?Mættum við fá meira að heyra …?


Í dag kl. 16.30 tók Örlygur Kristfinnsson utan af fyrsta einstakinu af bók sinni, Svipmyndir úr síldarbæ, og kynnti hana fjölda áhugasamra gesta sem mættir voru í Bókasafn Fjallabyggðar á Siglufirði gagngert til að hlýða á kappann og samfagna honum.

Eins og við var að búast var þetta hin ánægjulegasta stund og glatt á hjalla og ljóst að texti Örlygs er afar vandaður, auk þess að vera bráðfyndinn á köflum. Ekki versnaði það þegar hann beitti fyrir sig leiklestri á sýnishornið, og var oft skellt upp úr.

Að þessu búnu afhenti hann formlega Ólafi Thorarensen eintak, en eins og komið hefur fram hér á vefnum er hann einn af þeim sem um er fjallað í bókinni og jafnframt sá eini á lífi, og það var einmitt kaflinn um lífshlaup hans sem fyrir valinu varð á kynningunni.

Bókin er væntanleg hingað norður á morgun eða hinn í almenna sölu, að því er fram kom í máli Örlygs.

En fyrir óþreyjufulla hefur Siglfirðingur.is fengið góðfúslegt leyfi útgefenda til að bera niður annars staðar í ritverkinu, og fyrir valinu hefur orðið þáttur Björns Frímannssonar. Og þar segir:

Bjössi Frímanns

Söngur
í góðra vina hópi og jarm kinda í vorhaganum. Hvað er yndislegra í
þessum heimi? En mikilvægari var kannski þráin eftir menntun og betra
lífi ? þráin sem aldrei var fullnægt.

Svipull sjávaraflinn og stopul síldarvinnan kallaði á það að menn ættu trilluhorn eða héldu skepnur til búdrýginda.

Og svo var liður í heimilisbúskap margra bæjarbúa að leggja einlæga rækt við kartöflugarðinn.

Þá voru nokkrir bæjarbúar með kýr og áttu lítið fjós heima í garði.

Varpa má fram þeirri kenningu að þegar
síldveiðarnar brugðust ár eftir ár í kringum 1950, atvinna dróst saman
og fátækt jókst hafi það neytt menn til að finna sér aukavinnu, eitthvað
sem þeir gætu skapað og stjórnað sjálfir.

Frístundabændur urðu margir á þessum síldarleysisárum og höfðu með sér
félag, Fjáreigendafélag Siglufjarðar. Þegar tími gafst stunduðu menn
heyskap á lóðum í bænum og afgirtum túnblettum um allan fjörð. Allar
frístundir voru notaðar.

Sauðburður í görðum og fjárrekstur um
götur. Þessi búskaparstörf mörkuðu mjög bæjarbraginn um áratugaskeið. Og
kindajarmur var hluti af margbreytilegri hljómkviðu kaupstaðarlífsins. Í
Markaskrá Siglufjarðar 1956 eru nöfn 242 Siglfirðinga sem áttu fjármörk
og á þeim tíma er talið að um 1100 fjár hafi verið á vetrarfóðrum innan
bæjarmarkanna.

Tíu til fimmtán kindur í kofa í garðinum eða í grennd við heimilið,
jafnvel fleiri. Og þetta var eins og að hafa frestað því að stíga
síðasta skrefið heiman frá æskudraumi fátæks sveitapilts um að verða
stórbóndi í blómlegri sveit. Eða arfur kaupstaðarpiltsins frá
sjálfsbjargarviðleitni föðurins í litlu þorpi.

