?Náttúruparadís afhjúpast?


– gjörbreytt aðgengi að Héðinsfirði með göngum

[Morgunblaðið, 28. september 2010]

Héðinsfjarðargöng verða formlega opnuð næstkomandi laugardag og fyrir íbúa Fjallabyggðar – og aðra landsmenn – verður það bylting í samgöngumálum á Tröllaskaga. En með tilkomu ganganna gjörbreytist einnig aðgengi að Héðinsfirði, enda ekki þangað komist öðruvísi en með langri göngu yfir há fjöll eða sigla inn fjörðinn.

Í raun eru Héðinsfjarðargöng tvenn göng; annars vegar 3,9 km milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar og hins vegar 7,1 km á milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar, í daglegu tali nefnd Siglufjarðargöng og Ólafsfjarðargöng. Á milli ganganna, þ.e. í Héðinsfirði, verður áningarstaður þar sem hægt verður að leggja bílum og njóta útsýnisins. Lagðir voru tveir vegir í Héðinsfirði en þeir eru í einkaeigu og er lokað fyrir almenna bílaumferð.

Ekki fleiri bústaðir

?Áhrifin eru náttúrlega svo ótrúleg, ekki gjörbylting heldur miklu meira en það,? segir Bjarni Þorgeirsson, landeigandi í Héðinsfirði. ?Þetta er mjög fallegur fjörður, þarna er vatn og á og geysimikill silungur. Svo er berjalandið alveg ótrúlegt. Ég held því fram að með tilkomu ganganna sé náttúruparadís að afhjúpast og alveg ótrúleg breyting fyrir þá sem byrjuðu að fara þarna fyrir fimmtíu árum, að geta farið inn í fjörðinn á fimm mínútum.?

Landeigendur í Héðinsfirði eru yfir tuttugu og nokkrir sumarbústaðir í firðinum. Bjarni segir það hins vegar ekki standa til að auka við byggðina. ?Stór hluti Héðinsfjarðar er eldrauður á skipulagsuppdráttum vegna snjóflóðahættu, og því má ekki byggja þar. Þannig að það verða engir bústaðir eða neitt þarna.? Þó svo að gott berjalandið og silungsveiði hafi dregið fólk að firðinum í áranna rás er víst að margir hafa látið slæmt aðgengi stöðva sig, og umferð því mun minni en ella. Eftir laugardaginn eru hins vegar hindranirnar úr vegi, og víst að einhverjir landeigendur sjá á eftir ?firðinum sínum?.

Deilir firðinum glaður

?Auðvitað hefði verið rosalega gaman að geta haft hann svona eins og hann er,? segir Bjarni en bætir við: ?En þá fyrir hvern? Ég efast um að fleiri en eitt til tvö prósent Siglfirðinga og Ólafsfirðinga hafi komið í Héðinsfjörðinn. Og hvað þá landsmenn! En ég deili honum með landsmönnum með ánægju og vona að sem flestir fari þarna í gegn og virði hann fyrir sér, og fari í göngutúra.?

Spurt & svarað

Hvar er Héðinsfjörður?

Hann er
nyrst á Tröllaskaga, milli Hestfjalls að vestan og Hvanndalabyrðu að
austan. Héðinsfjörður er nokkuð styttri en Siglufjörður, tæplega 6 km
langur.

Er byggð í Héðinsfirði?

Í
byrjun 20. aldar bjuggu um fimmtíu manns á fimm bæjum í firðinum. Sökum
snjóflóðahættu og vaxandi atvinnulífs og öruggari afkomumöguleika á
Siglufirði og öðrum þéttbýlisstöðum lagðist fjörðurinn í eyði. Síðustu
Héðinsfirðingarnir fluttu burt árið 1951.

Hvernig komust menn í fjörðinn fyrir göngin?

Frá Siglufirði fara flestir um Hestskarð, austur af Skútudal, og tekur gangan um þrjár til fimm klukkustundir.

Hvers vegna ættu menn að halda í Héðinsfjörð?

Silungsveiði
í Héðinsfjarðarvatni og gott berjaland dregur fólk þangað hvert sumar
og víst er að Héðinsfjörður er mjög fagur á góðum degi og hin einstæða
ásýnd eyðifjarðarins lætur engan ósnortinn.

Heimild: Fjallabyggð.is

Horft út úr vestari hluta Héðinsfjarðarganga, sem í daglegu tali er nefndur Siglufjarðargöng,

í átt að þeim austari, sem gjarnan eru þá til samræmis kölluð Ólafsfjarðargöng.

[Fréttin birtist upphaflega 28. september 2010, á baksíðu Morgunblaðsins. Endurbirt hér með leyfi.]

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti: Andri Karl Elínarson Ásgeirsson | andri@mbl.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is