar að vinna í tölvunni og vera smiður, Andri Snær kveðst ætla að verða hafnaboltamaður, Aron Fannar það sama og Kristinn, Hafsteinn Úlfar sjómaður, Amalía dýralæknir og Ómar Geir uppfinningamaður, björgunarsveitarmaður og fiskimaður – en hann segist þó ekki vera búinn að ákveða alveg hvað hann ætli að finna upp.

En vissu þau að til þess að verða eitthvað af þessu sem þau voru að nefna þarf maður að vera duglegur að læra?

Jú, einhvern pata höfðu þau haft af því.

Og ekki sakaði að vera prúð og stillt, eða …?

Nei, þau vissu það líka.

Og með það kvaddi fréttamaður, harla ánægður með smáfólkið og öll framtíðarplönin og þakkaði fyrir sig, enda kominn allmikill spenningur í hópinn því næsti tími var nefnilega sund.

Klukkan er 08.10 og mál til komið að hefja skólagöngu.

Eftir löngu frímínútur var drekkutími og nestið því tekið upp.

Annað sjónarhorn á 1. bekkinn í Siglufirði.

Svo þurfti auðvitað að ræða málin.

Hér eru sex alveg bráðnauðsynlegar reglur komnar upp á vegg.

Aftari röð, talið frá vinstri: Ómar Geir, Aron Fannar, Kristinn Dagur, Andri Snær, Tómas Orri,

Jón Grétar, Mikael og Hafsteinn Úlfar. Fremri röð, talið frá vinstri: Marlís Jóna Þórunn,

Margrét Brynja, Amalía, Halldóra Helga, Anna Brynja og Dómhildur Ýr.

Og þetta eru svo viðbrögðin sem komu við spurningunni: ?Er gaman í skólanum??

Jeeeeeeeeee!

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is