Kristján á Eyri, Stjáni Sæby, Gústi Sæby, Fúsi í Hlíð, Ottó Jóakims,
Fúsi Gull, Óli Brandar, Gústabræðurnir Einar, Stebbi, Elli, Geiri,
Mikki, Hólmsteinn og Júlli, Óli Eiríks, Kambsbræðurnir Grímur, Gunnar og
Keli, Stebbi lögga, Bubbi lögga, feðgarnir Óli Gosa og Bubbi Óla, Siggi
á Dalabæ, Gunni lögga, Hafsteinn Hólm, Bóbó Teu, Baddi Óla, Sverrir
Óla. Héðinsfirðingarnir Þorvaldur á Vatnsenda, Gústi og Jói í
Grundarkoti. Úr Fljótunum: Óli lögga, feðgarnir Sigurbjörn og Anton á
Skeiði, Jón í Tungu, Frímannsbræðurnir Bjössi, Gestur og Jón, Helgi
Ásgríms, Gunni Símonar, Kristfinnur myndasmiður, Bjarni pól, Vignir
hringjari, Jósi í Fiskbúðinni, Raggi Gísla, Jón póstur, Keli á Miðsitju,
Holli Dýrfjörð, Ástvaldur í Tunnuverksmiðjunni.

Mörgum bæjarbúanum var mjög í nöp við þennan fjárbúskap í miðjum
kaupstaðnum og tíðum var togstreita og tortryggni milli fjáreigenda og
þeirra sem vildu leggja rækt við skrautjurtir. Og mikið var hægt að
býsnast yfir lausagöngu fjárins í bænum. Einstaka lambær tolldi ekki í
náttúrulegum bithögum í fjöllum eða fram til dala ef hún komst upp á
bragðið af safaríkum garðagróðri bæjarbúa.

Bæjarreglugerðin kvað á um að lausaganga búfjár væri bönnuð innan
bæjarmarkanna. Og tíðum mátti sjá lögregluþjóna eltast við fjárhópa og
reka þá síðan inn í port gömlu fangageymslunnar við torgið þar sem
eigendur Túlípanamóru og Venusvagnasurtlu máttu leysa þær út gegn vægri
fjársekt og loforði um að koma þeim nægilega langt í burtu. En hluti
vandamálsins í augum margra bæjarbúa var það að nokkrir lögregluþjónanna
voru fjáreigendur.

Lítil rollusaga:

Kona ein í suðurbænum heyrir kindur jarma um miðja nótt og rýkur út í
glugga af ótta við að þær séu komnar í sumarblómin hennar. Henni léttir
við að sjá að bannsettar rollurnar eru í garði nágrannans. Hún kann þó
ekki við annað en að hringja í lögregluna og láta vita af þessu.

?Halló, þetta er hjá lögreglunni.?

?Já, sæll. Ég vildi tilkynna að það eru rollur að háma í sig skrautblóm hér í næsta garði.??Það er nú það, ég veit ekki hvort þú ert nú að tala við rétta manninn
því ég er ekki lengur með kindur. Hætti fyrir nokkrum árum.?

Kannast þá konan við röddina og segir:

?Er þetta Bubbi??

?Já.?

?Já, blessaður. Þetta er Ína hérna á Laugarveginum. Heyrðu, þær eru í garðinum hjá henni mömmu þinni.??Nú, jæja? Þakka þér kærlega, við komum rétt strax.?

Þetta skeði eftir að kaupstaðurinn var girtur af og það sennilega orðin spurning hver bæri ábyrgð á bæjarbeitinni.

Bjössi Frímanns var einn af mörgum sem ráku svolítið fjárbú innan kaupstaðarmarkanna.

Veturinn og vorið voru þær árstíðir þegar kaupstaðarbóndinn naut þess
helst að umgangast skepnurnar sínar. Kumrandi ærnar yfir vænni heygjöf.
Síldarmjöli sáldrað yfir. Sláttur horna við garðaband. Svo lögðust þær
að friðsælu jórtri, Grána, Móra, Kolla, Surtla.

Sauðburðurinn var alltaf erfiður og þá fóru saman áhyggjur og ánægja í bland við svolitla sorg ef illa gekk og lömb drápust.

Fátt veitti meiri gleði en hoppandi lömbin í grænkandi brekku við fjárhúsið.

Heyskapurinn gat reynt á þrekið þegar vinnutarnir í mjölhúsinu voru
langar eða sumarið snerist í óþurrkatíð. Slegið með orfi og ljá í öllum
frístundum og svo komu Ragnheiður og krakkarnir og hjálpuðu til við að
þurrka og taka saman. Sundursprettir mjölpokar hlífðu sátunum uns heyinu
var komið í hlöðu. Mikill léttir að því loknu.

