?Einangrun Siglufjarðar rofin?


Í tilefni af vígslu Héðinsfjarðarganga er gaman að rifja upp nokkur atriði varðandi jarðgöng milli Siglufjarðar og nágrannabyggða.

?Að fá akveg alla leið framan úr Stíflubotni og til Siglufjarðar er markið sem báðar sveitirnar þurfa að stefna að ? ef staðhættir á nokkurn mögulegan hátt leyfa það ? á meðan við ekki fáum göng með sporbraut gegnum fjöllin og vagna knúða rafafli úr Skeiðsfossi.? Þetta sagði Jón Jóhannesson ritstjóri í siglfirska blaðinu Fram haustið 1918.

Bæjarstjórn Siglufjarðar beindi þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnarinnar haustið 1929 ?að hún láti rannsaka kostnað við að grafa jarðgöng gegnum fjallið milli Siglufjarðar og Fljóta ? Botnaleið ? eða annars staðar ef tiltækilegra þætti,? sagði í Siglfirðingi.

Þegar Strákavegurinn var fyrst til umræðu á Alþingi, árið 1954, var rætt um svonefndan Siglufjarðarveg ytri sem átti að leggja ?meðfram sjónum? og ?fyrir Stráka,? eins og sagði í Morgunblaðinu. Kostnaður við veginn var áætlaður 10 milljónir króna en göng úr botni Siglufjarðar til Fljóta voru talin kosta 27 milljónir króna.

Eftir mælingar á vegarstæðinu sumarið 1955 vaknaði sú hugmynd ?að gera göng í gegnum fjallið,? eins og Alþýðublaðið orðaði það, og átti þar við Strákafjall. Lagning vegarins hófst haustið 1956.

?Jarðgöngin gegnum Stráka verða mestu jarðgöng hérlendis, um einn kílómeter á lengd og 6-8 metrar á breidd og tvær akbrautir.? Frá þessu var sagt í Alþýðublaðinu vorið 1959, en síðar var ákveðið að hafa göngin einbreið en með útskotum.

Framkvæmdir við Strákagöng hófust sumarið 1959. Þá voru sprengdir 30 metrar og verkfærin voru ?þrjár loftpressur, ámokstrarvél og bílar,? að sögn Vísis.

Strákagöng voru formlega tekin í notkun í nóvember 1967. Þau voru 793 metra löng. ?Einangrun Siglufjarðar rofin,? sagði Morgunblaðið.

Á ráðstefnu á vegum Verkfræðingafélags Íslands árið 1981 komu fram hugmyndir um að tengja byggðir við utanverðan Eyjafjörð saman með jarðgöngum. Haustið 1989 voru gerðar áætlanir um fjögurra kílómetra löng göng, í tvennu lagi, milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.

Sverrir Sveinsson og fleiri lögðu fram þingsályktunartillögu um jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar á Alþingi vorið 1990. Um haustið var tillögunni vísað til ríkisstjórnarinnar.

Nafnið Héðinsfjarðargöng virðist fyrst hafa verið notað í fjölmiðlum vorið 1996.

Göngin komust inn á jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar í byrjun ársins 2000.

Að loknu útboði ákvað ríkisstjórnin sumarið 2003 að fresta framkvæmdum við göngin um þrjú ár, vegna þensluástands í þjóðfélaginu.

Samningar við Metrostav og Háfell um Héðinsfjarðargöng voru undirritaðir í maí 2006. Sturla Böðvarsson tendraði fyrstu formlegu sprenginguna í september 2006. Kristján L. Möller sprengdi síðasta haftið í apríl 2009.

Vestari hluti Héðinsfjarðarganga er 3,9 km með vegskálum og eystri hlutinn 7,1 km. Vegurinn milli gangamunna í Héðinsfirði er um 600 metrar. Vegalengdin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar styttist um 76% að sumri til og um 94% að vetri til.

Ef jarðgöng verða gerð úr Hólsdal á Siglufirði til Fljóta verða þau 4,7 kílómetra löng, miðað við að þau séu í 100 metra hæð.

Kort sem birt var í Alþýðublaðinu þegar Strákagöng voru vígð, haustið 1967.

Mynd: Alþýðublaðið, 1967.

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is