Göngur á björtum haustdegi. Smalamennskan í firðinum tók einn dag en í
Héðinsfirði, Siglunesi og á Dölum tvo daga. Og svo var safnið rekið í
réttina með hói og handasveiflum. Fyrst af Hvanneyrarströndinni sameinað
fénu úr Skarðsdal, svo að handan, austurhluta fjarðarins og af
Siglunesi. Síðast komu jafnan hetjurnar úr Héðinsfirði.

Eitt þúsund, tvö þúsund, þrjú þúsund fjár dregið í dilka. Frí var oft
gefið í barnaskólanum og fjölda fólks dreif að og fylgdist með.

Þreyttir og sælir siglfirskir fjáreigendur draga það á langinn að reka
heim í girðingu. Þeir spjalla um heimtur og vænleik lamba og súpa í
laumi á brennivínsfleygum.

Í sláturtíðinni eru miklar annir og sérstök stemning ríkir í
sláturhúsinu ofan við kirkjuna. Ákveðinn fjöldi lambanna er lagður inn í
Kaupfélagið og svo er eitthvað tekið heim, skrokkar og slátur.

Vambir hreinsaðar, lifrar hakkaðar, mör brytjaður og blandaður blóði og
rúgméli. Svo var saumað fyrir, sláturkeppirnir soðnir og lagðir í
sýrutunnur. Lappir og hausar sviðnir. Kjötskrokkarnir sagaðir og höggnir
niður og bitarnir saltaðir í tunnur. Allar matartunnurnar geymdar í
búri heimilisins. Bestu hryggirnir og lærin sett í frystihólf í Hrímni
eða Ísafold. Og alltaf eitthvað reykt af lærum og bógum.

Þessar annir allar bældu niður þá þungu tilfinningu sem góður bóndi bar í
brjósti yfir því að lóga fallegum lömbum og gömlum og gæfusömum ám. Og huggunin var að þessi fórn á fegurð og væntumþykju tryggði fjölskyldunni nægan mat í heilt ár.

Stundum komu upp erfiðleikar í sauðburðinum þar sem bregðast varð við
með skjótum hætti. Ær gat ekki borið og snúa varð lambi í
fæðingarveginum. Þá var Bjössi einkar laginn að bjarga móður og afkvæmi
og þurfti því ekki að leita til Sigga dýralæknis á Dalabæ eins og
flestir gerðu.

Vakandi auga og stuttur svefn.

Einu sinni varð að hafa hraðar hendur, skyrtuermarnar brettar upp undir
axlir og farið inn í skepnuna sem lá í krónni og þjáðist. Honum tókst að
snúa lambinu og færa það út og allt lukkaðist vel. Þegar hann svo var
að þvo sér uppgötvaði hann að giftingarhringur hans var horfinn. Í
flýtinum hafði hann gleymt að taka hann af fingri. Þrátt fyrir leit
fannst hann ekki aftur.

Ærin skilaði lömbum sínum að hausti en á fengitíma í desember brá svo við að hún hélt ekki og var lamblaus og geld næsta sumar.

Þá var henni lógað og við nánari leit í sláturhúsinu fannst
gullhringurinn í legi hennar. Og aftur varð það augljóst að Bjössi væri
giftur maður.

Í fyrstu útgáfu þessarar sögu sem skrifari heyrði kom það til greina að
næst þegar kindin bar hafi hringurinn endurheimst. Lamb hafi fæðst með
gullhring á fæti!

Sigurbjörn Frímannsson fæddist árið 1917 að Steinhóli í Flókadal, fjórði
í röð sextán barna Jósefínu Jósefsdóttur og Frímanns Guðbrandssonar.
Fluttu þau síðar á Austara-Hól í sömu sveit.

Bæir á þessum tíma voru flestir torfhús og svo var um Steinhól og
Austara-Hól. Þetta var fátækt fólk sem ekki hafði alltaf nóg að bíta og
brenna. En það sem á skorti bætti fólkið í þessari afskekktu sveit upp
með samhjálp og glaðværð.

Mikil sönghefð var í Fljótum og voru Bjössi og systkini hans gædd
mikilli söngnáttúru. Öll voru þau mjög lagviss og höfðu góðar raddir sem
nýttust þeim vel í eftirhermum og við að túlka það spaugilega í fari
náungans.

Langafi þeirra í móðurætt og forfaðir fjölmargra annarra söngvinna
Fljótamanna á miðri nítjándu öld, var Sigurður Sigmundsson sem hafði
viðurnefnið söngur. Hann kom sunnan úr Borgarfirði, var græðari og
kvennaljómi og allir þeir sem urðu vitni að söng hans báru að þeir hefðu
aldrei heyrt aðra eins rödd.

Og lengi var talað um það hvernig söngur hans við jarðarfarir í
Barðskirkjugarði hafi hljómað um allan Flókadal. En það er önnur saga.

Árið 1939 urðu tímamót í lífi Sigurbjörns þegar hann sigldi frá Fúluvík
við Laugalandsbakka í Fljótum og stefnan var tekin á Siglufjörð.
Báturinn hafði verið sendur eftir honum þegar hann hafði þegið boð um að
ganga til liðs við Karlakórinn Vísi. Og til að styrkja þetta boð og
tryggja veru hans til frambúðar á Siglufirði var honum einnig boðið
starf við Síldarverksmiðjur ríkisins.

Hann hafði getið sér gott orð sem söngvari á heimaslóðum. Þeir Björn
Dúason sungu saman á söngskemmtun á Ketilási og einnig hafði hann sungið
á skemmtunum á Sauðárkróki þar sem hann hermdi eftir landsþekktum
söngvurum á borð við Stefano Islandi, Sigurð Skagfield, Eggert
Stefánsson og Hrein Pálsson.

Þegar þetta gerðist hafði Sigurbjörn verið vinnumaður á Laugalandi um
tveggja ára skeið en nú urðu umskipti í lífi hans. Hann var kallaður til
liðs við einn þekktasta og besta karlakór landsins.

Sigurbjörn söng í mörg ár með Vísi á fyrra frægðarskeiði kórsins.
Þormóður Eyjólfsson var þá kórstjóri og kom bróðir hans, Sigurður Birkis
söngstjóri þjóðkirkjunnar, reglulega norður til að raddæfa söngvarana.
Farnar voru tónleikaferðir víða um land og sungið inn á hljómplötur sem
vinsælar urðu og mikið spilaðar í útvarpinu.

Á tónleikum kom það stundum fyrir að Bjössi Frímanns söng fyrir munn annarra einsöngvara og þótti fara vel með raddir þeirra.

Þannig var það á söngskemmtun Vísis í Bíósalnum um 1950. Hefðbundin
dagskrá á fyrri hluta hennar, m.a. nokkur einsöngslög þar sem þeir sungu
af alkunnum glæsileik, Daníel Þórhallsson, Sigurjón Sæmundsson og Aage
Schiöth. Í seinni hlutanum var slegið á léttari strengi og sté þá fram
Bjössi Frímanns og söng sömu einsöngslögin ásamt kórnum með röddum og
túlkun fyrri söngvara svo varla mátti greina mun.

Um miðja öldina söng Bjössi í Canto-kvartettinum sem hélt tónleika í
Nýja Bíó nokkur vor. Á þeim árum tóku þeir sig saman bræðurnir Bjössi og
Mundi og skemmtu á samkomum með söng og eftirhermum. Og þá gátu kátínan
og fagnaðarlætin orðið svo mikil að þakið var við það að rifna af
Bíóhúsinu eins og einn viðstaddra lýsti því.

Sagan segir að einhverju sinni er Bjössi skemmti á Hótel Höfn hafi hann
hermt eftir Sigurjóni Sæmundssyni prentsmiðjustjóra. Eins og góðra
leikara er háttur var það ekki bara röddin sem líkt var eftir, heldur
allar hreyfingar og látbragð og þegar best lét var hreinlega eins og
eftirherman breyttist í fyrirmyndina.

Í þetta sinn lék hann sveitunga sinn, hetjutenórinn Sigurjón, syngjandi
lag Sigfúsar Halldórssonar við texta Arnar Arnarsonar: Lítill fugl.

Þykist öðrum þröstum meiri,


þenur brjóst og sperrir stél.


Vill að allur heimur heyri


hvað hann syngur listavel.

Þau Sigurjón og kona hans, Ragna Sæmundsson, sem voru þarna stödd höfðu
heyrt atriðið áður og mátt þola hlátrasköll manna. Í þetta sinn stóðu
þau upp og yfirgáfu samkomuna með tiginmannlegu fasi.

Bjössi Frímanns vann mörg ár í mjölhúsi Síldarverksmiðjanna. Þar var í
tvö sumur Karl Guðmundsson, landskunnur leikari. Lögðu þeir lag saman
Kalli og Bjössi Frímanns, báðir miklir söngmenn og eftirhermur.

Þá var það eitt sinn að útlendingar voru á ferð í bænum og koma þeir í
Mjölhúsið og með þeim er leiðsögumaður sem segir þeim frá þessu mikla
húsi, því stærsta á landinu, mjölvinnslunni og vinnuferlinu. Og það er
töluð mikil franska þarna niðri á gólfinu milli hárra pokastæðnanna ? að
öðru leyti er þögn í húsinu, uppihald í bræðslunni og allir nærstaddir
mjölhússkallar leggja eyru við þessu framandi tungumáli. Svo fara
gestirnir og franskan þagnar ? svolitla stund ? en blossar þá upp að
nýju úr einni pokageilinni, háværar samræður á frönsku og haldið áfram
þar sem frá var horfið í lýsingum á mjölframleiðslunni og mikilvægi
síldariðnaðarins fyrir þjóðarbúið. Svo lýkur þessu tali og þeir halda
áfram að umstúa mjölpokum, eftirhermurnar, Bjössi Frímanns og Kalli
Gúmm.

Í annað sinn heyrðu þeir það mjölhúsmenn að Keli á Miðsitju og Fúsi í
Hlíð, báðir starfsmenn þarna, voru farnir að rífast hástöfum og úthúðuðu
hvor öðrum svo menn ætluðu ekki að trúa sínum eigin eyrum; vinirnir
sjálfir og gæðablóðin sem áttu svo margt sameiginlegt og aldrei höfðu
sagt svo mikið sem eitt hnjóðsyrði hvor í annars garð. Þegar betur var
að gáð voru það gárungarnir Bjössi og Kalli sem höfðu sett þennan
leikþátt á svið handan við nálæga pokastæðu.

Það mun hafa verið seint á sjötta áratugnum að Bjössi hætti að syngja
með Vísi og koma fram opinberlega. Hann var í raun hlédrægur og
viðkvæmur fyrir aðfinnslum og því að hafa mögulega sært náungann.

Síðar söng hann þó með Samkór verkalýðsfélaganna og kirkjukórnum.

Hann lést árið 2005, 83 ára gamall, saddur lífdaga, en var sísyngjandi
síðustu dægrin sem hann hafði meðvitund. Hann harmaði það alla ævi að
hafa ekki öðlast tækifæri á unga aldri til að mennta sig í sönglist.
Engu að síður var söngurinn hálft líf hans og yndi.

Stór stund.

Fyrsta bókin opnuð.

Höfundurinn var auðvitað myndaður í bak og fyrir í tilefni dagsins.

Fjölmargir komu til að hlýða á upplesturinn og gleðjast með bókarhöfundi.

Og í raun var fullþröngt, enda áhuginn gríðarmikill.

Ólafur Thorarensen fylgdist með af athygli

og kvaðst í tölu litlu síðar vera yfir sig glaður með úrvinnslu og tök Örlygs á efninu.

Höfundur les.

Þarna var glatt á hjalla.

Rithöfundurinn og fræðimaðurinn.

Oft skelltu áheyrendur upp úr og sjálfur átti Örlygur bágt með sig.

Að upplestri loknum áritaði hann eintak bókarinnar.


Og Ólafur Thorarensen varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að taka við því.

Og átti það fyllilega skilið.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is